Maður, líttu þér nær. Svar til Klemensar Sigurðssonar

Heill og sæll, Klemens, þú þarft að kynna þér málið betur.

Þar sem engar þjóðir innan ESB hafa sögulegan rétt til veiða innan íslensku lögsögunnar, stendur það óbreytt eftir aðild, að útlendingar geta ekki stundað veiðar á Íslandsmiðum. Hverri þjóð er í sjálfsvald sett að setja lög og reglur, sem kveða á um löndun afla í strandríkinu, sem ræður lögsögunni.

Fullvinnsla aflans (allt í upp í máltíðir tilbúnar til neyslu, sem dreift er í súpermörkuðum) verður fyrst möguleg á Íslandi við inngöngu í ESB, því að þá fellur tollverndin niður, sem er hugsuð til að skapa vinnu innan bandalagsins. M.ö.o. aðild mun hvetja til aukinnar atvinnusköpunar hér innan lands og meiri virðisauki verður eftir í landinu (öfugt við það sem þú segir).

Þú gerir mér upp þær skoðanir, að mér sé sama hvort vinnan og arðurinn fari úr landi. Það eru ekki mín orð heldur þín. Þú hefðir hins vegar gott af því að velta fyrir þér fleiri spurningum: Hvers vegna skuldar sjávarútvegurinn þrefalda ársframleiðslu sína að mestu leyti í erlendum lánum? Af því að kvótahafar hafa jafnt og þétt verið að sölsa undir sig meiri veiðiheimildir (sem þýðir að fjármunir fara út úr greininni), fyrir nú utan það að gera hina kvótalausu að leiguliðum sínum. Hvert heldur þú að afborganir og vextir af 600 milljarða skuld fari? Til erlendra lánardrottna. Hver væri munurinn ef útlendingar fjárfestu upp á eigin áhættu í íslenskum sjávaráutvegsfyrirtækjum (sem er líklega eina leið þessara fyrirtækja til þess að losna út úr skuldaviðjunum)? Arðurinn af hlutafjáreign færi þá til eigenda, rétt eins og vextir og afborganir fara til lánardrottna.

Það eru margar ástæður fyrir því, að það er okkur, eins og öðrum þjóðum, hagkvæmara að fá erlent áhættufjármagn inn í landið fremur en að sökkva sér í skuldir. Sannleikurinn er sá, að kvótahafar hafa farið illa með þau forréttindi, sem þeim voru fengin. Fjöldi þeirra hefur farið með stórfé út úr greininni og m.a. notað arðinn af auðlindinni til að fjárfesta í útlöndum. Eftir sitja stórskuldug fyrirtæki sem eru illa í stakk búin til að standa af sér kreppuna og með lítið fé aflögu í eðlilega endurnýjun og nýfjárfestingu. Þeim sem aðhyllast óbreytt gjafakvótakerfi ferst ekki að gera öðrum upp skoðanir um að þeir vilji rústa sjávarútveginn, eða að flytja fé og vinnu úr landi. Það er þvert á móti. Maður líttu þér nær.
Með vinsemd, JBH