AÐ GERA HREINT FYRIR SÍNUM DYRUM

Þann 24. febrúar s.l. (á afmælisdegi móður minnar) birti Þóra Tómasdóttir í riti sínum Nýju lífi, (2. tbl.) ákæruskjal, þar sem ég var sakaður um kynferðislega áreitni við unglingsstúlku í fjölskyldu okkar Bryndísar. Þetta eru grafalvarlegar ásakanir, til þess fallnar að ræna hvern mann mannorðinu, sem fyrir verður.

Ég skulda öllu því fólki, sem hingað til hefur borið traust til mín sem ærlegs manns, afkomendum mínum, vinum og ættingjum, að segja þeim sannleikann – og ekkert nema sannleikann – um þetta mál. Ég brást strax við, m.a.s. að ásökununum óséðum, með grein í Fréttablaðinu, 23. feb. s.l.: Mala domestica…. Það gat ég gert, af því að allar þessar ásakanir eru gamalkunnar, u.þ.b. tíu ára gamlar. Ég hef svarað þeim öllum áður – líka við yfirheyrslur vegna lögreglurannsóknar á vegum ríkissaksóknara fyrir um fimm árum. En ekki fyrr en nú opinberlega.

Ég taldi rétt að láta nokkurn tíma líða, áður en ég brygðist við. Í fyrsta lagi tók það tímann sinn að fá í hendur rannsóknargögnin frá saksóknaraembættinu. Einnig vildi ég gefa öllum þeim, sem fyndu hjá sér þörf fyrir að setjast í dómarasæti yfir mér, að rasa út. Ætli umræðuefnið sé ekki orðið næstum því tæmt, þegar hér er komið sögu? Þeir eru allavega ófáir, sem hafa haft sitt að segja í prentmiðlum, ljósvakamiðlum og netheimum, nafnlausir jafnt sem undir nafni.

En hingað til hefur sagan verið sögð algerlega einhliða, á forsendum hópsins, sem að ákærunni stendur. Blaðamennska Þóru Tómasdóttur í þessu máli er að vísu svo óvönduð og óheiðarleg, að jafnvel mér blöskrar, og er ég þó ýmsu vanur. Ég mun rökstyðja þessa fullyrðingu rækilega hér á eftir. Almenningsálitið verður hvorki betra né verra en þær upplýsingar, sem matreiddar eru ofan í almenning. Niðurstaða flestra verður þá í samræmi við það – og lái þeim hver sem vill.

En jafnvel þótt ósannindi verði hér borin til baka og rangfærslur leiðréttar, er það ævinlega svo í málum af þessu tagi, að ásökunin ein og sér vekur grunsemdir og tortryggni og er til þess fallin að skaða mannorð viðkomandi varanlega. Vel má vera, að svo sé í þessu tilviki. En fyrir þá, sem vilja heldur hafa það sem sannara reynist, mun ég segja söguna hér á eftir út frá staðreyndum og málsgögnum, sem leiddu til þeirrar niðurstöðu, að ríkissaksóknari vísaði málinu frá fyrir fimm árum.

HVAÐ ER ÓSATT?

Fyrst skulum við hafa á hreinu, hvað er ósatt í áburðinum. Í texta við mynd af Guðrúnu Harðardóttur (systurdóttur Bryndísar), er fullyrt, að kynferðisbrot gagnvart henni hafi hafist af minni hálfu, þegar hún var ca. tíu ára. Ég er m.ö.o. sakaður um að vera barnaníðingur. Þetta er ekki bara svívirðileg ásökun. Þetta er sem betur fer ósatt, tilbúningur, fundinn upp eftir á.

Hvernig get ég fullyrt þetta? Ég er svo heppinn, að aðrir voru viðstaddir öll þau „atvik“ (nema eitt), sem tínd eru til stuðnings áburðinum. Bæði Bryndís, kona mín, og dætur mínar, Snæfríður og Kolfinna, önnur hvor eða báðar, voru viðstaddar á sama stað og tíma. Þær hafa allar vottað það, að þetta er tilhæfulaust. Bréf þeirra, þessu til staðfestingar, voru lögð fram við rannsókn málsins (sjá bréf Bryndísar til Guðrúnar hér á eftir).

