VÉLARVANA SKIP Í ÓLGUSJÓ, viðtal við JBH úr Reykjavíkurblaði

  • Minnihlutastjórn situr meðan sætt er
  • Stjórnarandstaðan fangi fortíðar sem leiddi til hruns
  • Verða skyndikosningar neyðarúrræðið

„Ég get sennilega ekki svarað því í einu orði, von eða vonbrigði,“ segir Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins og utanríkisráðherra þegar Reykjavík spurði hann að því hvað nýtt ár boðaði þjóðinni. Þegar við setjumst inn í stofu í hlýlegu sveitasetri hans í Mosfellsbæ, á meðan vetrarkuldinn og kafsnjórinn blasa við fyrir utan, útskýrir hann hvers vegna svarið við spurningunni sé ekki einfalt.

„ Það eru rúm þrjú ár frá hruni og það er rúmt ár til kosninga. Menn velta vöngum yfir því hvort við höfum náð botninum, hvort við sjáum til sólar, hvort eitthvað ljós sé við endann á göngunum. Þetta var ekkert smááfall og það er óraunsætt að gera ráð fyrir því að sárin séu gróin eftir örfá ár.

Þetta var atburður af því tagi sem mun setja mark sitt á íslenskt samfélag um langa framtíð. Ég hef stundum sagt sem svo að það besta sem hafi gerst eftir hrun hafi verið skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis, loksins þegar hún kom, vegna þess að hún er einstök gegnumlýsing á innviðum okkar þjóðfélags. Hrollvekjandi lesning og afhjúpun, en holl lesning og nauðsynleg. Þeim var falið að leita sannleikans og að orsökum hrunsins. Og þeim var falið að leita að vitnisburði um það, hvort einhverjir tilteknir aðilar í íslensku stjórnkerfi bæru ábyrgð, annaðhvort með aðgerðarleysi eða mistökum, að svona illa fór. Höfundar skýrslunnar komust að vel rökstuddum og afdráttarlausum niðurstöðum. Þeir færðu þungvæg rök fyrir því að tilteknir stjórnmálamenn og embættismenn hefðu með aðgerðum og aðgerðarleysi brugðist skyldum sínum um að grípa til ráðstafana í tæka tíð til að afstýra hruninu eða a.m.k. draga úr verstu afleiðingum þess. Við vitum að hér óðu uppi fjárglæframenn sem höfðu fengið eignarhald á bönkum í skjóli pólitískra tengsla. Ég segi fjárglæframenn vegna þess að vitnisburðurinn um starfshætti þeirra er hrollvekjandi. Einkavæðingaferillinn reyndist vera framhald á hefðbundnu helmingarskiptum íhalds og framsóknar. Vinnubrögðin voru brot á öllum grundvallarreglum sem um slík mál eiga að gilda. Svona var farið að í Rússlandi Yeltsíns, í Afríku, í bananalýðveldum Mið-, og Suður-Ameríku, en á Íslandi, – einu Norðurlandanna. – því áttum við bágt með að trúa. Við hefðum ekki trúað því fyrirfram, en við neyðumst til að horfast í augu við þennan veruleika. Vitnisburðurinn er massívur. Bankarnir voru rændir innanfrá. Þeir voru þandir út af erlendum lánum upp í tífalda stærð þjóðarframleiðslu. Landsbankaklíkan greip til þess ráðs þegar erlendir fjármagnsmarkaðir lokuðust að yfirbjóða sparifjármarkaðinn í Bretlandi og Hollandi. Þeir söfnuðu saman rúmlega þjóðarframleiðslu Íslendinga á örskömmum tíma. Þetta fé streymdi að miklu leyti hingað og var notað m.a. til þess að leysa endalausa endurfjármögnunarþörf eigenda bankanna. Allar reglur um áhættustýringu voru brotnar. Lán voru veitt í stórum stíl til eigenda og skyldra fyrirtækja, án þess að veð kæmu fyrir. Hlutabréfamarkaðnum var stýrt af örfáum mönnum. Þar voru stunduð innherjaviðskipti og markaðsmisnotkun var grundvallarreglan, en ekki undantekningin. Þetta er allt svo rækilega rökstutt að maður skyldi ætla að sérstakur saksóknari gæti fylgt því snarlega eftir með ákærum um leið og vitnisburður um innherjaviðskipti og markaðsmisnotkun lá fyrir um forstjóra Enron hins bandaríska, hafði ákæruvaldið þar í landi snör handtök við að leiða hina grunuðu fyrir dómara. Nú eru liðin meira en þrjú ár frá hruni og enn er þess beðið að sérstakur saksóknari láti til skarar skríða. Töfin vekur upp spurninguna um hvort íslenskt réttarfar og dómarareynsla ráði við verkefni af þessu tagi.

