Nú gerðum við okkur vonir um að andlega vakandi ofurhugar hefðu eitthvað til málanna að leggja sem vekti okkur til umhugsunar. En þvílík vonbrigði! Þeir félagar voru sammála um að mæra menningararfinn, sem réttlætti sjálfstæða þjóðartilveru okkar. En hvers vegna hefur þessi dýri menningararfur reynst svo haldlítill, sem raun ber vitni, þegar á reyndi í hremmingum tilverunnar?
Árni hafði það eftir Einari Olgeirssyni að höfðingjar þjóðveldisins hefðu orðið því að fjörtjóni. En Matthías minnti á að það voru þessir sömu höfðingjar sem skópu menningararfinn. Flest annað varð þeim frekar laust í hendi. Hvar var greining þeirra á styrk eða veikleika menningararfsins – íslenska þjóðríkisins – inn á við og út á við? Hvernig má það vera að forystumenn íslensku þjóðarinnar, í stjórnmálum, atvinnulífi og viðskiptum, reyndust svo léttvægir fundnir, þegar á þá reyndi að veita þessu þjóðfélagi forsjá á viðsjárverðum tímum? Stóðu þessir menn ekki djúpum rótum í gróskumiklum jarðvegi íslenskrar menningar? Eða voru þeir rótarslitnir og uppflosnaðir?
Það var sama hvar gripið var niður í tali þeirra félaga, það rann einhvern veginn úr greipum þeirra: Þjóðrækni, þjóðremba? Hver er munurinn á því að ávinna þjóð sjálfstæði og að varðveita það? Er ekki sjálfstæðisbaráttan ævarandi? Þarf ekki að hlú að sjálfstæðinu, rækta það og tryggja, í samfélagi við aðrar þjóðir, fyrir utanaðkomandi ásælni?
Það var ekki að heyra að þeir félagar hefðu mikið að segja um vanda smáþjóða á tímum hnattvæðingar. Hvers vegna hafa allar smáþjóðir Evrópu komist að þeirri niðurstöðu að þær myndu styrkja stöðu sína með samstarfi innan Evrópusambandsins? Engin svör? Það er að segja allar smáþjóðir Evrópu nema Norðmenn og Íslendingar. Þar hélt Matthías sig detta niður á snjalla skýringu: Þessar þjóðir hefðu verið nýlendur. Þess vegna vildu þær ekki ganga í Evrópusambandið. Ja, hérna. Hvað með Eystrasaltsþjóðirnar? Hvað með Finna? Hvað með Pólverja, Tékka, Slóvaka, Slóvena, Ungverja – á ég að halda áfram? Eða þegar Árni fór að tala um lýðræðishallann og áhrifaleysi smáþjóða innan Evrópusambandsins. Er mikill lýðræðishalli í Svíþjóð? Ferst okkur Íslendingum að kveða upp slíka sleggjudóma? Getur Árni nefnt mér einhver fjölþjóðasamtök þar sem smáþjóðir hafa meiri áhrif en innan Evrópusambandsins?
Hvers vegna er svona illa komið fyrir svona menntaðri þjóð með svona mikinn menningararf? Hvers vegna reyndust innviðirnir svona feysknir? Hvers vegna hafa stofnanir þjóðfélagsins – alþingi, stjórnmálaflokkar, dómstólar, ráðuneyti, eftirlitsstofnanir, fjölmiðlar – reynst svona veikburða? Hvað með klíkuveldið, krosseignavensl stjórnmála og viðskipta, pólitískar embættaveitingar, geðþóttaákvarðanir, leyndarpukrið og gæðahyglun íslenskrar stjórnsýslu?
Hvernig hafa leiðtogar lýðveldisins hegðað sér í samskiptum við aðrar þjóðir? Hafa þeir verið þiggjendur eða veitendur? Nefnum nokkur dæmi: Varnarsamstarfið við Bandaríkin, þar sem við vorum orðin alræmd meðal þeirra sem til þekktu í bandarískri stjórnssýslu fyrir heimtufrekju í hermanginu; Marshall aðstoðin – á þrefaldri undanþágu varðandi það að uppfylla skilyrðin og þiggjendur margfaldrar aðstoðar á við aðrar þjóðir; Norðurlandasamstarfið – eilíflega þiggjendur; Evrópusamsstarfið: þiggjendur, þiggjendur, þiggjendur. En ef við eigum að láta eitthvað af hendi rakna, þá rekast aðrir á íslensku þjóðrembuna.
Hver er skýringin á þessari undarlegu blöndu vanmetakenndar, heimóttarskapar og vöntunar á sjálfstrausti í bland við hroka, heimtufrekju og oflæti í samskiptum við aðra? Hvar eiga þessir eiginleikar, sem voru svo áberandi í fari hinna nýríku oflátunga, sem fóru með Ísland á hausinn, – hvar eiga þeir rætur sínar í menningararfi Íslendinga? Þurfum við að fara aftur á víkingaöld eða er þetta afsprengi langvarandi nýlendukúgunar og þrælslundar sem brýst út í andhverfu sína fyrir vöntun á sjálfsaga siðmenntunar? Hvernig væri að Hjálmar Sveinsson gerði aðra tilraun til að ræða málið?