Af grein Þóru Tómasdóttur má ráða, að gögn lögreglurannsóknarinnar (2005-2007), þ.m.t. útskrift af yfirheyrslum, voru henni tiltæk. Hún hafði þessar upplýsingar að engu – tíndi út úr vitnisburðinum það eitt, sem henni hentaði. Það segir allt sem segja þarf um hvað fyrir henni vakti. Það var eitthvað annað en sannleiksástin ein og tær. Það hvarflaði m.a.s. ekki einu sinni að Guðrúnu sjálfri , að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri áreitni fyrr en mörgum árum eftir að tilgreind atvik áttu sér stað. Það á sér sínar skýringar, en við látum þær bíða að svo stöddu. Aðalatriðið er þetta: Guðrún Harðardóttir varð ekki fyrir kynferðislegri áreitni af minni hálfu á barnsaldri.

HVAÐ ER SATT?

Um hvað snýst þá málið? Það snýst um bréfaskriftir lífsreynds manns til unglingsstúlku. Það þarfnast auðvitað skýringa, hvers vegna til slíkra bréfaskrifta var stofnað, (ég vík að því hér á eftir). En eina kæruatriðið, sem eftir stóð til rannsóknar hjá lögreglu skv. fyrirmælum ríkissaksóknara, var eitt bréf, sem fylgdi bók eftir Nóbelsverðlaunahafann Vargas Llosa, frá árinu 2001, (um bók og höfund sjá síðar). Þá var Guðrún á átjánda ári, skiptinemi í Venezuela.

Nánar tiltekið var rannsóknarspurningin sú, hvort innihald bréfsins gæti talist hafa „sært blygðunarkennd“ viðtakanda og þar með varðað við lög. Það mun vera fordæmalaust, að einkabréf milli tveggja fullveðja einstaklinga, sé dæmt brotlegt við hegningarlög, enda treysti ríkissaksóknari sér ekki til að höfða slíkt mál. Fullyrðing Þóru Tómasdóttur um, að saksóknari hafi komist að þeirri niðurstöðu, að höfundur bréfsins væri „brotlegur samkvæmt íslenskum lögum“ er einfaldlega röng. Saksóknari fullyrðir hvergi neitt slíkt. Kærunni var að lokum vísað frá, vegna þess að tilefnið til ákæru, sem leitt gæti til sakfellingar, fannst ekki.

Aðalatriðið er þetta: Kæruefnið var ekki kynferðisleg áreitni heldur spurning um, hvort efni bréfsins (og reyndar skáldsögunnar) gæti „sært blygðunarkennd“ viðtakandans. Og viðtakandinn var sautján ára – ekki á barnsaldri, eins og Þóra Tómasdóttir vill vera láta. Sá sem vill túlka ákvæði íslenskra hegningarlaga með þeim hætti, að einkabréf milli fullveðja einstaklinga geti varðað við lög – og saksóknari treysti sér ekki til þess – verður að gera sér grein fyrir afleiðingunum, sem hlytust af slíkum dómafordæmum. Þær gætu t.d. varðað ýmsar grundvallarspurningar um tjáningarfrelsi og „friðhelgi einkalífs“. Nánar um það síðar.

HVAÐA ÞÖGGUN?

Þriðja meginatriði þessa máls leiðir hugann að sígildum spurningum um iðrun og fyrirgefningu. Þótt efni bréfsins til Guðrúnar hafi hvorki réttlætt ákæru né leitt til sakfellingar að lögum, getur efni bréfs verið óviðurkvæmilegt, ósæmilegt, jafnvel særandi, þótt ekki þyki það refsivert í skilningi hegningarlaga. Þá er það til bóta, að bréf má endursenda. Viðtakandi getur líka átt rétt á afsökunarbeiðni. Og hér er komið að kjarna málsins varðandi viðbrögð bréfritarans.

Í flestum kynferðisafbrotamálum er vandinn sá, að reynt er að þagga mál niður, halda þeim leyndum, pukrast með þau, hylma yfir. Gerandinn þrætir gjarnan fyrir og reynir að komast upp með afneitun. Í þessum punkti skilur í milli feigs og ófeigs. Fæst komumst við í gegnum lífið, án þess að okkur verði einhvern tíma á í messunni. Heilagir menn eru ekki á hverju strái í tilverunni. En ef við brjótum af okkur, þá reynir á, hvort við erum menn til að horfast í augu við okkur sjálf og þann, sem brotið er á. Hvort við iðrumst gerða okkar og mælumst á þeim forsendum til fyrirgefningar. Þá reynir ekki síður á hinn, sem brotið hefur verið á, hvort hann býr yfir þeim þroska og skapgerðarstyrk að geta fyrirgefið.