Þessu til viðbótar brást pólitíkin, segir Jón Baldvin, en hún átti að koma í veg fyrir að svona gæti gerst. Þar undanskilur hann engan: Stjórnmálaleiðtoga, ríkisstjórnir, Alþingi og stjórnkerfið allt, eftirlitsstofnanir þar með taldar. Hann segir þetta hafa verið afhjúpun sem þjóðin verði að horfast í augu við. Á annað hundrað manns séu með réttarstöðu grunaðra manns í rannsókn sérstaks saksóknara, en niðurstaða engin enn sem komið er. „Á meðan þetta óvissuástand ríkir eitrar það allt andrúmsloft í samfélaginu. Við erum með fárveika pólitík, þjóðfélagsumræðan er beisk og bitur.“ En það er ekki allt af hinu illa. Jón Baldvin segir að meira hafi áunnist í efnahagsmálum en margir þorðu að vona í upphafi. Vandamálin sem þjóðin standi frammi fyrir séu fremur af pólitískum toga en efnahagslegum. Við getum einungis að litlu leyti þakkað sjálfum okkur þann árangur sem náðst hefur. Það var lán í óláni að skuldasúpa bankanna – nærri því tíföld þjóðarframleiðsla – hafi verið langt umfram getu Íslands að rísa undir. Það var einfaldlega ekki á mannlegu valdi að koma í veg fyrir að bankarnir yrðu gjaldþrota. “ Gjaldeyrisforði Seðlabankans var uppurinn í ástarbréfum Davíðs, sem er stærsta upphæðin í skuldasúpu eftirhrunsáranna. Lánshæfismatið var fyrir neðan núll. Við áttum engan aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum. Það treysti okkur enginn fyrir peningum, hvorki Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn né ríkistjórnir Norðurlanda, af fenginni reynslu af íslenskum stjórnvöldum og seðlabanka. Íslendingar urðu einfaldlega að viðurkenna þá staðreynd að fjármálakerfið var hrunið eins og það lagði sig til grunna. Úr því sem komið var var það betra – miklu betra – en ef það hefði hangið uppi og ríkisstjórnin hefði álpast til að reyna að bjarga því á kostnað almennings. Það var samt yfirlýst stefna allt til hinstu stundar. Sem betur fer tók atburðarrásin einfaldlega fram fyrir hendurnar á hrunstjórninni. Það er í þessum punkti sem við sjáum muninn á okkur og Írum. Munurinn er ekki sá að íslenskir stjórnmálamenn hafi verið svona framsýnir og snjallir, (eins og þeir eru farnir að reyna að ljúga að sjálfum sér og öðrum). Við áttum bara ekki fimmeyring með gati.“ Jón Baldvin segir að þeir sem báru pólitíska ábyrgð á hruninu hafi allir hagsmuna að gæta að þessi úttekt rykfalli ofan í skúffu. „ Það voru margar ræður fluttar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir stuttu um hið „svokallaða hrun“. Þeir kannast ekkert við hrunið þar á bæ. Þar gerðist það að höfuðpaurar hrunsins, það er að segja tveir fyrrverandi leiðtogar Sjálfstæðisflokksins, voru kallaðir upp á svið og hylltir eins og þeir væru bjargvættir.“ Þetta minnir á það, þegar Svavar Gestsson, þá nýkjörinn formaður Alþýðubandalagsins, lét kalla gömlu kommanna, Einar og Brynjólf, upp á svið á flokksþingi og lét hylla þá með þeim ummælum að “þráðurinn úr fortíðinni væri óslitinn”. Jón Baldvin minnir á margtilvitnuð orð Styrmis Gunnarssonar, (sem á hálfrar aldar ritstjórnarferli á Morgunblaðinu hafi verið innvígður og innmúraður í valdakerfi Sjálfstæðisflokksins), í rannsóknarskýrslunni um að íslenskt þjóðfélag sé ógeðslegt; þar sé ekkert að finna nema valdasýki og sérhagsmunapot. Þar séu engar hugsjónir, ekkert nema eiginhagsmunastreð. Styrmir skrifar nýlega í vikupistli sínum um Flokkinn sem hann hefur þjónað í hálfa öld, að svo lengi sem hann horfist ekki í augu við ábyrgð sína, svo lengi sem hann lifi í afneitun og geri ekki upp fortíðina, eiga hann lítið erindi við framtíðina. “Þetta er hverju orði sannara,“ segir Jón Baldvin. Hann minnir á að þessir tveir flokkar hafa verið ráðandi í ríkisstjórnum lengst af allan lýðveldistímann. Þeir hafi vanist því að stjórna skv helmingaskiptareglunni, þ.e. þeir hafi beitt ríkisvaldinu til að úthluta gæðunum til fyrirtækja, sem þrifust í skjóli pólitísks valds. Það kerfi var í eðli sínu gerspillt. En hafi menn bundið vonir við að einkavæðing ríkisfyrirtækja myndi leiða til eðlilegri viðskiptahátta, þá hafi þær vonir orðið sér rækilega til skammar. Hugtakið “einkavinavæðing” lýsir þessari reynslu vel. Þegar á reyndi var einkavæðingin einungis framhald á helmingaskiptareglunni. Munurinn var bara sá að sjálfar viðskiptaklíkurnar urðu að lokum pólitíkinni yfirsterkari. Stjórnmálamenn og flokkar voru á framfæri auðjöfranna. Peningarnir tóku völdin. Þótt Sjálfstæðisflokkur og Framsókn hafi skipt um andlit í forystu, hafa þeir ekki viðurkennt sök sína, hvorki gert upp við stefnu sína né vinnubrögð. Í rannsóknarskýrslunni er það rakið lið fyrir lið hvernig forystumenn þessara flokka forklúðruðu hagstjórninni á valdatímum sínum, bæði á sviði ríkisfjármála og peningamála. Staðreyndirnar tala sínu máli um það að þessir flokkar beri höfuðábyrgð á hruninu. En þeir viðurkenna ekki hjá sér neina sök. Nú er þeim tamt að tala um „svokallað hrun“. Þeir segja að það eigi ekki að festa sig í fortíðinni. Og meðan þetta gildir, þá er ekkert lært fyrir framtíðina. Um þessa flokka er það að segja að í þessu ástandi eru þeir óstjórnhæfir. Þeir eru m.a.s. ónothæfir í stjórnarandstöðu vegna þess að stjórnarandstaða þeirra er ótrúverðug. Ástæðan blasir við. Flestum ofbýður þegar óknittapeyjar sem lagt hafa heimili í rúst í svallveislu sem fór úr böndunum dirfast að gera hróp að vinnandi fólki, sem er að moka út skítnum eftir þá. Það er myndin sem blasir við af þessum flokkum í stjórnarandstöðu. Áramótaskaup sjónvarpsins sérílagi segir allt sem segja þarf um ástand Sjálfstæðisflokksins. Þetta er eitthvert gengi miðaldra viðskiptauppa sem voru á kafi í fjármálaspillingunni fyrir hrun og eru enn á sínum stöðum flestir hverjir og hælast um í sinn hóp, hvað þeir hafi sloppið vel frá afleiðingum gerða sinna.“

