NÚ ER NÓG KOMIÐ

Fjölskyldusaga eftir Bryndísi Schram.
Nú er nóg komið, gott fólk. Nóg af rógi, aðdróttunum, haturskrifum, illsku og lítilmennsku. Ég er kona – eiginkona, móðir, amma, systir og frænka. Ég er meira að segja feministi, að því er ég best veit. Ég hlýt því að eiga rétt á því að bera hönd fyrir höfuð mér og fjölskyldu minni, þegar að henni er veist með ósönnum áburði.

Ég vil leyfa mér að leiðrétta nokkrar rangfærslur, sem haldið er fram í ákæruskjali Þóru Tómasdóttur á hendur okkur í Nýju lífi, (2.tbl.), í trausti þess, að menn vilji heldur hafa það sem sannara reynist.

Barnaníðingur?

Eftir að hafa lesið grein Þóru Tómasdóttur og viðtal við Guðrúnu Harðardóttur, er það aðallega eitt, sem víkur ekki úr huga mér og svíður sárar en allt annað. Þar er fullyrt, og áréttað með ljósmynd af Guðrúnu tíu ára, að hún hafi orðið fyrir kynferðislegu áreiti á heimili mínu strax á barnsaldri. Þetta er það ljótasta við frásögn Þóru. Og það er ennþá ljótara vegna þess, að þetta er ósatt – eftiráspuni.

Guðrún, systurdóttir mín, átti frá barnsaldri nánast sitt annað heimili hjá okkur á Vesturgötunni. Þetta var mannmargt heimili, þar sem Kolfinna, yngsta dóttir okkar bjó líka með börnin sín tvö. Árið 1996 fékk Guðrún að fara með okkur öllum sem barnapía til Spánar. Þá þurfti að bera sólarolíu á börnin, sem við skiptumst á um að gera, við hjónin og Kolfinna. (Fyrsta áreiti). Þremur árum eftir þetta (1999) vorum við öll gestir á heimili dóttur okkar í Róm. Það var þá, sem eiginmaður minn gantaðist við Guðrúnu um hringinn, sem hún hafði látið setja í tunguna á sér. (Annað áreiti). Hún gleymir því, að það voru fleiri viðstaddir í stofunni. Ertni af þessu tagi verður seint flokkuð undir áreiti. Við fórum í sjóinn og létum karlana henda okkur út í öldurnar. (Þriðja áreiti). (Af einhverjum ástæðum er þessu sleppt í upptalningunni í Nýju lífi). Fjórða áreitið var þegar sami maður bauð henni upp á „viskí og vindil“, að hennar sögn. Þetta gæti að vísu hljómað óhugnanlega, en það hefði mátt bæta því við, að það er verið að vísa til áramótateitis og allt húsið undirlagt gestum.

Því má svo bæta við, að ég var sjálf viðstödd hin meintu „áreiti“(nema hið síðasttalda), auk þess sem tvær dætur mínar voru líka viðstaddar, önnur hvor eða báðar. Engin okkar sá neina ástæðu til að lesa eitthvað ógeðfellt við framkomu eiginmanns míns gagnvart Guðrúnu. Það hvarflaði ekki heldur að Guðrúnu sjálfri – fyrr en mörgum árum seinna. Við vorum öll vinir og þótti gaman að vera saman. Það er óskiljanleg mannvonska og illgirni að dæma mann opinberlega sem barnaníðing út af söguburði eins og þessum.

Það er mikil mannfyrirlitning, sem birtist í skrifum konu, sem kennir sig við feminisma, um þetta mál. Og ekki bara mannfyrirlitning – heldur aðallega kvenfyrirlitning, sem hittir þá fyrir, sem síst skyldi. Hvað með mig í öllu þessu fári? Leyfist ritstjóra Nýs lífs að traðka á minni persónu, um leið og hún upphefur sjálfa sig? Er ég ekki kona eins og hún? Á ég ekki minn rétt eins og hún? Rétt til þess, að fólk komi fram við mig af sanngirni og heiðarleik – ekki með aðdróttunum og uppspuna? Hef ég ekki minn rétt til að leiðrétta rangan áburð, áður en meiðandi aðdróttanir eru birtar? Að halda því fram fullum fetum, að ég hafi búið í meira en hálfa öld með barnaníðing mér við hlið (líklega án þess að hafa hugmynd um það – eða hvað?) er ekki bara lítilsvirðing við mig. Það er bull og þvaður. Hreint út sagt – uppspuni.

Valdníðsla?

Og þá er komið að hinu ákæruatriðinu, bréfunum, sem JBH skrifaði Guðrúnu Harðardóttur á árinu 1998 og síðan 2001. Það gerði hann, vel að merkja, að hennar beiðni (hún hafði verið kosin í ritnefnd skólablaðs og vildi verða rithöfundur). Fjórum árum seinna, eða árið 2005, voru þessi bréf kærð til lögreglu (þar sem kærunni var vísað frá), og síðan voru þau lögð fyrir ríkissaksóknara. Ákæruatriðin sem fylgdu, fyrir utan bréfin, voru þau sömu og rakin voru hér að framan. Rannsóknarspurningin var, hvort einkabréf gætu talist refsivert athæfi að lögum, ef innihaldið teldist varða „særða blygðunarkennd“. Það tók embætti ríkissaksóknara á annað ár að svara spurningunni með því að vísa kærunni frá.