UM IÐRUN OG FYRIRGEFNINGU

Hver voru viðbrögð mín, þegar ég gerði mér ljóst, að mér hafði orðið alvarlega á? Ég játaði brot mitt fyrirvara- og fortakslaust og þrætti ekki fyrir neitt. Ég ástundaði hvorki þöggun né yfirhylmingu. Ég skammaðist mín, iðraðist, leitaði ásjár og baðst fyrirgefningar. Ég viðurkenndi, að efni bréfsins væri ósæmilegt. Ég áttaði mig á því seint og um síðir, að viðtakandinn hafði engar forsendur til að skilja bókina, og að bréfið átti ekkert erindi við hana. Ég játaði því á mig dómgreindarbrest og baðst fyrirgefningar.

Ég skrifaði Guðrúnu sjálfri afsökunarbréf (sjá hér á eftir), og ég skrifaði föður hennar og fjölskyldu bréf, þar sem ég bauðst til að gera allt sem í mínu valdi stæði til að bæta fyrir glöp mín. Ég bauðst til að hitta fjölskylduna til að bera fram afsökunarbeiðni mína augliti til auglitis. Ég bauðst til að ræða við hvern þann, sem fjölskyldan kysi sér til fulltingis, sálfræðinga, félagsráðgjafa eða aðra milligöngumenn, til þess að sannleikurinn í málinu yrði leiddur í ljós og misskilningi, tortryggni og grunsemdum eytt. Í minnisblaði til ríkissaksóknara (24.01.07), sem er eitt af gögnum málsins, segi ég eftirfarandi: „Það (er) sannfæring mín, að fjölskylduböl af þessu tagi verði ekki leyst hjá lögreglu eða dómstólum. Það á miklu fremur heima hjá sálusorgurum, sem leiða fólk til sátta og fyrirgefningar, með það að leiðarljósi, sem skrifað stendur: Sá yðar sem syndlaus er, kasti fyrsta steininum“.

FJÖLSKYLDUBÖLIÐ

Ég nota þarna orðið fjölskylduböl. Hvað á ég við? Ég á við það, að nánir ættingjar, venslamenn og vinir innan sömu fjölskyldu, geta allt í einu ekki talast við, geta ekki lengur leyst misklíðarefni eða ágreiningsmál, sem upp koma með samtölum, í sátt og samlyndi. Óvild, totryggni, grunsemdir, söguburður, illmælgi á bak og hatur grefur um sig og eitrar út frá sér. Það er þetta sem hefur gerst í okkar fjölskyldu. Það á sér líka aðrar og dýpri rætur innan okkar fjölskyldu en hér hefur verið lýst. Að svo stöddu kýs ég að gera þau mál ekki að umræðuefni opinberlega – ótilneyddur.

Ég hef játað mitt brot. En ég hef líka beðist fyrirgefningar og leitað hjálpar til að koma á sáttaumleitunum. Í áratug hefur þeirri viðleitni minni verið mætt með ískaldri þögn, ósönnum söguburði, illmælgi á bak, hatri og hefnigirni. Því miður er það svo, að það er hatur og hefnigirni, sem að baki býr. Fyrst er leitað til lögreglu og saksóknara og reynt að fá óvininn dæmdan. Þegar það tekst ekki, er ágreiningsmálum vísað til dómstóls fjölmiðla og almenningsálits. Það telst sætur sigur, ef það tekst að ræna óvininn mannorðinu.

Það er dapurlegt til þess að vita, að öll þessi óvild, allt þetta hatur og öll þessi hefnigirni, skuli hafa búið um sig í hugarfylgsnum og sálarlífi þess fólks, sem stendur að baki þessu, í meira en áratug. Hatrið er nefnilega skaðræðisskepna. Það bitnar ekki bara á þeim, sem fyrir því verða. Það eitrar líka líf þeirra, sem hýsa það og næra. Það er einmitt það, sem er svo sorglegt. Það er þetta, sem Brynjólfur biskup í Skálholti átti við forðum, þegar hann sagði: „Mala domestica lacrimis majores sunt“ – „Heimilsbölið er þyngra en tárum taki“.