Jón Baldvin tekur mönnum vara við því að trúa skoðunakönnunum við ríkjandi aðstæður. Um það bil helmingur kjósenda sé óákveðinn. Nýjir valkostir munu vonandi bætast við, en eru enn ekki komnir fram á sjónarsviðið. Það sé að vísu ótrúlegt en satt að milli 20-25% kjósenda muni kjósa Sjálfstæðisflokkinn áfram, jafnvel þótt frambjóðendur hans væru flestir hverjir undir ákæru um fjármálaspillingu. Þetta er nokkurn veginn sama hlutfall og kommúnistaflokkurinn í Rússlandi hefur. Þar í landi er það “nomenklatura” – áhangendur valdakerfisins. Sömu sögu sé að segja hér á landi. Jón Baldvin minnir á tengsl Sjálfstæðisflokksins við Björgólfana. Hann minnir á að framkvæmdastjóri flokksins til eilífðar, Kjartan Gunnarsson, hafi verið settur að veði inn í bankaráð Landsbankans til að innsigla tengslin. Allur stjórnendahópur Landsbankans sé uppalisti úr lagadeild Háskóla Íslands, Vöku og Heimdalli. Þannig bæri Sjálfstæðisflokkurinn einn alla ábyrgð á Icesave. Sú ákvörðun stjórnenda Landsbankans að féfletta Breta og Hollendinga á ábyrgð íslenska tryggingasjóðsins er upphafið að Icesave. Stjórnvöldum var í lófa lagið að fyrirbyggja að Icesave reikningnum yrði framvísað til skattgreiðenda. Seðlabanki og Fjármálaeftirlit gátu afstýrt Icesave með því að sjá til þess að Landsbankinn ræki starfsemi sína erlendis í formi dótturfyrirtækja eins og Kaupþing gerði. Ríkisstjórnin gat farið að dæmi Norðmanna og skilyrt lögin um innistæðutryggingar frá 1999 við innistæður í íslenskum krónum. Þar með hefði enginn Icesave reikningur orðið til og engin bótakrafa á íslenska ríkið heldur, þótt leitað yrði til dómsstóla. Það eru þess vegna veigamikil rök fyrir því að það beri að senda reikninginn beint upp í Valhöll ef dómsstólar að lokum leiða til þeirrar niðurstöðu.