Hvernig dettur þeim það í hug, Þóru Tómasdóttur og viðmælanda hennar, að JBH hafi „í skjóli valds“, eins og það er orðað, reynt að tefja framgang málsins? Hvers vegna í ósköpunum hefði hann átt að gera það? Á því finnst engin skýring í viðtalinu, sem ekki er von. Þessu var þveröfugt farið. Við biðum, öll fjölskyldan, í angist og kvíða í eitt og hálft ár eftir því að fá endanlega niðurstöðu frá ríkissaksóknara. Var maðurinn sekur eða saklaus af ákærunni? JBH rak ítrekað eftir afgreiðslu málsins og gekk eftir svörum, eins og staðfest er í gögnum málsins, sem Þóra hafði sjálf undir höndum. Loks þoldi JBH ekki við að hafa þetta hangandi yfir höfði sér lengur og útvegaði sjálfur þau gögn (frá BNA og Venezuela), sem sagt var að þyrfti til að ljúka málinu. Það tók tvo sólarhringa að fá gögnin send. – Eftir á að hyggja hefði mátt nálgast hvort tveggja á netinu á örskotsstund. Hvers vegna var málið dregið á langinn von úr viti? Því geta þeir einir svarað, sem stýrðu viðkomandi ráðuneytum 2005-2007.

Það eru undarleg öfugmæli að bera sakborningnum á brýn valdníðslu af þessu tilefni. Að sjálfsögðu var honum í mun að fá botn í málið sem fyrst. JBH hafði ekkert húsbóndavald í þeim ráðuneytum, sem málinu var vísað til. Björn Bjarnason ríkti yfir dómsmálaráðuneytinu, en þau Geir Haarde og Valgerður Sverrisdóttir gegndu embætti utanríkisráðherra. Sá sem heldur, að þessir valdhafar hafi haft sérstakan áhuga á að halda verndarhendi yfir mannorði JBH, þekkja lítt til veruleika íslenskra stjórnmála. En þeir gætu hafa freistast til að draga niðurstöðuna á langinn – a.m.k. fram yfir framboðsfresti fyrir kosningar 2007. Alla vega tókst þeim það fyrirhafnarlítið. Ef ritstjóri Nýs lífs hefði virt andmælarétt sakbornings við undirbúning ákærunnar í Nýju lífi, hefði hún komist hjá því að verða uppvís að svona spuna.

Að lokum var það bréfið, sem fylgdi bók Vargas Llosa, sem rannsókn saksóknara beindist að. Það er þetta bréf, sem málið snýst raunverulega um. Í því birtast hin vítaverðu afglöp JBH, burtséð frá því, hvort bréfasending geti varðað við lög eða ekki. Hvað gerir maður, sem hefur gert sig beran að slíkum dómgreindarbresti? Ef hann er ærlegur maður, þá viðurkennir hann brot sitt og þrætir ekki fyrir það. Hann skammast sín og iðrast gerða sinna. Hann biðst fyrirgefningar. Hann býðst til að gera allt, sem í hans valdi stendur, til að bæta fyrir brot sitt, svo að unnt sé að ná sáttum. Allt þetta gerði JBH – en hefur komið að lokuðum dyrum í meira en áratug. Hvað getur hinn brotlegi gert frekar til að bæta fyrir glöp sín? Hvað er nægileg refsing? Ég leyfi mér að vona, að Guðrún Harðardóttir og fjölskylda hennar þurfi ekki á fyrirgefningu annarra að halda á ókomnum dögum – og alla vega, að þau komi þá ekki að lokuðum dyrum.

Svo skora ég á hvern þann mann, sem telur það sína stærstu og alvarlegustu yfirsjón í lífinu að hafa skrifað bréf til ungrar stúlku, sem hefði betur verið óskrifað, að gefa orðum mínum gaum. Og líti nú hver í sinn eigin barm, eiginmenn, bræður, feður og synir: Sá yðar sem syndlaus er, kasti fyrsta steininum.

Þöggun?

Til eru þeir, sem lýsa ánægju sinni með, að „sannleikurinn“ í þessu máli skuli loksins birtur almenningi, laus undan fargi þöggunar. Hvaða þöggun er verið að tala um, með leyfi? Hvaðan kemur t.d. bæjarstjóranum á Dalvík – af öllum konum – sú viska, að viðbrögð við þessu máli hafi verið þöggun? Hér ríkti engin afneitun, engin yfirhylming. Bréfunum var komið á framfæri við aðila innan fjölskyldunnar, sem leitað var til með beiðni um milligöngu um sáttaumleitanir. Af einhverjum ástæðum voru bréfin fjölfölduð og þeim dreift meðal ættingja, vina, kunningja – og óvina. Það ríkti sem sé engin þöggun, nema kannski gagnvart sjálfum okkur. Við urðum vör við breytt viðmót sumra og stöku ásakandi augnaráð á stundum. Umtalið á bak varð smám saman óvægnara. Fyrirgefningin fjarlægðist æ meir. Flestir þvoðu hendur sínar.

