Þetta var réttur staður og stund til að kom þessum skilaboðum á framfæri því að skv. lögbókinni er Ólafur Jóhannesson, fv. formaður Framsóknarflokksins, höfundur verðtryggingarinnar. Verðtryggingin var leidd í lög snemma árs 1979 og lögin jafnan kennd við höfund sinn – kölluð Ólafslög – enda kvaðst Ólafur hafa samið frumvarpið “við eldhúsborðið heima hjá sér.” Þótt bæði ég og aðrir hafi véfengt höfundarrétt lagaprófessorsins að þessari frumvarpssmíð, hefur það lítinn árangur borið.
Nú vilja flestir gleyma því af hverju meirihluti alþíngis greip til þess neyðarúrræðis á “framsóknaráratugnum” að lögleiða verðtryggingu fjárskuldbindinga. Skýringin er einföld. Með viðvarandi 25-30% verðbólgu var þjóðargjaldmiðillinn – íslenska krónan – orðin ónothæf í viðskiptum. Enginn vildi spara. Nýstofnaðir lífeyrissjóðir brunnu á verðbólgubálinu. Lán báru neikvæða vexti og voru að hluta styrkir til skjólstæðinga bankakerfis, sem var rekið af samtryggingarkerfi flokkanna. Þar af leiðandi var enginn nothæfur mælikvarði á arðsemi fjárfestinga. Allt borgaði sig af því að lán voru að hluta gjafafé.
Tímabundin ráðstöfun
Eignatilfærslan var stöðug frá sparifjáreigendum til skuldara. Verðtryggingin var á sínum tíma harkaleg aðgerð. Hún þjónaði þeim þríeina tilgangi að örva sparnað, draga úr lánsfjáreftirspurn og auka arðsemi fjárfestinga. Það sem meira var. Hún skilaði tímabundnum árangri. Það dró úr verðbólgu, Arðsemi fjárfestinga jókst. Með verðtryggingarkrónu var hægt að veita lán til langs tíma, sem hefði verið útilokað með 30-40% nafnvöxtum.
En þótt Ólafi Jóhannessyni, Fljótamanni og formanni Framsóknarflokksins, hafi áreiðanlega gengið gott eitt til með setningu Ólafslaga, var lausnin ekki gallalaus. Reyndar átti þetta ævinlega að vera tímabundin ráðstöfun. Verðtryggingin átti að vera eitt af hjálpartækjum okkar til að kveða niður verðbólgu. Annað hjálpartæki var þjóðarsátt um launahækkanir innan marka framleiðniaukningar. Þriðja hjálpartækið var EES-samningurinn frá 1994.
EES-samningurinn bætti samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs með stækkun heimamarkaðar, samræmdum samkeppnisreglum og greiðara aðgengi að fjármagnsmörkuðum. Þá vantaði fyrst og fremst eitt til viðbótar: Aðgengi að traustum, alþjóðlegum gjaldmiðli. Það hefði samkvæmt skilgreiningu þýtt afnám verðtryggingar. Af því að verðtryggingin var upphaflega tilkomin vegna þess að við réðum ekki yfir gjaldmiðli, sem var nothæfur í víðskiptum.
Það er þetta seinasta sem brást. Frá og með gildistöku EES-samningsins 1994 hófst vaxtarskeið í íslensku efnahagslífi, framan af við tiltölulega lága verðbólgu og stöðugleika. Á þessum árum, upp úr 1995 fram að einkavæðingu ríkisbanka 2002, uppfylltum við Íslendingar öll skilyrði fyrir þátttöku í evrópska myndsvæðinu, í framhaldi af aðgengi okkar að hinum sameiginlega innri markaði. Verðbólgan var lág. Ríkisfjármálin voru í lagi. Skuldir hins opinbera voru innan marka. Vextir voru innan settra marka. Veikleikinn var óstöðugleiki í gengi krónunnar sem hefði þó verið haminn innan vikmarka ERM-kerfisins.
Öfganna á milli
Því miður sofnaði þjóðin á verðinum. Velgengnin steig forráðamönnum lands og þjóðar til höfuðs svo að þeir fylltust drembilæti og hroka. Menn töldu sér trú um að fölsk lífskjör, byggð á erlendum lántökum og hóflausri skuldsetningu, væri til marks um meðfædda yfirburði og eigið ágæti. Fyrirhyggja, byggð á dýrkeyptri reynslu, var látin lönd og leið. Menn töldu sér trú um að þrjú hundruð þúsund manna þjóð gæti haldið uppi sjálfstæðu myntsvæði í alþjóðavæddu fjármálakerfi. Sú hugmynd var frá upphafi galin. Ef hrunið hefur kennt okkur eina lexíu, sem við megum aldrei gleyma, þá er hún þessi: Aldrei aftur. Etjum ekki þjóðinni aftur út í feigðarflan af þessu tagi með ónothæfan gjaldmiðil sem flotholt. Þá er voðinn vís.
Hvað má af þessu læra? Verðtryggingunni var komið á af illri nauðsyn á sínum tíma. Þetta átti að vera skammtímaráðstöfun. Það var vanrækslusynd að láta hana festast í sessi. Aukaverkanirnar eru farnar að valda verulegum þjáningum. Ríkisstjórnir komast upp með glapræði í hagstjórn af því að afleiðingunum er sópað undir teppi verðtryggingarinnar. Slegið á frest. Í stað þess að draga úr lánsfjáreftirspurn og verðbólgu ýtir hún nú orðið undir hvort tveggja. En það versta er að við höfum sveiflast úr einum öfgum í aðrar. Áður voru hagsmunir sparifjáreigenda gersamlega fyrir borð bornir. Skuldarar þurftu ekki að borga lán sín til baka nema að hluta. Kerfið ýtti undir feilfjárfestingar, litla framleiðni og lélega arðsemi.
Með verðtryggingunni var dæminu snúið við. Fjármagnseigendur (þ.m.t. fjármálastofnanir og lífeyrissjóðir) hafa allt sitt á þurru.Þeir taka nánast enga áhættu.Það þarf alla vega kerfishrun til að hagsmunum þeirra sé ógnað. En hvort heldur er ytri áföll eða verðbólguskellir bitna með fullum þunga á skuldurum. Greiðslubyrði þeirra er orðin svo þung að það er lítið aflögu til fjárfestingar, umfram lágmarksneyslu. Það er þess vegna sem hagkerfið er að skreppa saman. Við erum að stefna í verðhjöðnun í stað verbólgu. Það er óþekkt landsvæði – terra incognita – miðað við fyrri reynslu verðbólguþjóðfélagsins.
Er þá kominn rétti tíminn til að losa okkur út úr vítahring verðtryggingarinnar og jafna áhættu og byrðum milli lánardrottna og skuldara? Eða er verkefnið einfaldlega svo stórt að við það verði ekki ráðið, nema með því að skipta um gjaldmiðil – leita skjóls innan virkisveggja stærra myntsvæðis? Þetta er stóra spurningin um peningamálastefnu til framtíðar, í stað þeirrar sem hrundi. Stjórnmálaflokkar, sem skila auðu varðandi þessa spurningu fyrir kosningar, eru ekki á vetur setjandi eftir kosningar.
(Höf. hefur starfað í ríkisstjórnum með Alþýðubandalagi, Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki