Hverjar eru þessar skýringar? Látið er eins og þetta sé allt honum Baldri að kenna. Dr. Baldur Þórhallsson, prófessor, á að hafa beðið mig um að líta við í nokkra tíma á námskeði á hans vegum. Þetta á að hafa verið einkamál Baldurs. Baldur hafi síðan afturkallað ákvörðun sína. Þar með beri félagsvísindasvið og stjórnmálafræðideild enga ábyrgð. Þetta er hins vegar, að mati rektors, tilefni til að setja reglur um gestakomur til háskólans.
Allt er þetta eftiráspuni manna, sem virðast ekki þora að bera ábyrgð á orðum sínum og gjörðum. Staðreyndirnar eru allt aðrar. Dr. Baldur kom hvergi nærri þessu fyrirhugaða námskeiði, enda er hann í leyfi frá háskólanum sem gestaprófessor í Bandaríkjunum. Verkefnið sem mér var falið að vinna á vegum stjórnmálafræðideildar var að undirbúa námsáætlun, annast kennslu (15 fyrirlestrar og 5 umræðutímar); einnig að annast námsmat (ritgerðir og próf) nemenda til B.A. – og M.A. – prófa, í samstarfi við tvo aðra starfsmenn deildarinnar. Þetta var mér falið að gera með bréfi þann 9. Júlí. Í bréfinu segir m.a.: „Þetta væri deidinni mikils virði. Það er löngu kominn tími til þess, að þú komir aftur hingað“. – Þetta sögðu þeir þá. Nú er allt í einu komið annað hljóð í strokkinn. Hvað veldur?
Vera má, að stjórnsýslu HÍ sé í ýmsu ábótavant, eins og rektor gefur til kynna. Vonandi er ástandið samt ekki svo slæmt, að menn séu kallaðir til af götunni til að skipuleggja námsefni útskriftarnema og annast kennslu, án hæfismats eða samráðs við deildarforseta og prófessora. Getur það verið? Trúir því nokkur? Seint mun þá sækjast að skipa Háskóla Íslands í röð 100 bestu í heiminum með slíku háttalagi.
Að hengja bakara fyrir smið
Úr því að forráðamenn háskólans bera ekki meiri virðingu fyrir staðreyndum en raun ber vitni, er eins gott að rekja aðdragandann að ákvörðun þeirra um að afturkalla ráðningu mína lið fyrir lið. Þetta er nefnilega ekki þeirra einkamál:
Mánudagur, 26. ágúst: Mér er tilkynnt símleiðis, að kennarar við kynjafræðaskor hafi skriflega mótmælt ráðningu minni. Þegar spurt var um ástæður, var mér sagt, að þær teldu ráðningu mína ekki samræmast „heiðri og trúverðugleik háskólans“ þar sem ég hefði í fjölmiðlum verið borinn sökum um kynferðislega áreitni. Ákæruskjali þeirra væri beint til deildarforseta og deildarstjórnar. Mér var sagt, að stjórn deildarinnar hefði setið á maraþonfundum klukkutímum saman til að hlusta á óhróður um mína persónu. Það væri hins vegar engan bilbug á forráðamönnum deildarinnar að finna. Þeir myndu ekki láta kúga sig. Jafnframt vildu þeir fullvissa sig um, að ég mundi ekki renna af hólmi.
Þriðjudagur, 27. ágúst: Þá kvað við annan tón. Þeir kváðust hafa misst alla stjórn á umræðunni, því að heiftin og ofstækið kynnu sér engin takmörk. Þeir væru að niðurlotum komnir. Þeim þætti miður að hafa tælt mig inn í þennan ormagarð. Þeir spurðust fyrir um, hvort mér væri ekki fyrir bestu að draga mig til baka. Það mundi um leið létta þungum krossi af þeirra herðum.
Miðvikudaginn, 28. ágúst: Þá var mér tilkynnt, að forráðamenn stjórnmálafræðideildar hefðu gefist upp fyrir hótun um, að það yrði enginn starfsfriður í deildinni, nema ráðning mín yrði dregin til baka. Hagsmunir háskólans yrðu að sitja í fyrirrúmi. Þeir væru því nauðbeygðir að fórna grundvallarreglum fyrir starfsfriðinn – líkt og í München forðum.
Fimmtudagur, 29. ágúst: Forseti félagsvísindasviðs boðaði mig til fundar á skrifstofu sinni í Gimli. Fundinn sátu líka deildarforseti stjórnmálafræðideildar og Dr. Baldur Þórhallsson, prófessor. Á fundinum var allt það staðfest, sem að framan er sagt. Deildarforseti stjórnmálafræðideildar sagði, að þessi niðurstaða gengi gegn öllu því, sem hann stæði fyrir; og að hann „óaði við“ því hugarfari ofstækis, sem að baki byggi. Forseti félagsvísindasviðs bað mig sýna því skilning, að ófriðarástand ætti sér langa sögu þar innan veggja. Þær öldur yrði að lægja með lagni. Það væri fullreynt, að starfsfriður yrði ekki tryggður, nema ég yrði gerður afturreka. Sorry. Að lokum reifaði hann útgönguleið þeirra félaga frá allri ábyrgð, með því að þetta hefði verið einkamál Baldurs Þórhallssonar. Þar sem Baldur tæki á sig sökina, væru allir lausir mála.
