HVERS VEGNA ALLT ÞETTA HATUR? Fjölskylduböl í fjölmiðlum

Inngangur: Þann 24. feb. s.l. (á afmælisdegi móður minnar) birti Þóra Tómasdóttir, ritstjóri glanstímaritsins Nýs lífs, flenniuppslátt um „meinta kynferðislega áreitni“ mína við systurdóttur konu minnar. Tímaritið seldist upp og aðrir fjölmiðlar tóku málið upp í kjölfarið.

Daginn áður, 23. feb., barst mér njósn af þessum málabúnaði og bað Fréttablaðið að birta samdægurs grein „Mala domestica…“ þar sem ég skýrði málið út frá mínum bæjardyrum. Margir sáu ástæðu til að tjá sig um málið, bæði í prentmiðlum en þó einkum í netheimum. Það var ekki fyrr en þann 16. mars, sem ég birti grein hér á heimasíðu minni undir heitinu „Að gera hreint fyrir sínum dyrum“. Sama dag birti Bryndís, kona mín, grein í Fréttatímanum undir fyrirsögninni „Nú er nóg komið“, þar sem hún tók til varna fyrir hönd fjölskyldu okkar.

Halla Harðardóttir, systurdóttir Bryndísar, brást harkalega við í grein í Fréttatímanum þann 23. mars (á afmælisdegi móður Bryndísar), þar sem hún veittist hart að móðursystur sinni. Engum, sem fylgdist með umfjöllun í fjölmiðlum og netheimum um þetta mál, gat blandast hugur um, að heitar tilfinningar bjuggu að baki. Á bak við þetta allt saman leyndist fjölskylda, sem var sundruð og í sárum. Margir höfðu orð á því, að þetta fjölskylduböl ætti ekkert erindi í fjölmiðla. Nær hefði verið að leita sátta með fulltingi sálusorgara. Nú er of seint að fást um það.

Margir létu í ljós undrun sína yfir þvi, hvers vegna þetta mál var matreitt ofan í fjölmiðla meira en áratug eftir að þau atvik áttu sér stað, sem urðu síðar tilefni klögumála. Hvers vegna einmitt núna? Hvers vegna allt þetta hatur, sem að baki bjó? Það er svo ekki fyrr en nú nýlega, nánar tiltekið 28. apríl s.l., sem Kolfinna dóttir mín birti grein á Facebook, þar sem hún segir söguna alla og svarar hispurslaust þeim spurningum, sem áður hafði verið ósvarað. Grein hennar: „Fjölskylduböl í fjölmiðlum – hvers vegna allt þetta hatur?“ , birtist hér á eftir „for the record“.
JBH

Aðför Þóru Tómasdóttur að mannorði föður míns í Nýju lífi (2.tbl. 2012), að undirlagi Guðrúnar Harðardóttur og fjölskyldu hennar, rifjar upp fyrir mér, að eftir eina af mörgum sáttatilraunum, sem gerðar voru við fjölskyldu Guðrúnar, sneri móðurbróðir minn til baka með þessi skilaboð: „Sáttatilraunir? Þið getið gleymt því. Það mætir ykkur ekkert nema svartnætti af hatri“.

Hvers vegna? Hvenær breyttist vinarþel í óvinafagnað? Ég tek undir með þeim sem segja, að deiluaðilar hefðu átt að hafa manndóm til að útkljá ágreiningsmál sín utan við kastljós fjölmiðla. Fjölskylduböl af þessu tagi á þar ekkert erindi. Þar með er ekki verið að mæla bót neins konar þöggun eða yfirhylmingu, fjarri því. Einungis, að sáttaumleitanir og sálusorgun hefði verið betur viðeigandi.

En úr því að búið er að bera málin á torg, verður hvorki við það ráðið né til baka snúið. Tilgangur þessarar greinar er ekki bara sá að hreinsa nafn föður míns af óréttmætum ásökunum. Tilgangurinn er líka sá að sýna fram á, af hvaða rótum þetta „svartnættishatur“ er runnið, hvaða hvatir búa að baki og hvað fyrir þeim vakir, sem að þessari aðför standa.

Spuni

Byrjum á byrjuninni. Ritstjóri Nýs lífs birtir mynd af Guðrúnu Harðardóttur, sem er þá sögð vera tíu ára, um það leyti, sem hún á að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu Jóns Baldvins. Með öðrum orðum: Faðir minn er sagður vera barnaníðingur. Lengra verður tæpast gengið í að vega að æru manns.

Til sannindamerkis um, að þessi ákæra eigi við einhver rök að styðjast, eru tilgreind tvö atvik, þegar Guðrún er tólf og fimmtán ára, fyrir meira en hálfum öðrum áratug. Þar með er búið að blanda mér og börnunum mínum inn í málið, sem og systur minni, Snæfríði, auk móður okkar. Við vorum nefnilega öll viðstödd þessi tilgreindu atvik og vitum því, um hvað er verið að tala. Sjón er sögu ríkari. Við þurfum ekki að reiða okkur á frásögn annarra. Við erum öll sannfærð og sammála um, að þarna átti engin kynferðsleg áreitni sér stað. Hvers vegna var ekki kært fyrr en eftir dúk og disk? Það er einfaldlega af því, að það hvarflaði ekki að neinum – hvorki Guðrúnu, aðstandendum hennar né okkur hinum – að hún hefði verið beitt kynferðislegri áreitni. Öll okkar samskipti næstu árin staðfesta þetta. Ef aðrar sögur úr sömu höfundarsmiðju („hann sagði – hún sagði“ söguburður) eru ámóta trúverðugar og þessar, þá gef ég satt að segja ekki mikið fyrir þær – og lái mér, hver sem vill. Hvað stendur þá eftir? Tilraun til mannorðsmorðs, sem hefur ekki annað við að styðjast en sögusagnir og – eftiráspuna.

Fölsun

Já, en, hvað með bréfið, sem fylgdi bók Vargas Llosa, og JBH sendi Guðrúnu til Venezuela, þar sem hún dvaldist sem skiptinemi, þegar hún var sautján ára? Spurningin um það var sú, hvort efni bréfs (og bókar) gæti talist hafa „sært blygðunarkennd“ viðtakanda og jafnvel talist refsivert að lögum? Saksóknari treysti sér ekki til að fallast á það og vísaði þeirri kæru frá, eftir að hafa íhugað málið í hálft annað ár. Þóra Tómasdóttir leggur saksóknara þau orð í munn í grein sinni, að hann hafi lýst JBH „sekan skv. íslenskum lögum“. Þetta er hrein fölsun á niðurstöðu réttarrannsóknar. Eitt dæmi af mörgum um vítaverða blaðamennsku Þóru.

Hitt er svo annað mál, að þótt efni bréfs sé ekki refsivert að lögum, getur það verið óviðurkvæmilegt, þannig að viðtakandi eigi fullan rétt á afsökunarbeiðni. Og það vantaði ekkert upp á það, að sú afsökunarbeiðni væri fram borin. Allt sem varðar þessi bréfaskipti, þ.m.t. hvers vegna til þeirra var stofnað, er að fullu upplýst. Ég hef engu við það að bæta, sem þar stendur. Og þó. Bréfritari kunni alla vega að skammast sín. Hann brást ekki við með forherðingu, þöggun eða yfirhylmingu. Hann iðraðist, baðst fyrirgefningar, leitaði hjálpar og bauðst til að gera allt, sem í hans valdi stæði til að bæta fyrir brot sitt. Það er meira en sagt verður um marga aðra, sem að þessu máli hafa komið og kunna hvorki að skammast sín né biðjast afsökunar á mannorðsmeiðandi gífuryrðum.

Þarna erum við loksins farin að nálgast kjarna málsins: Af hverju stafar allt þetta „svartnætti af hatri“, sem móðurbróðir minn lýsti og gegnsýrir t.d. grein Höllu Harðardóttur í FT. (23.03.12) – ef vitnisburðurinn í málinu og frambornar skýringar eru ekki burðugri en þetta? Er ekki kominn tími til að hætta feluleiknum og segja sannleikann umbúðalaust, fyrst þau, sem að þessari aðför standa, hafa valið þá leið að finna þessu óskiljanlega hatri sínu útrás í fjölmiðlum?