Fortíð Framsóknarflokksins í stjórnarsamstarfi þessara flokka í 12 ár, er síst fegurri þegar að er gáð. Það er sorglegt til þess að vita að samvinnuhreyfingin, hugsjóna- og félagsmálahreyfing bæði bænda og neytenda í þéttbýli, skuli hafi endað eins og raun ber vitni. Þessi sorgarsaga er skilmerkilega rakin í nýjasta hefti tímaritsins Sögu, tímariti Sögufélagsins. Höfundurinn Björn Jón Bragason sagnfræðingur rekur þessa sorgarsögu lið fyrir lið. Forystumenn Framsóknarflokksins misnotuðu valdastöðu sína til þess að færa útvöldum viðskiptaforkólfum gamla SÍS Búnaðarbankann á silfurfati. Áður höfðu sömu aðilar samið um það á laun að sameina Búnaðarbankann Kaupþingi. KB-banki varð á örfáum árum stærsti banki þjóðarinnar og endaði feril sinn sem eitt af tíu stærstu fjármálagjaldþrotum sögunnar. Þessi saga er um það, hvernig stjórnmálamenn misnota vald sitt til þess að auðgast persónulega með því m.a. að sölsa undir sig leifarnar af eignum Samvinnuhreyfingarinnar. Þetta er líka saga um það hvernig skepnan reis gegn skapara sínum: fyrst misnotuðu stjórnmálamenn vald sitt til að úthluta gæðum til skjólstæðinga sinna. En fyrr en varði uxu þiggjendurnir “gefendunum” yfir höfuð. Auðkýfingarnir tóku völdin af pólitíkinni. Einstakir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar gengu á mála hjá auðklíkunum. Helsta réttlætingin fyrir afhendingu Búnaðarbankans til S-hópsins var sú að virtir erlendir bankar væru með í hluthafahópnum og færðu þar með inn í landið bæði fjármagn og sérþekkingu. Hvorugt stóðst þegar á reyndi. S-hópurinn reyndist ekki eiga fyrir bankanum en fékk á laun lán frá Landsbankanum, meðan hann var enn ríkisbanki. Það er spurning hvort glæpasagan íslenska (Arnaldur, Yrsa og co) nái upp í þetta. Björn Jón færir fyrir því veigamikil rök að helstu forystumenn Framsóknar hafi hagnast persónulega í þessu valdatafli með eignir almennings, ekki síst fyrrum varaformaður og ráðherra Finnur Ingólfsson. Réttarrannsókn í Rússlandi leiddi á sínum tíma í ljós að kommúnistaflokkur ráðstjórnarríkjanna hefði verið glæpasamtök frá upphafi. Eftir fall kommúnismans sölsaði flokkselítan undir sig auðlindir Rússlands. Framsóknarflokkur Jónasar frá Hriflu virðist eiga það sameiginlegt með flokki Leníns að hafa orðið að umskiptingi í formi “eignarhaldsfélags” fjárglæframanna.