Með þessum orðum hef ég í rauninni sagt allt, sem mér liggur á hjarta um þetta mál. Vinir mínir geta samhryggst mér yfir því, að fjölskylduböl af þessu tagi skuli varpa skugga á líf okkar Bryndísar og fjölskyldu á efri árum. Það er eitthvað sem við Bryndís, börn okkar og barnabörn, erum dæmd til að búa við. Þá er að reyna að bera það af æðruleysi. Óvinir okkar geta þess vegna hlakkað yfir óförum okkar, eins og hver og einn hefur upplag til. Verst er þó hlutskipti þeirra, sem láta stjórnast af hatrinu og sjá varla til sólar fyrir því á degi hverjum. Ég samhryggist þeim.

Það sem hér fer á eftir er sitthvað sem málið varðar upp úr málsgögnum til áréttingar ýmsu því, sem þegar hefur verið sagt. Það á fyrst og fremst erindi við þá, sem málið varðar sérstaklega.

HVERS VEGNA ÞESSAR BRÉFASKRIFTIR?

Hver er skýringin á því uppátæki að fara að skrifa henni Guðrúnu bréf úr ýmsum heimshornum, haustið 1998 (þegar hún er fjórtán ára) og svo árið 2001 (þegar hún er sautján ára)? Það er von að spurt sé. En ástæðan er einföld: Guðrún hafði verið kosin í ritnefnd skólablaðsins í Hagaskóla og trúði mér fyrir því þá um sumarið, að hana langaði svo til að læra að skrifa. Það var þess vegna, sem hún bað mig um að skrifa sér bréf. Ég tók því að sjálfsögðu vel og hvatti hana til að byrja á því að halda dagbók. Í afsökunarbréfi mínu til Guðrúnar í apríl 2002 segir svo: „Bréfaskriftir mínar til þín frá erlendum borgum þykja kannski skondið uppátæki, en til þeirra var svo sannarlega ekki stofnað af illum hug til þess að særa eða meiða. Þvert á móti. Það byrjaði á því, að ég vildi hvetja þig til þess að halda dagbók. Til þess að skrifa um tilfinningar, væntingar og vonbrigði unglingsáranna. Beinlínis til að skrifa þig frá sársauka, efasemdum og kvíða. Til þess að reyna að kynnast sjálfum sér og læra að umbera sjálfan sig með kostum sínum og göllum. Ég hef engri manneskju kynnst hingað til, sem er gallalaus; en hversu mörgum hef ég ekki kynnst, sem eru tilfinningaheftir, þora ekki að tjá tilfinningar sínar, þora þar með ekki að lifa. Með þessu hugarfari hef ég skrifast á við fólk, sem mér þykir vænt um, konu mína, börnin mín, systkini og vini – og geri enn“.

Síðar í þessu bréfi segir eftirfarandi: „ Þegar Bakkus konungur tekur völdin, verður dómgreindin fyrsta fórnarlambið. Það gerðist, þegar ég skrifaði þér til Venezuela. Þetta er ekki sagt til að afsaka mig, heldur til þess að biðjast afsökunar. Ég á ekki aðra ósk heitari þessa stundina en að þú trúir því, að mér gekk ekkert ill til, og að þú gætir þess vegna fyrirgefið mér …. Auðvitað særir það mig að heyra úr ýmsum áttum söguburð, hafðan eftir þér um, að ég hafi áreitt þig kynferðislega sem barn og ungling. Ég veit, að þú veist, að það er ekki satt. Ég hef aldrei þröngvað þér til neinna atlota, ekki snert þig, ekki kysst þig – nema á báða vanga, eins og ég geri við alla, sem mér þykir vænt um. Þetta veit ég, að þú veist, og það nægir mér“. – Við þessari afsökunarbeiðni hefur enn ekki borist neitt svar.

BRÉF BRYNDISAR: HVAÐ BREYTTIST?