Hugarórar

Þær eru ófáar fjölskyldurnar á Íslandi , sem hýsa þann harm sinn í hljóði, að einhver fjölskyldumeðlimur er haldinn geðsjúkdómi. Þessi sjúkdómur er þess eðlis, að sá sem er haldinn honum telst löngum hvorki ábyrgur orða sinna né gerða. Til skamms tíma var reynt að fara með slíka ógæfu sem mannsmorð. Fyrir áhrif góðra manna, ekki síst bernskuvinar föður míns, Styrmis Gunnarssonar, hefur í seinni tíð verið reynt að svipta hulunni af leyndardómnum, sem hefur umlukið sjúkdóminn. Menn hafa reynt að beina umfjöllun um veikindi af þessu tagi og afleiðingar þeirra í þann farveg, að um það megi ræða fordómalaust, rétt eins og hver önnur veikindi. Ég treysti því, í því sem hér fer á eftir, að þetta viðhorf sé annað og meira en orðin tóm, þegar á reynir.

Allir sem þekkja eitthvað til okkar fjölskyldu vita, að einn úr okkar hópi hefur lengi verið haldinn geðhvarfasýki. Við höfum öll, foreldrar okkar, systkini og jafnvel nánir ættingjar, verið tilneydd, að læknisráði, að hafa afskipti af sjúklingnum til þess að koma í veg fyrir, að hann fari sjálfum sér eða öðrum að voða. Afleiðingarnar hafa verið óumflýjanlegar. Það er alkunna, að reiði hins sjúka eftir nauðungarvistun beinist fyrst og fremst að hans eða hennar nánustu. Þannig höfum við öll mátt þola haturs- og hefndarhug fyrir vikið. Það hefur tekið á sig ýmsar birtingarmyndir í tímans rás. Flest á það sammerkt í því, að það snýst um hugaróra um kynferðislega misnotkun af einu eða öðru tagi, sem sérfræðingar segja, að sé algengt og alþekkt sjúkdómseinkenni.

Þetta hefur bitnað á föður okkar með því að dóttir hans hefur spunnið upp sögur um, að hann hafi misnotað hana unga, og að við yngri systur hennar höfum mátt þola slíkt slíkt hið sama. Samkvæmt þessum sjúklegu hugarórum hefur faðir hennar átt mök við því sem næst allar kvenpersónur innan fjölskyldunnar, lífs sem liðnar, barnungar jafnt sem eiginkonur annarra fjölskyldumeðlima, fyrir utan vinkonur hennar og skólasystur. Þessir sjúklegu hugarórar hafa verið breiddir út munnlega og bréflega í meira en áratug. Hjá því fer ekki, að söguburður af þessu tagi eitrar smám saman út frá sér. Ýmsir, sem ekki þekkja aðstæður, hafa freistast til að trúa róginum. Aðrir hafa gripið hann upp fegins hendi til að finna höggstað á pólitískum andstæðingi.

Einn móðurbróðir minn, ásamt þáverandi eiginkonu sinni, tók að sér umbeðinn að annast um unga dóttur, meðan móðirin var vistuð á sjúkrahúsi og afi og amma búsett erlendis. Í staðinn uppskar hann formlega ákæru móðurinnar um kynferðislega áreitni við dóttur hennar. Kæran var rannsökuð af viðkomandi yfirvöldum og vísað frá sem tilefnislausri. Faðir minn er hvorki sá fyrsti né eini, sem hefur mátt þola slíkar ásakanir.

Í þrjú ár stóð Snæfríður systir mín í illskeyttri deilu við ítalskan barnsföður sinn um forræði yfir dóttur þeirra. Öll fjölskyldan stóð þétt að baki Snæfríði í þessari örlagaríku deilu – með einni undantekningu. Elsta dóttirin reyndi að leggja óvini systur okkar lið með því að mata hann á ofangreindum söguburði um föður hennar, í því skyni að veikja tilkall systur sinnar til forræðis yfir dóttur sinni. Þessi framkoma verður ekki skýrð nema í ljósi þess haturs – og hefndarhuga, sem sjúklingurinn ber til foreldra sinna og systkina.