Með þessa fortíð í huga er ástæða til að biðja kjósendur að íhuga, hvort flokkum af þessu tagi, sé treystandi fyrir almannafé eða vörslu almannahagsmuna. Jón Baldvin vitnar enn á ný í Styrmi Gunnarsson, sem segi að ef þessir flokkar svíkist um að gera upp fortíðina eigi þeir ekkert erindi við framtíðina. Þeir muni bara endurteka leikinn. Jón Baldvin tekur það skýrt fram að Samfylkingin geti heldur ekki firrt sig ábyrgð á þessari sorgarsögu. Samfylkingarfólk komist ekki hjá því að gera upp við hlutdeild flokksins í hrunstjórninni. Þátttöku flokksins í þeirri stjórn megi reyndar kalla pólitísk mistök aldarinnar. Á 18 mánuðum tókst Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að eyða öllu trausti og trúverðugleika Samfylkingarinnar með frammistöðu sinni í þessu stjórnarsamstarfi. Hvergi hafi séð þess stað að Samfylkingin hafi breytt nokkru, sem máli skipti. Efnahagsstefna Samfylkingarinnar fyrir kosningar 2007, þar sem varað var rækilega við yfirvofandi brotlendingu hagkerfisins og settar fram tillögur til að afstýra því, týndist niðri í skúffu. Formaðurinn tók að sér hlutverk klappstýrunnar fyrir útrásarvíkinga á erlendum vettvangi. Forysta flokksins virtist vera pólitískt meðvitundarlaus þótt viðvörunarmerkin blöstu hvarvetna við. Samfylkingin hlýtur því að horfast í augu við þá staðreynd, að hún ber að sínum hluta ábyrgð á þeim afleiðingum, sem bitnað hafa á almenningi eftir hrun: atvinnu- og eignamissi og hrun lífskjara. Spurningin er hins vegar sú, hvort Samfylkingunni takist undir forystu “heilagrar Jóhönnu” að endurheimta þetta glataða traust með því að hafa forystu um endurreisnarstarfið. Næstu mánuðir munu skera úr um það. Vissulega hefur margt áunnist í endurreisnarstarfinu. Þar ber hæst framkvæmd endurreisnaráætlunar IMF og ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum undir forystu Steingríms J Sigfússonar. Innan árs hyllir undir jöfnuð í ríkisfjármálum. Það er betri árangur en flestar aðrar skuldsettar þjóðir Evrópu geta státað af. Steingrímur J Sigfússon hefur borið hitann og þungann af þessum umskiptum og sýnt í verki stefnufestu og þrautsegju, sem fáum stjórnmálamönnunum okkar virðist gefið nú um stundir. Gengisfall krónunnar hefur dregið úr innflutningi og örvað útflutningsgreinar sem hefur bætt viðskiptajöfnuðinn út á við og styrkt stöðu útflutningsgreina. En þrátt fyrir þennan árangur á sumum sviðum eru mörg vandamál óleyst. Þrátt fyrir ítrekaðar smáskammtalækningar er skuldavandi fjölda heimila enn óleystur og fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja hefur tekið alltof langan tíma. Stjórnin hefur ekki enn staðið við gefin fyrirheit um að tryggja að þjóðin fái réttmætan arð af sjávarauðlindinni. Það mál er í uppnámi. Reyndar stendur uppá þessa ríkisstjórn að binda endi á áratuga gamlar deilur um eignarhald á auðlindum með því að koma fram löggjöf sem tekur af tvímæli um að fiskistofnarnir innan lögsögunnar, auðlindir hafsbotnsins, orku- og vatnslindirnar, séu ævarandi eign þjóðarinnar og óframseljanlegar. Þetta verkefni þarf að leysa með því að tryggja að fyrirliggjandi drög að nýrri stjórnarskrá verði lögð fyrir þjóðina í þjóðaratkvæði. Jafnframt þarf skýra löggjöf um nýtingarrétt á auðlindum fyrir sanngjarnt verð. Auðvitað má nefna fleiri stórmál eins og t.d. endurskipulagningu húsnæðismarkaðarins eftir hrun með markvissri uppbyggingu leigumarkaðar. Spurningin er: getur þessi ríkisstjórn hrundið þessum stóru málum í framkvæmd á þessum 16 mánuðum sem eftir lifa af kjörtímabilinu? Er samstaða milli stjórnarflokkanna um lausnir? T.d. varðandi auðlindagjöld í sjávarútvegi? Hafa stjórnarflokkarnir afl atkvæða á þingi til þess að koma umdeildum málum fram? Að sumu leyti minnir þessi ríkisstjórn orðið á vélarvana skip sem hrekst til og frá í ölduróti. Mun uppstokkunin sem átti að styrkja stjórnina inn á við leiða til þess að hún verði í reynd minnihlutastjórn, sem verður að semja um framgang mála við einstaka stjórnarandstöðuþingmenn? Gengur það upp? Ef ekki – er þá nokkurra annarra kosta völ en að vísa málum í dóm þjóðarinnar? Þá skiptir sköpum að fram komi á sjónarsviðið nýtt stjórnmálaafl með fólk í forystu, sem sannað hefur getu sína til góðra verka á hinum ýmsum sviðum þjóðlífsins, sem kjósendur geta því bundið við rökstuddar vonir um að ná árangri þvert á ríkjandi skotgrafir flokka. Er einhver von til þess að slíkt stjórnmálaafl líti dagsins ljós? Svörin við þessu og öðrum ámóta spurningum munu ráðast á næstu vikum og mánuðum.

