Í LEIT AÐ LAUSNUM – svar til Kristjáns Torfa 2

“Hvorki ég né þú né helstu sérfræðingar heimsins vita hvað er framundan. Gagnvart slíkri óvissu er heimskulegt að vera með stórkarlalegar yfirlýsingar um hvernig hlutirnir muni þróast.”

Kristján Torfi 2.

Við getum orðið sammála um þetta vænti ég. Það er skynsamlegt, þegar menn ferðast um ókunnugt landsvæði – terra incognita – að feta sig áfram af varfærni. Flestar fjármálakreppur, hingað til, hafa verið staðbundnar. Þegar Asíukreppan skall á breiddist hún út til Rússlands og S-Ameríku, en Ameríka og Evrópa héldu velli. Þessi virðist ætla að breiðast út um gjörvalla heimsbyggðina. Það er ekkert svæði – ekki einu sinni Kína – sem heldur fullum dampi og gæti hugsanlega dregið aðra að landi. Þetta virðist því ætla að verða sannanleg heimskreppa. Þetta gerir hverju einstöku hagkerfi erfiðara um vik að ná sér á strik. Reyndar ekki fyrirfram víst að sama lausnin henti alls staðar.

Það er sitthvað fleira sem við erum reyndar sammála um, þegar betur er að gáð. Við erum sammála um það að skattgreiðendur eiga ekki að borga skuldir óreiðumanna. Og ég fæ ekki betur séð, þegar kemur að leit að lausnum en að við séum sammála um að í kreppu eigi að reka opinbera geirann með halla – prenta peninga – til þess að forða enn dýpri samdrætti og til þess að halda uppi atvinnu og eftirspurn. Þetta er nú bara sígildur Keynes, eins og ég lærði í Edinborg í gamla daga. Þarna kemur margt til greina, fyrir utan innbyggða sveiflujöfnun velferðarkerfisins – nfl. að lækka skatta og auka útgjöld – og að hvetja til fjárfestinga með lækkun vaxta og niðurfellingu skulda.

Lítum fyrst á skuldasúpuna. Það er auðvelt að villast í þeim frumskógi. Þegar Willem Buiter talar um eina og hálfa landsframleiðslu sem skuldir ríkisins, þá er hann að tala um brúttóskuldir, erlendar og innlendar. Nettóskuldin mun lækka sem svarar söluandvirði eigna. Það er enn óþekkt stærð. Mestu skiptir að vita, hverjar eru erlendar skuldir ríkisins, nettó. Þar gefur IMF sér að talan samsvari nokkurn veginn VFL. Er það heimsmet, eins og þú segir? Mér skilst að svo sé ekki. Skuldugustu ríki innan Evrópusambandsins eins og t.d. Belgía og Ítalía sitja upp með skuldir sem samsvara u.þ.b. þjóðarframleiðslu þeirra. Eru opinberar skuldir af þessari stærðargráðu umfram greiðslugetu skattgreiðenda? Þótt aðrar þjóðir hafi orðið að búa við slík harmkvæli (skert lífskjör) má vera að þetta sé okkur ofviða þegar tekið er tillit til þess, hve erlendar skuldir fyrirtækja og heimila eru miklar. Ég er sammála þér um það, að partur af lausninni á að vera að afskrifa innlendar skuldir fyrirtækja og heimila að hluta. Til þess að koma neyslu og eftirspurn í gang.

En hvað með skuldir óreiðumannanna? Mér skilst að skuldir bankanna og eigenda þeirra séu af stærðargráðunni tíföld VLF., að mestu í erlendum gjaldeyri. Við erum þá að tala um a.m.k. 14 þús. milljarða íkr. Það þarf enginn að velkjst í vafa um, að þetta er langt umfram greiðslugetu íslensks þjóðarbús. Það á því ekki að koma til álita að ríkið gangist í ábyrgð fyrir óreiðumennina. Þeir tóku mikla áhættu og hrepptu mikinn gróða, sem þeir hafa að mestu falið í eignarhaldsfélögum sínum, handan lögsögu íslenska ríkisins og utan seilingar skattyfirvalda. Það er svo sérstakt úrlausnarefni, hvernig unnt er að gera fjárflóttamenn skatt- og bótaskylda, vegna þess skaða sem þeir hafa valdið samfélaginu. Alveg eins og gróðinn var þeirra, eiga skuldirnar að vera þeirra. Gömlu bankarnir eru gjaldþrota. Þeir eru þrotabú í vörslu skiptaráðenda. Kröfuhafarnir, flesti erlendir bankar og sjóðir eiga kröfu í eignir þessara aðila, ef einhverjar verða, þegar upp er staðið. Hvorki meira né minna. Það sem nýju bankarnir í eigu ríkisins tóku til sín af innlendum eignum (innlán í íkr.) ber að meta lágt, enda hafa innlendir aðilar (sparifjáreigendur, íbúðaeigendur og skattgreiðendur) beðið mikinn skaða af bankahruninu. Þar eru fáir undanskildir og sérdeilis ekki lífeyrissjóðir almennings. Ég endurtek því það, sem ég sagði í fyrra svari til þín, að skattgreiðendur eiga ekki að borga skuldir einkaaðilia. Það er bæði löglaust og siðlaust. Þessu til áréttingar sendi ég þér hjálagt erindi sem ég flutti við þýskan háskóla í lok nóvember, þar sem þessi sjónarmið voru nánar skýrð.