Hvenær breyttust eðlileg samskipti innan fjölskyldunnar í meint glæpsamlegt áreiti? Sumarið 1998 (þegar GH er fjórtán ára) dvaldi hún hjá okkur Bryndísi í Washington D.C. ásamt systur sinni í góðu yfirlæti. Þá hafði enginn heyrt um meinta kynferðislega áreitni við Guðrúnu frá tíu ára aldrei. Síðsumars 2001, að lokinni vist í Venezuela sem skiptinemi, heimsótti Guðrún okkur Bryndísi að Álfhóli í Mosfellsbæ. Hún flaug upp um hálsinn á okkur báðum að venju. M.a.s. þá, þegar Guðrún er sautján ára, sóttist hún eftir félagsskap okkar, eins og hún hafði alltaf gert. Það átti eftir að breytast heldur betur – en ekki fyrr en ári síðar (2002). Hvers vegna? Í júlímánuði árið 2004 (þegar Guðrún er tvítug), hitti Bryndís Guðrúnu systurdóttur sína að máli. Þá heyrði Bryndís hana segja ýmislegt, sem hún lagði ekki trúnað á. Í framhaldinu settist hún niður og skrifaði Guðrúnu bréf (29.07.04). Í bréfinu er Guðrún beðin um skýringar á því, hvað hafi breyst? Bréfið hljóðar svo:

„Guðrún mín. Það var bæði gaman og sárt að hitta þig þessa kvöldstund í vor. Það var gaman, af því að þú varst enn litla fallega stelpan, sem mér þótti svo vænt um. Það var gaman, af því að ég fann, að þú varst að ná fótfestu í lífinu. Þú hlakkaðir til ókominna tíma og vissir hvað þú vildir í framtíðinni. Það var sárt, af því að þú talaðir af hatri og lítilsvirðingu um manninn í lífi mínu. Þú notaðir orðið „ógeðslegur“. Snæfríður segir mér, að þú hafir notað þetta orð um föður hennar, þegar þið hittust í sumar.

Ég veit, að þér hefur ekki alltaf þótt Jón Baldvin ógeðslegur. Og ég hef verið að velta því fyrir mér, hvenær það gerðist, að skoðun þín breyttist. Ég hef verið að fara yfir þetta í huganum og er enn ekki farin að skilja. Þú varst hjá okkur langtímum saman, þegar þú varst lítil. Þú varst ein af okkur, og við elskuðum þig öll. Þér fannst Jón Baldvin ekki ógeðslegur þá, því að þú baðst um að fá að koma með okkur, þar sem við dvöldum á Spáni sumarið 1996 (þegar þú varst tólf ára). Þá bar Jón Baldvin á þig sólkremið og einnig á Starkað og Möllu, það var 40° stiga hiti, ég stóð við hliðina á ykkur og hjálpaði til.

Þér fannst hann ekki ógeðslegur þá, því að þú hélst áfram að venja komur þínar á heimili okkar. Þú baðst um að fá að heimsækja okkur í Washington vorið ´98. Þú dvaldist í Washisngton D.C. hjá okkur í nokkrar vikur í góðu yfirlæti. Þér fannst hann ekki ógeðslegur þá, því að þú vildir enn vera ferðafélagi okkar á Ítalíu sumarið 1999. Jón Baldvin leitaði þá á þig, að þinni sögn, – við vorum í leik á ströndinni – hver gat kastað hverjum lengst út í sjóinn. Kannski hefur JB snert þig á einhverjum viðkvæmum stað í hamaganginum, en það var ekki áreitni, Guðrún. Svo vorum við eitthvert kvöld að gera grín að hringnum, sem þú hafðir í tungunni. JB sagðist aldrei hafa kysst stelpu með hring í tungu. Flokkast það undir kynferðislega áreitni? Þú gleymir því, að ég var með ykkur, ég var þarna líka, ég var viðstödd í bæði skiptin.

Þér fannst hann ekkert ógeðslegur þá, því að þú þáðir að borða með honum morgunverð á Borginni seinna sama haust. Þú baðst hann um að skrifa þér frá Ameríku. Þú sagðir honum, að þú værir í ritnefnd skólablaðsins og að þú vildir verða rithöfundur. Þér fannst hann ekkert ógeðslegur þá. Svo fórst þú til Ameríku haustið 2000. Þér fannst hann ekki ógeðslegur þá, því að þegar þú komst heim aftur að ári liðnu, sumarið 2001, heimsóttir þú okkur í sumarbústaðinn ásamt systur þinni. Þú hljópst upp um hálsinn á okkur báðum, borðaðir með okkur læri, sem JB bakaði undir torfu, sagðir frá ævintýrum þínum í Venezuelu, hlóst og gerðir að gamni þínu. Það var hérna fleira fólk til vitnis um það. Nú er spurning mín til þín, Guðrún mín: Hvenær varð Jón Baldvin svona ógeðslegur í þínum augum? Ég verð að fá svar við þeirri spurningu…“

Við þessu bréfi barst aldrei neitt svar. Það hefur reyndar ekki borist enn.

