Ísland: Saklaust fórnarlamb eða sjálfskaparvíti

Það voru góðir gestir í Silfri Egils 5. april. Michael Hudson og John Perkins lýstu af mælsku og eldmóði hættum frumskógarins í alþjóðlegum kapítalisma sem nú hafa lagt litla Ísland í einelti. Áður hafði Jón Helgi Egilsson sýnt fram á það með trúverðugum rökum að alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er að gefa Íslandi inn lyf sem passar ekki við sjúkdóminn. Ketill Sigurjónsson lögfræðingur varaði við glannalegri draumsýn um að þetta “muni allt saman reddast” þegar við byrjum að dæla olíu upp af Drekasvæðinu. Þeir Hudson og Perkins eru báðir svo róttækir í sinni sýn á heiminn, að hvorugum þeirra er boðið í mainstream fjölmiðla í Ameríku. “Ameríska lýðræðið” þolir ekki svona menn. Þess vegna eru þeir jaðrinum.

Hvað eru þeir að segja? Þeir eru að afhjúpa Ameríska heimsveldið og heimsyfirráð þess. Þeir birta ógnvekjandi tölur um misskiptingu auðs og tekna innan heimsveldisins. Á fáeinum áratugum hefur “the corporate elite” hins fjölþjóðlega heimskapítalisma vaxið frá því að eiga 37% af þjóðarframleiðslu Bandaríkjamanna upp í það að eiga 66%, á sama tíma og að laun almennings hafa rýrnað að kaupmætti. Þessar tölur tala sínu máli um að í Bandaríkjunum ríkir auðræði (eins og Ragnar Önundarson hefur kallað það). Plutocracy heitir það og er andstæða lýðræðis. Af 100 stærstu hagkerfum heimsins eru 50 fjölþjóðlegir auðhringar. Þegar kalda stríðinu um heimsyfirráð við Sovétríkin lauk, tók við nýtt stríð. Það snýst um eignarhald eða forræði yfir auðlindum heimsins og stjórn á lýðnum í þjóðríkjunum þar sem örbirgð almennings er öflugasta vopnið.

Þeir hafa mikið til síns máls ef litið er á óligarkana (ræningjar sem beita auðæfum sínum til að ná pólitískum yfirráðum og beita pólitískum yfirráðum til þess að kasta eign sinni á auðlindir og auðæfi) – í þriðja heiminum. Þá blasir við þéttriðið net örfárra olígarka sem hafa sölsað undir sig auðæfi fátækra þjóða og eru partur af hinni alþjóðlegu “corporate elite”. Í flestum tilvikum er um að ræða glæpamenn. Dæmi: Suharto Indónesíuforseti, forsetar Filipseyja, valdræningjarnir í Afríku, frá Nígeríu og Angóla og allt þar á milli, hernaðarmafíósar sem lagt hafa undir sig lönd suður- og mið-Ameríku með stuðningi CIA, valdaræningjar í mið-Asíu og þannig mætti lengi telja.

Helstu stofnanir heimskapítalismans (IMF, Alþjóðabankinn, og alþjóðaviðskiptastofnunin WTO) lúta valdi og pólitísku forræði Bandaríkjanna. Valdatímabil Bush táknaði að “the corporate elite” réði um leið yfir pólitísku hernaðarlegu valdi Bandaríkjanna. Kosning Obama þýðir að lýðræðið á svolítinn séns í að halda aftur af þessu ofurvaldi. Það kom á óvart hvað Perkins var í raun bjartsýnn á möguleika lýðræðisins til þess að hemja og ná stjórn á þessu yfirþyrmandi og illskeytta auðvaldi. Hann nefndi sem dæmi að lýðræðisbylting hefði lukkast í 8-10 ríkjum S-Ameríku á seinustu árum. Það vekur vonir. Stærstu spurningarnar um framtíðina snúast um hvort stjórnvöld í rísandi stórríkjum (Kína, Indland, Brasilía, etc.) muni gæta hagsmuna almennings eða ganga í lið með óvinunum.

Hvar kemur Ísland inn í þessa mynd? Svarið er það að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem er ein helsta valdastofnun heimskapítalismans, hefur tekið Ísland upp í skuld. Öllum gestunum í Silfri Egils bar saman um að ferill sjóðsins væri blóði drifinn í samskiptum við ríki fátæka heimsins og að lyfjagjöfin, sem sjóðurinn beitir, sé röng. Líka hér á Íslandi. En er það rétt að Ísland hafi orðið fyrir (efnhagslegri) árás heimsauðvaldsins sem ætla að komast yfir auðlindir þjóðarinnar og beita örbirgð skuldafangelsisins til að halda þjóðinni í skefjum, eins og gerst hefur í Afríku? Vorum það ekki “við sjálf” sem báðum um öll þessi lán? Vorum það ekki “við sjálf” (það er að segja óligarkarnir okkar) sem sökktum þjóðinni í skuldir? Þurftum við nokkra utanaðkomandi aðstoð til þess? Hvort erum við heldur saklaus fórnarlömb utanaðkomandi afla, sem vilja hneppa okkur í þrældóm eða er um að ræða sjálfskaparvíti sem þýðir að ógæfa þjóðarinnar er henni sjálfri og forystumönnum hennar að kenna?

Væri ekki rétt að Egill efndi til framhaldsumræðu um þetta fyrir kosningarnar?