Steingrímur nefnir grein sína: “HINN GULLNI MEÐALVEGUR.” Pressan hefur það eftir honum að upphaf efnahagshrunsins 2008 megi rekja til stjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, 1991-95 – þrettán árum fyrir hrun. Þetta er nýstárleg kenning, sérstaklega í ljósi þess að Framsóknarflokkurinn, undir leiðsögn arftaka Steingríms, Halldórs Ásgrímssonar, var í ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í þrjú kjörtímabil, eða tólf ár (1995-2007).
Flestum ber saman um að upphaf ógæfunnar, ofvöxt bankakerfisins og botnlausa skuldsetningu þjóðarbúsins, megi rekja til einkavæðingar ríkisbankanna á árunum 2001-03. Bankamálaráðherrann, sem bar hina stjórnskipulegu ábyrgð á framkvæmd einkavæðingarinnar, heitir Valgerður Sverrisdóttir. Þeir sem sömdu sín í milli um helmingaskiptin á gjafverði til flokksgæðinga, heita Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson. Það er misminni hjá Steingrími að þau Halldór og Valgerður hafi verið í Alþýðuflokknum. Og svo vel þótti þeim hafa til tekist með einkavæðinguna og hagstjórnina (þ.m.t. afnám Þjóðhagsstofnunar, sem líka var á ábyrgð framsóknar) að þeir framsóknarmenn héldu áfram stjórnarsamstarfinu við íhaldið þriðja kjörtímabililið í röð eftir kosningar 2003. Reyndar vildu þeir framsóknarmenn gjarnan halda því áfram eftir kosningarnar 2007 og hefðu gert það, ef þingmeirihlutinn hefði þótt nægilega traustur.
Spurningin um pólitíska ábyrgð Framsóknarflokksins á efnahagshruninu hefur horfið í skuggann í kosningabaráttunni af þeirri einföldu ástæðu, að forystumenn framsóknar í aðdraganda hrunsins, þeir Halldór Ásgrímsson, Finnur Ingólfsson, Jón Sigurðsson, Guðní Ágústsson og Valgerður Sverrisdóttir, eru öll flúin af hólmi. Hinn pólitíski unglingur sem nú er tekinn við forystunni verður ekki persónulega gerður ábyrgur fyrir afglöpum forvera sinna. Eftir sem áður er þeirri spurningu ósvarað, hvort Framsóknarflokkurinn er enn samur við sig eða hvort hann hefur eitthvað lært af reynslunni.
Er S-hópurinn, sem Framsóknarflokkurinn færði Búnaðarbankann að gjöf, (en Steingrímur kallar nú fjárglæframenn), er þessi hópur enn á sínum stað á bak við tjöldin í Framsókn? Er hægt að nefna fleiri dæmi en Finn Ingólfsson úr röðum forystumanna Framsóknarflokksins, sem færðu sér í nyt pólitíska aðstöðu sína, til að komast yfir fyrirtæki úr þrotabúi SÍS eða úr ranni ríkisins og fengu þar með aðgöngumiða að auðkýfingaklúbbi Íslands ehf.? Er ekki sannleikurinn sá að Framsóknarflokkruinn var í höndum eftirmanna Steingríms orðinn að eins konar eins konar pólitísku eignarhaldsfélagi harðsvíraðra auðkýfinga og eiginhagsmunaseggja, sem notfærðu sér pólitíska aðstöðu sína innan Framsóknarflokksins til þess að maka krókinn í eigin þágu?
Sannleikurinn er sá að Framsóknarflokkurinn varð á tólf ára tímabili sem undirverktaki Sjálfstæðisflokksins að pólitískum umskiptingi í höndum eftirmanna Steingríms. Ég veit að sjálfum finnst Steingrími þessi örlög flokksins þyngri en tárum taki. Einmitt þess vegna er það ekki við hæfi að Steingrímur reyni að varpa sök af eftirmönnum sínum yfir á aðra. Alþýðuflokkurinn ber ekki sök á afleiðingum aðgerða og aðgerðaleysis forystumanna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks í aðdraganda hrunsins – ekki frekar en Steingrímur sjálfur. Báðir, Alþýðuflokkurinn og Steingrímur, eiga skilið betri eftirmæli.
(Höf. starfaði í ríkisstjórnum með Steingrími Hermannssyni á árunum 1987-91)