HVER ER ÞESSI VARGAS LlOSA?

Í minnisblaði til ríkissaksóknara(24.01.07) þar sem JBH gagnrýnir ríkissaksóknara harðlega fyrir óverjandi langan drátt á að leiða kæruna út af bréfinu, sem fylgdi bók Vargas Llosa, til lykta, segir m.a.:

„Bréfið fylgdi bók eftir einn af þekktustu höfundum Suður-Ameríku – bók sem fjallaði um stöðu Suður-Ameríkuríkja í heiminum. Sagan er allegóría – hún lýsir Suður-Ameríku sem hinni miklu Babylonshóru í stíl gamla testamentisins og líkir pólitískri og efnahagslegri undirokun álfunnar við kynferðislega undirokun. Í bókinni koma fyrir lýsingar á kynferðislegum athöfnum, sem og í bókinni. Þetta vekur upp spurningar, sem varða kæruefnið.

Getur útgáfa bókar þótt refsivert athæfi? Þess eru dæmi frá ýmsum löndum og tímabilum, sbr. hina frægu skrá Vaticansins um bannfærð rit. En þessi bók hefur ekki þótt refsivert athæfi, því að hún var gefin út og þýdd á mörg tungumál.

Í bókinni koma fyrir, sem fyrr sagði, lýsingar á kynferðislegum athöfnum. Þyki það glæpsamlegt og þar með refsivert, þá er obbinn af heimsbókmenntunum kominn á sakarskrá. Sama máli gegnir um kvikmyndir, sjónvarpsmyndir og meginið af því afþreyingarefni, sem Hollywood framleiðir og ber út um heimsbggðina handa unglingum. Ef lýsing kynferðislegra athafna þykir ekki refsivert athæfi á bók, í kvikmynd, í sjónvarpi eða í öðrum afþreyingarmiðlum, hvers vegna þá í bréfi, þar sem viðtakandinn er fullveðja persóna?

Lögmaður minn, Kristinn Bjarnason, hrl., kveðst ekki kannast við neitt fordæmi um það, að sendibréf, sem fer milli tveggja fullveðja einstaklinga, hafi flokkast undir kynferðislega áreitni skv. íslenskum hegningarlögum. Bók má láta ólesna og bréf má endursenda og er þá vonandi enginn skaði skeður. Öðru máli gegnir um það, þegar einhverjum er þröngvað til kynferðislegra athafna gegn vilja sínum. Það getur óumdeilanlega valdið varanlegum skaða, sem ekki verður aftur tekinn eða fyrir bætt. Þess ber og að gæta, að í umræddu einkabréfi er lýsingu á kynferðislegum athöfnum ekki beint að viðtakanda frekar en í bókinni, sem var tilefni bréfsins“.

RÉTTLÁT MÁLSMEÐFERÐ OG FJÖLMIÐLAFÁR

Í þessu sama bréfi segir enn fremur:

„Það væri í hæsta máta ósanngjarnt, ef skortur á skilvirkni í störfum ráðuneyta (óverjandi tafir á afgreiðslu málsins), á að bitna á mannréttindum hins kærða. Rannsókn málsins getur ekki haldið áfram endalaust, vegna þess að það brýtur í bága við réttláta málsmeðferð og eðlilegt tillit til mannréttinda hins kærða.

Mér skilst, að almennt séð þyki ekki við hæfi að gefa út ákæru, nema fyrir liggji veigamikil rök og yfirgnæfandi líkur á sakfellingu. Mál af því tagi, sem hér um ræðir, eru óvenjulega viðkvæm. Þess vegna gildir um slík mál rík trúnaðar- og þagnarskylda, varúð við vörslu gagna og jafnvel lokuð réttarhöld. Þess vegna er brot á trúnaði og þagnarskyldu (málinu var lekið til fjölmiðla af embættismanni hjá lögreglustjóraembættinu) þeim mun alvarlegra, sem mál af þessu tagi eru viðkvæmari gagnvart mannorði hins kærða.