Sama sagan

Ógæfa mín var sú, að í fjarveru foreldra og systkina kom það í minn hlut, ekki bara einu sinni heldur tvisvar, að aðstoða yfirvöld, að læknisráði, við nauðungarvistun sjúklingsins. Það hefði ég betur látið ógert. Það var ekki einasta, að mér væri gerð fyrirsát (sem hræddi næstum úr mér líftóruna).Það var þó ekkert í samanburði við það, sem gert var til að eyðileggja nafn mitt og orðstír – með slíku offorsi, að ég hrökklaðist úr landi með börnum mínum. Allur snerist sá rógburður um „kynferðismál/kynlíf“.

Þetta er enn eitt dæmið um, hversu grafalvarlegar afleiðingar þessi sjúkdómur getur haft, ekki einasta fyrir sjúklinginn sjálfan heldur fyrir alla hans nánustu.

Á s.l. hausti barst okkur vitneskja um, að Innanríkisráðuneyti og Ríkislögreglustjóra hefðu borist orðsendingar, ekki frá sjúklingnum að þessu sinni, heldur frá öðrum bandamanni hennar í rógsherferðinni, nefnilega barnsföður systur minnar á Ítalíu. Tilgangurinn var að koma á framfæri bréfum frá elstu systur minni með lítt dulbúnum ásökunum um kynferðislega misnotkun föður okkar á okkur systrum. Þetta var söguburður í svipuðum anda og fram kom í grein Þóru Tómasdóttur í Nýju lífi.

Allt ber þetta því að sama brunni. Það er rógsmaskína í gangi, sem þjónar aðeins einum tilgangi – að hafa æruna af föður mínum og fjölskyldu okkar. Takist það ekki fyrir dómsstólum, þá skal látið á það reyna í fjölmiðlum.

Kletturinn að baki

Í ljósi þessa brá mér síður en ella, þegar ég fékk símtal frá Guðrúnu Harðardóttur árið 2002, þar sem hún var nýkomin af fundi með systur minni, ásamt systrum sínum og frænkum. Þá heyrði ég hana halda því fram í fyrsta sinn, að faðir minn hefði áreitt hana kynferðislega. Síðan hefur sagan verið klædd í faglegri búning, að fenginni ráðgjöf frá Stígamótum (hjá móður Þóru Tómasdóttur, ritstjóra Nýs lífs?). Það er engu logið á hana systur mína um ímyndunarafl og sannfæringarkraft, þegar sá gállinn er á henni. Hún er lögfræðingur að mennt, fluggreind og þrumumálflytjandi. Hún er konan sem gæti selt þeim sand í Sahara. Er ekki sagt, að trúin flytji fjöll?

Allt frá því að hún var nauðungarvistuð á geðdeild, hefur reiði hennar og hatur beinst að föður hennar og, eftir atvikum, öðrum fjölskyldumeðlimum. Þótt framburðurinn sé breytilegur eftir árstíðum, snýst hann samt alltaf um það sama: Faðir hennar á að hafa misnotað hana sjálfa (sem barn), okkur systurnar, dóttur hennar, ömmu okkar (væntanlega sem fullorðna konu) og frænkur okkar – fyrir nú utan vinkonur hennar og skólasystur. Kannski gleymi ég einhverri. Mér er þá vorkunn, því að sakaskráin er síbreytileg. Meint áreitni við Guðrúnu frænku okkar sem barn, er bara partur af löngum lista um sambærilegt athæfi.

Við yfirheyrslur í tengslum við rannsókn ríkissaksóknara á kærum Guðrúnar Harðardóttur var rækilega fjallað um tengsl þeirra ákæruatriða við þennan síbreytilega söguburð um meinta kynferðislega áreitni föður míns við nánast allt kvenkyns innan fjölskyldunnar. Sá söguburður er iðulega fram borinn til að eyða efasemdum þeirra, sem reynst hafa tregir til að trúa framburði Guðrúnar um meint áreiti á barnsaldri eða saknæmi bréfaskrifta við hana. Ef þið trúið ekki Guðrúnu, þá hljótið þið, að minnsta kosti, að trúa hans eigin dóttur – eða hvað? Var það ekki svona, sem fjöðrin (bréfið) varð að heilli hænu í dæmisögu danska skáldsins H.C.Andersen?