Ég fæ ekki betur séð en við séum í stórum dráttum sammála um greininguna hingað til. Og þá er komið að lausnunum. Það er gagnlegt að skipta þeirri umræðu í tvennt: (1) Lausnir til skammms tíma, (2) Lausnir til lengri tíma litið.

Til skamms tíma sýnast mér lausnirnar verði að byggja á eftirfarandi: (1) Lágt gengi (eftir hrun), (2) niðurfelling skulda að hluta, (3) lækkun vaxta til að örva eftirspurn, fjárfestingu, atvinnusköpun og til að létta skuldabyrði, (4) aukning peningamagns í umferð með hallarekstri hins opinbera til að örva atvinnulífið. Þetta er, eins og ég áður sagði, bara klassískur Keynes. Þarna stendur IMF/AGS okkur fyrir þrifum. Hávaxtastefna þeirra er kolröng. Hún sýgur það litla sem eftir er af eigin fé fyrirtækja út úr þeim og skapar hættu á viðvarandi samdrætti (deflation). En getum við ráðið við vandann einir, án atbeina IMF og þá án aðgengis að erlendu lánsfé? Þetta er spurning sem ég hef ekki enn gert upp við mig. Ég er ekki alveg viss um, hvaða afleiðingar það hefði fyrir þjóðarbúið og atvinnulífið ef við afþökkuðum lán IMF item Norðurlandaþjóða og annarra. Þýðir það einfaldlega lokun fjármagnsmarkaða og jafnvel ófyrirséðar hindranir í utanríkisverslun? Hvaða áhrif hefði það á lánakjör vegna Icesave? Það getur numið tugum milljarða á ári.

Til lengri tíma litið tel ég að tilrauninni með íslensku krónuna sem minnsta myntsvæði í heimi við umhverfi alþjóðlegra fjármagnsmarkaða sé lokið. Við eigum að leita halds og trausts innan stærra myntsvæðis með alþjóðlega gjaldgengan gjaldmiðil að vopni. Þetta þýðir í mínum huga að sækja um aðild að Evrópusambandinu og stefna að upptöku evru. Meginástæðurnar fyrir þessari niðurstöðu minni eru pólitískar og menningarlegar: Ísland á að skipa sér í sveit með öðrum Norðurlandaþjóðum í svæðisbundnu samstarfi innan Evrópusambandsins. Þetta er enn ljósara en áður í mínum huga vegna þess að kerfishrunið hefur afhjúpað djúpstæða veikleika í þjóðfélagsgerð okkar og stjórnskipan sem ég hef litla trú á að verði lagfærðir, nema með utanaðkomandi aga og aðhaldi. Ég nefni sem dæmi innbyggða fákeppni, sem ríkir á örmarkaði klíkusamfélagsins, og samsvarandi veikleika stjórnerkerfis og eftirlitsstofnana, sem hafa sýnt sig í að vera óhæfar til að gegna hlutverki sínu. Við þetta má bæta rökum um utanríkis- og öryggismál, sem hníga í sömu átt.

Landbúnaður og sjávarútvegur munu ekki skapa þau störf sem yngri kynslóðir Íslendinga eru menntaðar til að gegna og munu leita í, innanlands eða erlendis. Þessi seinasti skellur hefur endanlega fært forsvarsmönnum fyrirtækja á Íslandi heim sanninn um það, að ófyrirsjáanlegar sveiflur í tekjum og gjöldum og reyndar greiðslubyrði skulda, sem hlýst af ónothæfum gjaldmiðli og óvirkri peningamálastjórn örríkis, er óviðunandi til frambúðar. Sveiflur krónunnar ýta undir áhættusækni og skammtímahugsun en torvelda alla áætlunaragerð og uppbyggingu til langs tíma.Sjálfsagt verður að fórna einhverju fyrir þann stöðugleika, sem aðild að stærra myntsvæði getur veitt, a.m.k. til skamms tíma. Það er þá það verð sem við verðum að sætta okkur við að borga fyrir framtíðaruppbyggingu nútímaatvinnulífs og til þess að halda unga fólkinu í landinu. Hver væri framtíðin án þess?