Kjörorði fundarins: “Lausnir handa okkur öllum” var varpað upp á vegg með stórri mynd af formanninum unga, Sigmundi Davíð. Ég hélt til að byrja með að Hudson ætlaði að sanna að tillaga Framsóknarflokksins um 20% afskrift á skuldum fólks og fyrirtækja væri kórrétt hagfræði – ef ekki siðfræði. En Hudson gekk miklu lengra. Það var helst á honum að heyra að þjóðir ættu alls ekki að borga skuldir sínar, enda hefðu þær yfirleitt ekki til þeirra stofnað. Það fylgir sögunni að Hudson er sérfræðingur í Sumer og Babylon, árþúsundum fyrir Krist. Þar tíðkaðist það, að sögn Hudson, að þegar nýir landstjórnamenn komust til valda voru allar skuldir afskrifaðar.
Af skúrkum og fórnarlömbum
Það er ástæðulaust með öllu að rengja sögu Hudson um Sumer. Hitt er verra að það hafði enginn haft fyrir því að segja Hudson undan og ofan af skuldastöðu Íslands eftir hrun. Í máli hans kom hvergi fram að hann gerði greinarmun á ríkisskuldum og skuldum með ríkisábyrgð (sovereign debt) annars vegar og skuldum einkaaðila hins vegar. Til dæmis virtist Hudson standa í þeirri trú að Íslendingar væru fórnarlömb Breta í Icesave deilunni. Það er sem kunnugt er misskilningur.
Íslenskir bankastjórar með íslensk bankaleyfi ráku íslensk bankaútibú í útlöndum á ábyrgð íslenskra stjórnvalda með lögbundinni innlánstryggingu fyrir sparifjáreigendur. Þessir íslensku bankastjórar yfirbuðu heimamarkaðinn með góðum árangri og kenndu við “tæra snilld.” Þetta var þeirra aðferð við að endurfjármagna skuldir íslensku bankanna eftir að aðrar fjármögnunarleiðir lokuðust. Hverjir voru skúrkarnir í þessu máli? Bankastjórar íslensku bankanna. Hverjir voru fórnarlömbin? Breskir og hollenskir sparifjáreigendur og að lokum íslenskir skattgreiðendur.
Við þurfum ekki annað en að setja okkur í spor Breta eða Hollendinga og ímynda okkur, hvernig við hefðum brugðist við, ef t.d. Hollendingar hefðu sett upp slíka yfirboðsbanka hér á landi og stungið svo af með þýfið. Hvað hefðum við sagt? Hvaða kröfur hefðum við gert til íslenskra stjórnvalda um að gæta hagsmuna íslenskra sparifjáreigenda? Og að sjá til þess, að hinir erlendur skúrkar fengju maklegt málagjöld. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að hinn nýi hagfræðiráðgjafi Framsóknar, hr. Hudson, meini í alvöru að Íslendingar eigi að hundsa allar lög- og samningsbundnar skuldbindingar sínar gagnvart öðrum þjóðum. Stendur ekki skrifað að það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skulið þér og þeim gjöra?
Kapítalismi að amrískri fyrirmynd
Þó fór í enn verra þegar hr. Hudson fór að segja okkur frá því hvernig Evrópusambandið hefði rústað efnahag Eystrasaltsþjóða. Hann lýsti því, hvernig einkavæðingin þar eystra eftir fall kommúnismans hefði leitt til þess að gamla nómenklatúran (kommaelítan) hefði eignast lönd, fasteignir og fyrirtæki og jafnvel einkarétt á nýtingu takmarkaðra auðlinda. Þetta er reyndar það sama og gerðist í Rússlandi eftir fall Sovétríkjanna (og á Íslandi með gjafakvótunum og einkavinavæðingu ríkisbankanna). Að vísu allt í smækkaðri mynd við Eystrasalt og á Íslandi.
En Hr. Hudson vildi kenna Evrópusambandinu um að með þessu var lagður grundvöllur að ójafnaðarsamfélagi eftir fall kommúnismans. U.þ.b. 1% hinna ofurríku eignaðist mikinn meirihluta auðsuppsprettu þessara þjóða á sama tíma og almenningur bjó við kröpp kjör. Þetta er í stórum dráttum rétt lýsing hjá hr. Hudson. Eystrasaltsþjóðirnar sitja uppi með nýríkar elítur í ójafnaðarþjóðfélögum, rétt eins og vð Íslendingar. Hinsvegar eru það hreinar ýkjur að þetta hafi verið Evrópusambandinu að kenna. Eystrasaltsþjóðirnar endurheimtu sjálfstæði sitt árið 1991. Þær gengu ekki í Evrópusambandið fyrr en 13 árum síðar, árið 2004. Þær búa enn við “sjálfstæða” gjaldmiðla, sem þær hfa bundið við mastur evrunnar.
Hvert leituðu forystumenn Eystrasaltsþjóða að fyrirmyndum um hagvaxtarmódelið sitt? Til Ameríku. Þeir trúðu á Washingtonviskuna. Þeir tóku upp frjálshyggjumódelið. Ríkisafskipti í lágmarki. Markaðslausnir á öllum sviðum. Einkavæðing, lágir skattar, forréttindi fyrir erlent fjármagn. Fjármagnið kom reyndar einkum frá grannþjóðum, þ.e. frá Norðurlöndum. Norðurlandamenn eiga banka, fjármálastofnanir, tryggingarfyrirtæki, hótel, ferðabransa, spilavíti og smásöluverslun.