Það er ekki hægt að ljúka þessu spjalli við Jón Baldvin án þess að nefna spurninguna um stöðu samninga um aðild að Evrópusambandinu. Jón Baldvin segir það óneitanlega þversagnakennt, svo ekki sé meira sagt, að horfa uppá ríkisstjórn, sem með atbeina meirihluta Alþingis sækir um aðild að Evrópusambandinu og stendur nú í samningum miðjum; en vandasömustu málunum í þessum samningum (sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum) sé stýrt af nýjum atvinnumálaráðherra sem er yfirlýstur andstæðingur aðildar. Hans bíður því það hlutverk að leggja lífið í sölurnar til að ná bestu mögulegum samningum fyrir hönd þjóðarinnar, sem hann mun síðan skv stefnu eigin flokks hvetja kjósendur til að fella. Þetta er ekki beinlínis björgulegt. – Er það? Nú er það hins vegar svo að þessum samningum verður ekki fyrirsjáanlega lokið á kjörtímabilinu. Mikill meirihluti þjóðarinnar vill staðfastlega, hvað svo sem öðru líður, fá að taka afstöðu til endanlegrar samningsniðurstöðu í þjóðaratkvæði. Ef Alþingi reynist óstarfhæft, þar sem stjórnin reynist vera máttvana minnihlutastjórn, og stjórnarandstaðan er óstjórnhæf, af ástæðum sem ég hef þegar rakið, er þá nokkuð annað til ráða en að vísa málum til þjóðarinnar? Þjóðin yrði þá spurð um, hvort hún vilji ljúka samningum og hverjum hún treysti til að leiða það vandaverk til lykta.