Dómstóll götunnar
Þetta eru hinar raunverulegu ástæður að baki ákvörðunar forráðamanna háskólans, eins og þær voru skýrðar fyrir mér. Ég fór fram á tvennt á þessum fundi: Að háskólinn skýrði opinberlega satt og rétt frá gangi mála um ástæður þess, að ráðning mín væri fyrirvaralaust afturkölluð. Ef háskólinn skýldi sér á bak við þögn í þessu máli, jafngilti það því, að háskólinn legði blessun sína yfir þær ávirðingar, sem á mig væru bornar – í verki, ef ekki í orði. Og að ég fengi í hendur ákæruskjal kynjaskorar til deildarforseta, svo að ég gæti a.m.k. varið hendur mínar. Um það voru höfð góð orð. Við hvorugt hefur verið staðið.
Hver er niðurstaða þessa máls? Það er mikill misskilningur, ef menn halda, að þetta snúist bara um mína persónu, eða um vítaverða stjórnunarhætti innan háskólans. Þetta mál snýst um grundvallarmannréttindi í réttarríki. Ef maður er borinn sökum, sem þykja refsiverð að lögum, er það dómstóla að skera úr. Að því er varðar þær ávirðingar, sem á mig hafa verið bornar, hefur ákæruvaldið kveðið upp sinn úrskurð í tvígang. Kærumálum hefur verið vísað frá, þar sem ekki séu efni til sakfellingar. Í þessu tilviki hefur dómstóll götunnar hins vegar kveðið upp annan dóm, studdur af pólitískum öfgahópum og óvönduðum fjölmiðlum. Þeim sem vilja kynna sér staðreyndir málsins, eins og þær liggja fyrir, skal bent á heimasíðu mína – www.jbh.is – og þá sérstaklega tvær greinar: „Að gera hreint fyrir sínum dyrum“ (16.3.12) og „Hvers vegna allt þetta hatur? – Fjölskylduböl í fjölmiðlum“ (30.04.12). Þarna er hvergi undan því vikist að ræða hina siðferðilegu hlið málsins.
Háskóli Íslands er æðsta menntastofnun þjóðarinnar. Lagadeild háskólans má lýsa sem uppeldisstöð réttarríkisins. Þeir sem útskrifast úr lagadeild, skipa síðar sæti dómara í réttarríkinu. Það er því ekki fjarri lagi, að háskólanum sé ætlað að standa vörð um þá grundvallarreglu réttarríkisins, að allir skuli teljast saklausir, uns sekt hefur verið sönnuð með dómi. Með framgöngu sinni í þessu máli hafa forráðamenn Háskóla Íslands í verki lagt blessun sína yfir dómstól götunnar; fórnað varðstöðu um grundvallarreglur réttarríkisins undir hótun um, að ella logi ófriðareldar ofstækis og fordóma þar innan dyra.
Ég hef á tiltölulega stuttum stjórnmálaferli oft sætt harðri gagnrýni í fjölmiðlum. Mér hafa borist ófá bréf, ýmist nafnlaus eða undir nafni, þar sem á mig eru bornar vammir og skammir – í einstaka tilvikum líflátshótanir. Hingað til hef ég látið þetta sem vind um eyru þjóta. Ég hef hneigst til að kenna um óþroskaðri umræðuhefð, þar sem mannorðsmorð – jafnvel landráðabrigsl – eru á köflum daglegt brauð. Ég hef aldrei höfðað meiðyrðamál, þótt oft hafi verið ærin ástæða til. Ég hef litið á þessa óþroskuðu umræðuhefð sem fæðingarhríðir okkar unga lýðveldis og fylgifisk tjáningarfrelsisins, sem bæri að standa vörð um.
En þegar svo er komið, að Háskóli Íslands vegur í verki að rótum réttarríkisins – og er reiðubúinn að fórna mannréttindum einstaklinga undir hótun um rof á starfsfriði – þá er nóg komið. Þá heggur sá, sem hlífa skyldi. Ég hef því ákveðið að fela lögmanni mínum að undirbúa málshöfðun á hendur Háskóla Íslands. Á það verður látið reyna, hvort dómstóll götunnar komist framvegis upp með að ráða gangi mála við háskólann? Eða hvort standa beri vörð um réttarríkið og grundvallarmannréttindi?