Allt er þetta (sjálfsagt óvart) staðfest með orðum Guðrúnar sjálfrar í viðtalinu við Þóru Tómasdóttur. Þar segir Guðrún berum orðum: „Aldís, elsta dóttirin (Jóns Baldvins og Bryndísar) hefur reyndar staðið með mér eins og klettur“. Þessir sjúklegu hugarórar eru með öðrum orðum „kletturinn“ að baki ákærum á hendur JBH. Þetta er vitnisburðurinn, sem á að eyða efasemdum vantrúaðra, þótt réttarkerfið hafi vísað kærunum frá í tvígang. Þetta skýrir líka, hvers vegna sakleysileg atvik á bernskuárum, sem engum datt þá í hug að kenna við kynferðislega áreitni urðu, mörgum árum seinna, að meintu glæpsamlegu athæfi.

Fjölskyldubölið

Þegar hér er komið sögu hafði þetta „svartnættishatur“ náð að kynda undir eldum tortryggni og óvildar, sem þýddi, að öllum sáttaumleitunum var vísað á bug. Síðan hefur fjölskyldan verið í sárum. Hatrið gróf um sig og hefndarhugurinn réði för. Þetta er fjölskylduharmleikurinn, sem býr að baki öllu þessu máli. Það er engin leið að skilja þetta „svartnættishatur“ sem að baki býr, nema með því að þekkja þessa sögu. Sjúklegur söguburður, eins og hér hefur verið lýst, hefur sáð fræjum tortryggni, úlfúðar og haturs innan fjölskyldunnar og lagt sitt af mörkum til að útiloka sættir.

Systurnar þrjár, Halla, Katrín og Guðrún, dætur Magdalenu móðursystur minnar, voru afskaplega nánar mér á uppvaxtarárunum. Þær voru hluti af minni fjölskyldu. Þær gættu barna minna, rétt eins og ég hafði gætt þeirra. Ég leit á móður þeirra sem mína aðra móður. Hún ól mig upp og gerði mig að feminista. Einmitt vegna þess hversu nánum fjölskylduböndum við tengdumst á uppvaxtarárum þeirra, eru vinslitin, sem hlotist hafa af þessum rógburði öllum saman, þeim mun sárari.

Konan, sem Halla Harðardóttir ræðst á með offorsi í grein sinni í FT. (23.03.s.l.), átti stóran hlut í að ala hana upp. Þrátt fyrir allt sem á undan er gengið kemur mér samt sem áður á óvart, hvaða orðum hún leyfir sér að fara um hana móður mína.“ Siðblinda og meðvirkni?“ Hún móðir mín er samkvæmt Höllu meira að segja „hætt að vera sjálfstæð persóna“. Fyrr má nú vera ofstækið – gott ef þetta jaðrar ekki við kvenfyrirlitningu?

Hvað hefur hún móðir mín gert á hlut þeirra systra, sem réttlætir það, að hún verðskuldi slíka orðaleppa? Að trúa ekki skilyrðislaust ósönnum söguburði um, að eiginmaður hennar sé barnaníðingur – þótt hún viti betur? Á hún ekki rétt á því að leggja sjálfstætt mat á vitnisburðinn? Á hún ekki rétt á því, að komið sé fram við hana af virðingu og sanngirni, án aðdróttana og illmælgi? Er það virkilega svo, að með því að taka ekki nema mátulega mikið mark á rógsmaskínunni, hafi hún fyrirgert rétti sínum til að vera sjálfstæð persóna og að vera meðhöndluð sem slík? Hún móðir mín á það ekki skilið, að þær systur leyfi sér að sparka í hana fyrir þá sök eina, að hún hýsir stórt og örlátt hjarta. Hún á sér enga aðra ósk heitari en þá að fá að faðma fósturdætur sínar, áður en hún kveður þennan heim. Fær hún það?

