GAMLA ÍSLAND: AÐ KAUPA SÉR FRÍÐINDI

Sæll, aftur, Reynir Þór.
Það var í nafni vinnusparnaðar og til þess að forðast tvítekningu sem ég vísaði þér á svar mitt við Bjarna, sem um leið var svar mitt skýrt og skilmerkilegt við þinni spurningu. Svarið var já – en með skilyrðum. Skilyrðin voru, að breytingar á úthlutun aflaheimilda síðar mundu aldrei baka ríkinu skaðabótaskyldu.

Af hverju brugðumst við svona við? Vegna þess að það var massívur meirihluti á þingi við tillögum sjávarútvegsráðherra við að heimila framsalið. Við gátum ekki komið í veg fyrir það. En við gátum sett skilyrði, sem tryggðu, að nýr þingmeirihluti gæti afturkallað úthlutunina án skaðabótaskyldu. Nú er sá þingmeirihluti kominn. Þessi þingmeirihluti á það eingöngu varnarbaráttu okkar jafnaðarmanna, frá árunum 1988-91, að þakka að 1.gr. fiskveiðistjórnarlaganna kveður á um þjóðareign á auðlindinni og að framsalsheimildin mundi aldrei löghelga eignarrétt og þ.m.t. skaðabóðaskyldu heldur væri einungis um tímabundinn nýtingarrétt að ræða.

Þingmeirihlutinn sem stóð fyrir gjafakvótakerfinu og framsalinu samanstóð af þingmönnum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Þeirra yfirlýsta markmið var að löghelga einkaeignarétt á fiskimiðunum. Okkur, jafnaðarmönnum tókst, þrátt fyrir að vera í minnihluta, að koma í veg fyrir þetta. Hefði það ekki tekist, væri málið löngu tapað. Þeir sem vilja með réttu gagnrýna gjafakvótakerfið og framsalið, eiga að beina gagnrýni sinni að þeim stjórnmálaflokkum, sem beittu sér fyrir hvoru tveggja. Það væru hins vegar góðir mannasiðir að þakka þeim, sem komu í veg fyrir að einkavæðing sjávarauðlindarinnar næði fram að ganga.
Með vinsemd. JBH

P.s. Fyrir kosningarnar 1995 var framsalið talsvert á dagskrá í kosningabaráttunni. Eftir kosningar var gerð könnun á því, hvernig sjómenn hefðu kosið í þeim kosningum. Niðurstaðan var sú, að 78% þeirra hefðu kosið gjafakvóta- og framsalsflokkana. Þetta rímar við það, að samtök sjómanna haf hengt sig eins og hverja aðra smájuffertu attan í LÍÚ móðurskipið. LÍÚ hefur líka tekist að hræða fiskverkafólk og sveitarstjórnarmenn marga hverja á landsbyggðinni til fylgilags við sérhagsmuni forréttindaliðsins, þótt því fari fjarri, að hagsmunir landsbyggðarinnar og kvótahafanna fari saman. Þetta, ásamt prófkjörunum, er ömurlegasta dæmið frá seinni árum um mátt peninganna til að kaupa sér fríðindi gegnum pólitískt þýlyndi.