Það er engin leið að kenna Evrópusambandinu um þá erfiðleika sem Eystrasaltsþjóðirnar eiga nú við að glíma á efnahagssviðinu. Þetta er sjálfskaparvíti. Þeir leituðu ekki fyrirmynda í norræna módelinu. Þeir létu undir höfuð leggjast að skattleggja hina nýríku í þágu skólakerfis og velferðarsamfélags. Þeir trúðu því að frjálshyggjuformúlan tryggði þeim öran hagvöxt. Þeir trúðu því sem þeim var sagt að “The European Social Model” – velferðarríkið evrópska – væri úrelt og heyrði til liðinni tíð. Ekkert af þessu er Evrópusambandinu að kenna.
Samanburður: Ísland og Eystarasaltsþjóðir
Eystrsasaltsþjóðir mega að vísu þakka sínumn sæla fyrir að þrátt fyrir aðsteðjandi heimskreppu og fjárflótta er ekki eins illa fyrir þeim komið og okkur Íslendingum, þrátt fyrir allt. Hvers vegna ekki? Eru þetta ekki veikburða smáþjóðir með sjálfstæðan gjaldmiðil rétt eins og við? Að vísu. En sá er munurinn að bankar og fjármálastofnanir eru að mestu í eigu útlendinga (Skandínava) . Það þýðir að Eystrasaltsþjóðir sitja ekki uppi með neitt “Icesasve.” Skandínavarnir verða að taka á sig hrun sinna eigin banka.
Þótt fólk og fyrirtæki séu skuldug í erlendum gjaldeyri, þá er gjaldmiðillinn þeirra ekki hruninn eins og íslenska krónan.Gjaldmiðlarnir eru nefnilega bundnir við evruna. Það er að vísu dýrt fyrirkomulag og kallar á öfluga gjaldeyrisvarasjóði. En erlendu skuldirnar hafa ekki tvöfaldast við gjaldmiðilshrun eins og á Íslandi. Það er vörn við vá. Og hvaða lausnir eygja þeir í framtíðinni? Þeir eiga tveggja kosta völ:
Annars vegar “íslensku leiðina” með gengisfellingu, óðaverðbólgu, ofurvöxtum , tvöföldun skulda í innlendum gjaldmiðli, fjöldagjaldþrot, eignamissi, kerfishrun og “fullveldisafsal til AGS.”. Eða að halda fast við markaða stefnu um að verjast áhlaupinu með upptöku evru – alþjóðlega trausts gjaldmiðils – sem verði burðarás í endurreisninni. Þetta má heita lán í óláni. Það er ekki tilviljun að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sér það helst þjóðum Mið- og Austur- Evrópu til bjargar, undan fjárflótta áhættufjármagns, að leita skjóls í evrunni. Kannski snillingarnir hjá AGS hafi lært eitthvað af Asíukreppunni 1997-98? Alla vega mönnuðu þeir sig upp í að biðjast afsökunar á mistökum sínum þá.
ESB: Varnarbandalag gegn hamfarakapítalisma
Mér heyrðist kjarninn í málflutningi Michaels Hudson vera þessi: Fjármálakerfi heimsins hefur vaxið framleiðslukerfinu yfir höfuð. Pappírsauðurinn – sem er ekkert annað en krafa á hin raunverulegu verðmæti framleiðslukerfisins – er orðinn a.m.k. tífaldur á við hina raunverulegu þjóðarframleiðslu heimsins. Þessi ofvöxtur pappírsauðsins í höndum “the corporate elite” er orðin að meinsemd sem má líkja við engisprettufaraldur í dýraríkinu. Engisprettufaraldur skilur hvarvetna eftir sig sviðna jörð.
Auðræðið – ránsfengskapitalisminn ameríski – hefur vaxið þjóðríkjunum yfir höfuð. Þau hafa enga burði ein og sér til að standast hamfarirnar. Hudson heldur því fram að Evrópusambandið sé hluti af vandanum. Hann heldur því fram að Íslendingum muni farnast best í þessu hættulega umhverfi einir á báti. Ég segi: Við höfum þegar sopið seyðið af slíkri tilraun. Smáþjóðir heimsins hafa ekki burði til að standast áhlaup hamfarakapitíalismans einar og sér. Smáþjóðir Evrópu verða að snúast til varnar með samstöðu. Evrópusambandið – og alveg sérstaklega gjaldmiðilssamstarfið á evrusvæðinu – er varnarbandalag gegn hamfarakapítalismanum.
Yfirstandandi heimskreppa þýðir að nú reynir á, hvort þetta fjölþjóðlega samstarf stenst áhlaupið. Verði sú raunin, að evrusvæðið standi af sér áhlaupið, þá mun Evrópusambandið koma sterkara út úr kreppunni en nokkru sinni fyrr. Framtíðin mun brátt leiða það í ljós. En eitt er víst: Einar og sér munu smáþjóðir Evrópu ekki standast þær efnahagslegu hamfarir af mannavöldum sem hnattvæðing ameríska bófakapítalismans hefur hleypt af stað. Kannski er til of mikils mælst að maðurinn frá Missouri sé með á þessum nótum.