Tilviljanir

Er það tilviljun, að snemma á þessu ári bárust foreldrum mínum tvö bréf frá elstu dótturinni, þar sem hún áréttar enn einu sinni haturs- og hefndarhug sinn í garð fjölskyldunnar. Þar boðar hún, að dagur reiðinnar sé í nánd og að við munum senn uppskera makleg málagjöld. „Helvíti – það eru þið“, segir þar. Auk þess segist hún vera að leggja seinustu hönd á bók, þar sem hún flettir ofan af fólsku foreldra sinna (áður hefur hún, að sögn, sett saman kvikmyndahandrit um sömu sögu og leitar nú að tilkippilegum leikstjóra).

Er það tilviljun, að þegar stjórn Samfylkingarfélagsins í Reykjavík hafði leitað til Jón Baldvins um að standa fyrir námskeiði á vegum félagsins um Hrunið snemma á þessu ár, barst stjórn félagsins nafnlaust níðbréf um námskeiðshaldarann, sem bar öll höfundareinkenni rógsmaskínunnar? Er það tilviljun, að um líkt leyti barst ritstjórnum fjölmiðla þetta sama nafnlausa níðbréf í póstinum? Er það líka tilviljun, að skv. fréttum sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, sig úr Samfylkingarfélaginu í Reykjavík, í mótmælaskyni við valið á leiðbeinanda á námskeiðinu um Hrunið?

Allt saman röð tilviljana? Og auðvitað hrein tilviljun, að Þóra Tómasdóttir, dóttir Guðrúnar Jónsdóttur hjá Stígamótum, ákveður að beita glanstímaritinu, sem hún ritstýrir til þess að finna söguburðinum farveg í fjölmiðlum? Ég er mátulega trúuð á tilviljanir. Þegar þær hrannast upp hver af annarri á skömmum tíma má oft finna ósýnilega hönd að baki, þegar skyggnst er undir yfirborðið.

Ég held ég hafi, þegar hér er komið sögu, sagt nóg til að svara spurningunni, sem hingað til hefur verið ósvarað: Af hverju stafar þetta svartnættishatur? Ég held, að þessar skýringar dugi líka til þess að lesendur skilji, hvers vegna ég tek heils hugar undir með móður minni, þar sem hún sagði í grein sinni í FT, 16.03., “Nú er nóg komið“:

„Af þessu tilefni get ég ekki orða bundist að segja það, sem mér býr í brjósti hreint út: Það er ljótt að færa sér í nyt fjölskylduharmleik annarra í því skyni að koma höggi á einhvern, sem manni er í nöp við, af hvaða ástæðum, sem það kann að vera. Það er reyndar meira en ljótt. Það er mannvonska“.

Í spegli tímans

Í erfiðum og viðkvæmum deilumálum er það góð regla að setja sig í annarra spor. Hvað gerir maður, sem er opinberlega borinn sökum um að vera barnaníðingur, ef það dugar ekki, að réttarkerfið hefur í tvígang vísað kærum á bug? Ef því er engu að síður haldið til streitu í fjölmiðlum, að hann sé víst sekur? Er þá ekki þrautalendingin að höfða meiðyrðamál, að fá hin ærumeiðandi ummæli dæmd dauð og ómerk og að krefjast miskabóta? Það sem fyrir liggur um óvandaða og óheiðarlega blaðamennsku Þóru Tómasdóttur í Nýju lífi virðist gefa ærið tilefni til að láta hana standa fyrir máli sínu frammi fyrir dómara. En hvaða tilgangi þjónar það? Jafnvel þótt hin ærumeiðandi ummæli yrðu dæmd dauð og ómerk, mundi það varla lækna þá, sem haldnir eru sjúklegu hatri, af meinsemd sinni.

Eitt að lokum. Halla Harðardóttir gefur það í skyn í grein sinni í FT., sem varð tilefni þessara skrifa, að það kunni að reynast foreldrum mínum sársaukafullt, eða jafnvel um megn, að horfast í augu, kinnroðalaust, við spegilmynd sína í samtímanum. Við nánari umhugsun held ég, að þarna skjátlist Höllu hrapallega – jafnvel að hún halli réttu máli. Vera má, að fordómarnir villi henni sýn. Sagnfræðingurinn í mér segir, að trúlega muni vandfundnir tveir einstaklingar meðal samtímafólks foreldra minna, sem geti að leiðarlokum litið jafnsátt yfir farinn veg og þau tvö. Þar með læt ég útrætt um þetta mál.