Í tengslum við Evrópumálin bendir Jón Baldvin á þau örkuml í hagstjórn, sem hamli endurreisninni til framtíðar, sem lýsir sér í því að Íslendingar hafa ekki aðgang að nothæfum gjaldmiðli. Allt tal um það, hvort ófarir okkar í efnahagsmálum séu krónunni að kenna eða ekki, eru út í hött og á misskilningi byggt. Staðreyndin er nefnilega sú að krónan var aflögð 1979 sem fullgildur gjaldmiðill með svokölluðum Ólafslögum sem innleiddu verðtrygginguna. Krónan var aflögð vegna þess að enginn treysti sér í 30-40% viðvarandi verðbólgu að veita lán í þeim gjaldmiðli, nema þá í hæsta lagi til morgundagsins. Þess vegna tókum við upp nýjan gjaldmiðil sem heitir verðtryggingakróna. Hún er bara nothæf til heimabrúks, að vísu ekki sem fullgildur gjaldmiðill heldur bara sem reiknieining. Þess vegna búum við Íslendingar við þau örkuml í hagstjórn að eiga engan gjaldmiðil. Ásamt með því að finna ásættanlegar lausnir í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum, sé það því aðalatriðið í samningum við Evrópusambandið að fá stuðning þess við að tryggja þjóðinni aðgang að nothæfum gjaldmiðli. Þá er ég ekki að tala um upptöku evru sem fyrirsjáanlega getur ekki orðið af fyrr en eftir nokkur ár, að því tilskyldu að við uppfullum öll skilyrði. Ég er að tala um það millibilsástand sem nú ríkir, með gjaldmiðil í gjörgæslu gjaldeyrishafta og fram að þeim tíma að við gætum uppfyllt skilyrði um þátttöku í evru samstarfinu. Það eru fordæmi fyrir slíkri lausn. Besta dæmið um það er að finna hjá Dönum. Danir hafa í reynd tekið upp ígildi evru, þótt þeir fyrir sérviskusakir kalli gjaldmiðilinn danska krónu. Danska krónan er nefnilega beintengd við evruna og helst stöðug með atbeina og tilstyrk evrópska seðlabankans. Við þurfum lífsnauðsynlega að finna sambærilega lausn. Þetta er mál sem við ráðum ekki við ein og sér. Við verðum að semja um þessa niðurstöðu.

Varðandi dómsdagsspár um evruna segir Jón Baldvin það vera eins og um hverja aðra taugaveiklun sem hrjáir suma pólitíkusa og fjölmiðla sem þola illa álag. Spurningin er ekki um það að evran muni líða undir lok sem gjaldmiðill. Spurningin er einungis um það hvaða ríki fullnægir þeim skilyrðum sem sett verða um þátttöku í evrusamstarfinu.

Aðspurður um það hvort nokkrar líkur séu á því að Íslendingar samþykki aðildarsamning við Evrópusambandið segir Jón Baldvin ótímabært með öllu að afskrifa þann möguleika. Það sé aldrei að vita nema að Íslendingar nái svo góðum samningum að það verði gerlegt að ræða málið út frá staðreyndum frekar en út frá getsökum og skröksögum sem enga stoð eigi í veruleikanum. Ég hef alla tíð verið sannfærður um að við gætum náð velásættanlegum samningum um sjávarútveginn. Samningur um landbúnaðar- og byggðamál í stórum dráttum á nótum finnska módelsins getur vel styrkt stöðu innlends landbúnaðar í þeim greinum sem geta staðist samkeppni og eiga vaxtarmöguleika. Þetta á við um kúabúskap og mjólkurframleiðslu, sauðfjárrækt og grænmeti í ylrækt. Ef samningurinn tryggir okkur líka aðgang að gjaldmiðli, sem muni í framtíðinni stuðla að lægra matvælaverði, lægri vöxtum og fjármagnskostnaði og afnámi verðtryggingar, þá er aldrei að vita nema Íslendingar láti skynsemina ráða fremur en óbreytta þjónkun við yfirgang sérhagsmunanna.

