Mér fannst minn gamli fóstbróðir, Steingrímur Hermannsson,skjóta hátt yfir markið þegar hann vildi gera Alþýðuflokkinn að sökudólgi, en eins og gleymdi að geta þess, að flokkur ykkar hafði starfað með Sjálfstæðisflokknum í samfellt tólf ár, einmitt á því tímabili þegar hagstjórnin fór úr böndunum og auðklíkurnar uxu þjóðfélaginu yfir höfuð.
Ég minntist ekki á kvótakerfið. Halldór Ágrímsson gerir ekki bara kröfu til höfundarréttar á gjafakvótakerfinu, heldur er mér nær að halda að hann telji það helsta framlag sitt til íslenskra stjórnmála. Halldór innleiddi kvótakerfið sem sjávarútvegsráðherra í ríkisstjórn undir forsæti Steingríms. Ókeypis úthlutun veiðiheimilda í aðra helstu auðlind Íslands er siðlaus stjórnsýsla. Við Kratar höfum það okkur til afbötunar að við eigum höfundarrétt að þjóðareignarákvæðinu og fyrirvaranum um að síðaritíma breytingar á úthlutun heimilda muni aldrei baka þjóðinni skaðabótakröfu frá handhöfum nýtingarréttar. Ég veit að þetta mál er eins og fleinn í holdi Steingríms. Þarna brást hann , ekki bara sem forsætisráðherra, heldur líka sem þingmaður Vestfirðinga. Vestfirðir hafa ekki borið sitt barr eftir að þessu kerfi var komið á.
Sjálfur hefur Steingrímur viðurkennt að það voru mistök hjá honum (og Ólafi Ragnari, þáverandi formanni Alþýðubandalagsins) að hafa fyrir þingkosningarnar 1991 hlaupist brott frá ábyrgð sinni á EES-samningnum, sem var efnislega að mestu um saminn í tíð vinstri stjórnarinnar. Með því að hlaupast undan merkjum, með lýðskrumi um landráð, og í misráðinni atkvæðavon kippti Steingrímur fótunum undan áframhaldandi vinstristjórn.Þessir fyrrverandi félagar mínir neyddu mig til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn til þess að tryggja samningnum meirihluta á þingi. Það voru mikil mistök.
Alþýðuflokkurinn starfaði bara eitt kjörtímabil með Sjálfstæðisflokknum til þess að tryggja þessu þjóðþrifamáli framgang. Framsóknarflokkurinn hélt samstarfi sínu við Sjálfstæðisflokkinn áfram þrjú kjörtímabil samfellt – ekki til þess að koma fram sstórum umbótamálum – heldur til þess að tryggja sér völd valdanna vegna.Það var á þessu tímabili sem flokkurinn breyttist í pólitískan umskipting. Þetta er sorgarsaga. ÉG hef mikla samúð með Steingrími vegna þessa. En það var ekki hann heldur arftakar hans sem brugðust. Hann þarf að horfast í augu við það. Og það mun taka framsóknarmenn lengri tíma en fáeina mánuði, kannski meira en eitt kjörtímabil, til að reka af sér slyðruorðið og öðlast traust almennings á ný.
Með bestu kveðjum,