Bæjarstjórinn á Dalvík hefur lýst ánægju sinni með, að þöggun málsins sé aflétt. Hún virðist líta svo á, að þá fyrst sé þöggun aflétt, þegar sagan er flennt út á síðum blaðanna, þótt hún sé þar sögð einhliða í útgáfu ákærenda. Trúir hún því virkilega, að það sé af hinu góða? Er það sú samfélagslega nauðsyn og andlega heilsubót, sem ákærendur í þessu máli lýsa eftir? Trúa menn því, að það sé rétta leiðin til að stuðla að sáttum í viðkvæmum fjölskyldudeilum? Er það þetta, sem við viljum, frú bæjarstjóri?

Hvað býr að baki?

Á einum stað í viðtali Þóru Tómasdóttur við Guðrúnu Harðardóttur í Nýju lífi vitnar Guðrún um það, að dóttir mín hafi “staðið með sér eins og klettur“. Ég viðurkenni, að þegar ég las þessi tilvitnuðu orð, fór um mig ískaldur hrollur. Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds. Nú fannst mér ég allt í einu skilja samhengi hlutanna.

Þetta skýrir reyndar margt, sem ella leynist undir yfirborðinu. Til dæmis, hvers vegna sakleysisleg atvik frá bernskuárum, sem engum datt þá í hug að kenna við kynferðislega áreitni, urðu mörgum árum seinna að meintu glæpsamlegu athæfi? Eða hvers vegna öll sáttaboð hafa verið hunsuð öll þessi ár? Eða hvers vegna fjölskylda Guðrúnar ákvað, seint og um síðir, mörgum árum eftir að réttarkerfið vísaði málinu frá, að leita „réttlætisins“ varðandi svo viðkvæmt fjölskyldumál í fjölmiðlum? Og þá fer maður loks að skilja, hvers vegna allar þessar sögusagnir, sem hafa verið á kreiki manna í milli, hafa alið á óvild innan fjölskyldunnar.

Það má ráða af grein Þóru Tómasdóttur í N.l., að hún hafði undir höndum útskrift af yfirheyrslum vegna rannsóknar málsins á vegum ríkissaksóknara. Þar er fjallað í fullum trúnaði um þau vandamál, sem fjölskylda okkar hefur átt við að stríða, enda út frá því gengið, að sá trúnaður verði virtur og fjölskylduharmleikurinn ekki borinn á torg í fjölmiðlum. Þóra Tómasdóttir getur því ekki látið, eins og henni hafið verið ókunnugt um þetta böl, sem árum saman hefur varpað dimmum skugga yfir líf okkar fjölskyldu. En hún kaus að láta það ekki aftra sér frá því að flagga málinu í fjölmiðlum, án þess að segja söguna alla, nema að því leyti sem henni hentaði.

Af þessu tilefni get ég ekki orða bundist að segja það, sem mér býr í brjósti, hreint út: Það er ljótt að færa sér í nyt fjölskylduharmleik annarra í því skyni að koma höggi á einhvern, sem manni er í nöp við, af hvaða ástæðum, sem það kann að vera. Það er reyndar meira en ljótt. Það er mannvonska.

Og eitt ætla ég að láta ykkur vita, sem að þessu standið, og hafið þegar valdið fjölskyldu minni, þar með talið barnabörnum, sárum en þögulum harmi. Ég ætla ekki að láta ykkur líðast að halda þessu áfram. Ég sit ekki lengur þögul undir þeim ósönnu, ógeðfelldu og hatursfullu aðdróttunum, sem verið er að breiða út í skjóli myrkurs. Ég er búin að fá nóg – þess vegna skrifa ég þessi orð.

Um Jón Baldvin, sem er skotspónn þessa rógburðar, þótt hann bitni á okkur öllum, ætla ég að segja eins og Bergþóra forðum, að ung var ég gefin Njáli. Ég þekki þennan mann jafnvel betur en sjálfa mig og veit hvern mann hann hefur að geyma. Og allir sem þekkja hann, vita, að hann er óvenju hreinskiptinn, ærlegur og sannur í samskiptum við annað fólk. Í honum er ekki til fals né fólska. Þess vegna er þetta svo sárt. Og þetta vita hinar illu tungur innst inni líka. Og það er kannski sárast.

(Þeim sem vilja kynna sér frekar gögn málsins, er bent á vefslóðina: jbh.is: AÐ GERA HREINT FYRIR SÍNUM DYRUM.)