Sem kunnugt er lýsti Ólafur Ragnar Grímsson því yfir á nýársdag að hann hann hygðist snúa sér að öðrum verkefnum. Yfirlýsing hans þótti hins vegar nokkuð óskýr, en Jón Baldvin segir forsetann ekki hafa komið sér á óvart. „ Nei, nei Ólafur kemur mér aldrei á óvart. Ég les út úr þessu það að hann langi mjög til að leggja á þjóðina eitt kjörtímabil í viðbót og sitja á Bessastöðum í 20 ár.“ Ólafur Ragnar hafi hins vegar tekið svona óskýrt til orða, segir Jón Baldvin, vegna þess að hann hafi verið að opna á að efnt yrði til undirskrifta til að skora á hann að halda áfram, af því að hann hafi forðað þjóðinni frá Icesave. Kannski indefence-hópurinn vilji safna undirskriftum með áskorun á þrásetu Ólafs – kannski í boði Bónus og Fons? Viðbrögð Ólafs Ragnars munu ráðast af viðbrögðum við þessari yfirlýsingu. „ En það er eitt sem veldur honum áhyggjum. Ef hann ætlar að fara í kosningabaráttu um fimmta kjörtímabilið þá verður það ekki beinlinis sunnudagaskóli. Óhjákvæmilega yrði hann minntur á það á degi hverjum hver ferill hans var í aðdraganda hrunsins. Það yrði lesið upp úr skrumræðunum hans og lofgjörðarrullunum í öllum veisluhöldunum um alla útrásarvíkingana aftur á bak og áfram og endalaust. Það yrði satt að segja fremur leiður lestur, þrátt fyrir það að Stöð 2 hafi forheimskað sig á til að útnefna hann “mann ársins”. Og þrátt fyrir það að heimatrúboðið í Sjálfstæðisflokknum, undir andlegri leiðsögn Davíðs Oddssonar, telji hann nú sinn helsta bandamann í krossferðinni gegn aðild að Evrópusambandinu.“ Jón Baldvin segir forsetaembættið hafa reynst vera vandræðaembætti frá upphafi. Útlendingar misskilji oft hlutverk þess. „ Þetta embætti er klúður í stjórnsýslu. Ólafur Ragnar rekur allt aðra utanríkispólitík heldur en utanríkisráðherrann, Össur Skarphéðinsson. Ólafur Ragnar er hatrammur andstæðingur Evrópusambandsins og Evrópusambandsaðildar, enda er hann persónulega handgenginn valdhöfum á Indland eða Kína og unir sér best í þeim félagsskap. Þess vegna talar forsetinn út þegar utanríkisráðherrann talar suður. Hvers konar stjórnsýsla er það sem býður upp á svona rugl? Ég er satt að segja kominn að þeirri niðurstöðu að það eigi að leggja þetta embætti niður. Þetta er ýmist til tómra vandræða eða til einskis.“ Jón Baldvin telur vel fara á því að forseti Alþingis gegni hlutverki þjóðhöfðingja. Þingforsetaembættið eigi að vera helsta virðingarstaða þjóðfélagsins. Það færi vel á því að sá sem stýrði elsta lýðræðislega þjóðþingi heims, hefði það hlutverk að koma fram út á við fyrir hönd þjóðarinnar.

Sem kunnugt er hafa hjónin Ólafur Ragnar og Dorrit Moussaieff keypt hús í Mosfellsbæ, nærri heimili Jóns Baldvins og Bryndísar. “Ég læt nú segja mér það tvisvar að hún Dorrit Moussaieff ætli að flytja í afdalinn hérna handan við ána. Ég hélt að hún hefði fjárfest í þjóðhöfðingjaembættinu á Íslandi til að hafa aðgang að konungshirðum í útlöndum, en ekki að sveitarstjórninni í Mosó. Hins vegar er þau hjón að sjálfsögðu velkomin í nágrennið, ef þau ætla þrátt fyrir allt að hafa hér viðveru. Þetta er snoturt umhverfi, það eru góðar gönguleiðir í grenndinni og skjólsælir skógarlundir. Það mun áreiðanlega fara vel á með okkar þegar við hittumst hér á skógarstígum á bökkum Varmár. En ég læt nú segja mér þetta tvisvar áður en ég held partý til að bjóða þau velkomin í sveitina.“

Sjálfur er Jón Baldvin nú að undirbúa námskeiðahald á vegum Samfylkingarinnar um hrunið, þar sem hann fjallar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Auk þess hefur hann fallist á að vera með þátt á sjónvarpsstöðinni ÍNN, þar sem hann ætlar að reyna að véla til viðræðu við sig umdeilda menn um alvöru mál, eins og hann orðar það. Hann segist ekki vera á leið út í pólitísk vígaferli aftur. „ Nei, ég er búinn með skyldu mína. Þar að auki hef ég á tilfinningunni að Íslendingar líti svo á að menn komnir yfir sjötugt, þótt við hestaheilsu séu, séu best geymdir á hæli, hvaðan svo sem þeir hafa þá skoðun. Auk þess er hún Bryndís mín reyndar persónulega löngu gengin í Evrópusambandið suður í Andalúsíu. Og úr því að ég get með engu móti af henni séð verð ég að vitja hennar þar,“ segir Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi ráðherra að lokum.