Dæmi: Sparifjáreigendur, breskir og hollenskir hjá Icesave, voru í góðri trú um að einstaklingsbundnar sparifjárinnistæður þeirra nytu lögbundinnar tryggingar. Það er rétt skv. íslenskum lögum. Íslenskum stjórnvöldum (þ.m.t. eftirlitsstofnunum) var fullkunnugt um þetta. Um það ríkti engin óvissa. Það var á valdi íslenskra stjórnvalda að firra íslenska skattgreiðendur þeirri áhættu að innistæðutryggingin lenti á þeim. Þau brugðust. Það er lýðskrum af verstu sort í bland við þjóðrembu, þegar íslenskir stjórnmálamenn, sem brugðust umbjóðendum sínum og sváfu á vaktinni, reyna að kenna öðrum um.
Það er síðasta sort að varpa eigin sök á aðra með því að kynda undir útlendingahatri. Það er það seinasta sem við höfum efni á þessi misserin. Eina spurningin sem enn er ósvarað í þessu máli er, hversu mikið má innheimta upp í skuldina af útistandandi eignum Landsbankans. Jú, og eitt í viðbót: Hvaða kjör fást á þeim lánum sem Bretar og Hollendingar bjóða íslenska ríkinu til að standa við innistæðutrygginguna (ca. 650 milljarðar íkr.)? Þar munar miklu hvort vextirnir verða með “Íslandsálagi” ( allt að 7% með áhættuálagi) eða hvort miðað verður við vexti Englandsbanka sem eru að nálgast núll. Munurinn getur numið allt að útflutningsverðmæti sjávarafurða á ári. Það munar um minna. Hverjir stofnuðu til þessara skulda? Bankastjórar hins einkavædda Landsbanka. En þeir gerðu það í skjóli þess að innistæðurnar væru lögum samkvæmt tryggðar af ríkinu. Ríkið hafði ýmis úrræði til að firra skattgreiðendur þessari áhættu og ábyrgð, en “ríkið” brást. Þetta skýrir hvers vegna banka- og gjaldmiðilshrunið velti skuldum yfir á ríkið (skattgreiðendur). Dæmi: (1) ríkisábyrgðin vegna Icesave, (2) útlánatap Seðlabankans, (3) lántaka vegna gjaldeyrisforða Seðlabankans til að halda uppi gengi krónunnar, (4) endurfjármögnun ríkisbanka, (5) ríkisábyrgð á innistæðum íslenska bankakerfisins, (6) ríkisábyrgð á skuldum ríkisstofnana (einkum innan orkugeirans) í erlendum gjaldeyri. Fleira mætti tína til. Dr. Beauter, einn fremsti sérfræðingur heims í fjármálakreppum og skuldasúpum, telur að skuldir ríkisins , þ.e. skattgreiðenda, verði þegar upp verður staðið, u.þ.b.sem svarar 1½ þjóðarframleiðslu
2. Og þá er komið að kjarna málsins varðandi málflutning Hudson. Hingað til höfum við bara verið að tala um ríkisskuldir. Allt sem heitir skuldir einkaaðila, þar með talið risavaxnar erlendar skuldir hinna einkavæddu banka, er þar fyrir utan. Bankarnir urðu einfaldlega gjaldþrota. Þeir eru nú þrotabú. Erlendir kröfuhafar þeirra geta bara innheimt upp í kröfur það sem fæst fyrir eignir bankanna. Þessar skuldir einkaaðila koma ríkinu (les skattgreiðendum) ekkert við. Um það er enginn ágreiningur. Gagnrýni mín á Hudson var um það að umræða hans um skuldasúpu þjóðríkja eftir banka- og gjaldmiðilshrun var ófagleg og ófullnægjandi þar sem hann gerði engan greinarmun á ríkisskuldum, skuldum sem ríkisstjórnir í umboði almennings í lýðræðisríkjum hafa stofnað til og bera ábyrgð á, annars vegar, og skuldum einkaaðila hins vegar. Að sjálfsögðu ber okkur (skattgreiðendum) engin skylda til að borga skuldir einkaaðila. Þeir tóku lán og fengu mikinn arð af fjárfestingum sínum. Þeim ber líka að standa undir tapi ef fjárfestingarnar bregðast. Þeir einkavæddu gróðann og eiga ekki að komast upp með að þjóðnýta tapið. Þú, Kristján Torfi, lofar fordæmi Obama um að þjóðnýta tap einkaaðila, sem þýðir að varpa skuldunum yfir á herðar skattgreiðenda í framtíðinni. Ég hallast fremur að því grundvallarsjónarmiði Merkel Þýskalandskanslara að þeir sem hirtu gróðann eigi sjálfir að bera tapið.
3. .Ég stend við allt sem ég sagði um samanburð við stöðu Eystrasaltsþjóða annars vegar og okkar Íslendinga hins vegar. Þeir eru betur settir að því leyti að gjaldmiðlar þeirra, tengdir evru, hafa ekki hrunið, sem þýðir að erlendar skuldir hafa ekki tvöfaldast í erlendum gjaldmiðli með öllum þeim afleiðingum sem því fylgir og Íslendingar þekkja manna best. Það er einfaldlega rangt sem þú segir, Kristján Torfi: “… það breytir engu hvort þú ert stór eða lítill.” Það breytir öllu hvort skuldirnar eru í eigin gjaldmiðli eða ekki. Það breytir öllu hvort þú ert hluti af stóru myntsvæði með alþjóðlegan gjaldmiðil sem stenst áhlaup hersveita græðginnar eða ekki . Það breytir öllu hvort þú ert varnarlaus fyrir engisprettufaröldrum heimskapítalismans – jafnvel svo mjög að “jöklabréf” spekúlanta í vaxta- og gengismun leggja þig að velli – eða ekki. Það er þess vegna sem þjóðir Mið- og Austur-Evrópu eru verr staddar en aðildarþjóðir evrusvæðisins sem byggja á traustari vörnum.
4. Þýskur hagfræðingur með áratuga reynslu í Austur-Evrópu orðar þetta svona: “Niðurstaðan er þessi: Alþjóðlegir fjárfestar ættu að hafa áhyggjur af flestu öðru en upplausn evrusvæðisins. Evrópuríki, utan evrusvæðisins, eins og t.d. Pólland og Ungverjaland, taka nú út þjáningar af því að gjaldmiðlar þeirra eru undir miklu álagi. Þessar þjóðir reyna af öllum kröftum að komst undir verndarvæng evrunnar. Lexía heimskreppunnar fyrir þessar þjóðir er sú að þær þurfa að leggja harðar að sér til að uppfylla skilyrðin fyrir þátttöku í evrusvæðinu. Sjálf kreppan getur orðið þeim hvati til að taka sig á. Gefist þau ekki upp á miðri leið og nái þess í stað markmiði sínu, mun evrusvæðið í heild að lokum koma sterkara út úr kreppunni en áður.” (Holger Schmieding, Global Investor, 23.03.09.)
Ég hef engu við þetta að bæta.