Óvönduð umfjöllun í málum af þessu tagi virðist sýna, að ákæran ein og sér – jafnvel þótt hinn ákærði reynist að lokum sýkn saka – loðir við nafn hans og eyðileggur mannorð hans fyrir lífstíð. Fyrir kemur, að það er sjálfur tilgangur kærunnar. Af þessum ástæðum er það líka grafalvarlegt mál að gefa út ákæru, sem byggir ekki á traustum grundvelli og leiðir ekki til sakfellingar. Grundvallarreglur réttarríkisins, að sérhver sé saklaus uns sekt hans er sönnuð, er þá jafnvel í reynd snúið upp í andhverfu sína. Fjölmiðlaumfjöllun í málum af þessu tagi er einatt á þann veg, að sérhver telst sekur, sem er ákærður, jafnvel þótt sakleysi sannist síðar fyrir dómi.

Það er góð regla að setja sig í annarra spor í viðkvæmum ágreiningsmálum. Sá sem á yfir höfði sér kæru af þessu tagi, án nokkurra tímatakmarkana og í fullkominni óvissu um niðurstöðu, lifir í stöðugum kvíða frá degi til dags, sem hamla starfsfriði og hugarró. Hann getur átt von á því á hverjum degi að vakna upp við fjölmiðlafár, sem gengur af mannorði hans dauðu, án þess að vörnum verði við komið. Viðkomandi er jafnvel í reynd sviptur rétti sínum til að neita borgaralegra réttinda, t.d. þátttöku í félagsskap annarra eða í opinberu lífi, af ótta við að draga aðra með sér í fallinu. Verst er þó hlutskipti fjölskyldu hins kærða, sem saklaus má þola það, að nagandi kvíði eyðileggi heimilislíf og hugarró fjölskyldunnar allrar“.

Óheiðarleg og vítaverð blaðamennska

Í siðareglum Blaðamannafélags Íslands segir:
3. grein: „Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu, svo sem kostur er, og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu“. (Leturbreyting JB).

4. grein: „Í frásögnum af dóms- og refsimálum skulu blaðamenn virða þá meginreglu laga, að hver maður er talinn saklaus, þar til sekt hans hefur verið sönnuð“.

Í ákæruskjali sínu í Nýju lífi þverbrýtur Þóra Tómasdóttir allar helstu grundvallarreglur, sem gilda um heiðarlega og vandaða blaðamennsku.

  • Í frásögn sinni af þessu „dóms- og refsimáli“ hafði Þóra einungis samráð við annan aðilann, kæruaðilann. Hún hafði ekkert samráð við hinn kærða – sakborninginn. Frásögn hennar var einhliða á forsendum kæruaðilans.
  • Hún hunsaði algerlega andmælarétt hins kærða, þótt beðið væri um, að hann yrði virtur.
  • Af frásögn Þóru má ráða, að hún hafði aðgang að öllum gögnum, frá báðum deiluaðilum, sem lögð voru fram við rannsókn málsins. Þrátt fyrir það nýtti hún sér einungis þau gögn, sem studdu fyrirframgefna niðurstöðu kærenda.
  • Þóra hafði aðgang að afsökunarbeiðni JBH, þar sem útskýrt er, að bréfaskriftir hófust að beiðni viðtakanda, og að áburði um kynferðislega áreitni við GH á barnsaldri er skilyrðislaust vísað á bug.
  • Hún hafði aðgang að bréfum Kolfinnu og Snæfríðar, dætra minna, sem voru viðstaddar tilgreind atvik, önnur hvor eða báðar, og votta, að þessar ásakanir eru fjarstæðukenndar og reyndar tilbúningur – eftir á. Þóra lætur þess hvergi getið.
  • Hún hafði aðgang að bréfi Bryndísar, konu minnar, sem vitnað er í hér að framan (frá árinu 2004), þar sem Guðrún er beðin um skýringar á því, hvers vegna hún kemur fram með þessar ásakanir, löngu eftir að tilfærð atvik áttu sér stað og þrátt fyrir að hún sóttist þráfaldlega eftir félagsskap okkar í mörg ár, eins og ekkert hefði í skorist. Gerir maður það, ef maður óttast einhvern eða hefur óbeit á honum?
  • Í ritstjórnargrein Nýs lífs vekur Þóra Tómasdóttir upp spurninguna: Eru allir jafnir fyrir lögum? Þar sakar hún sakborninginn (JBH) um að hafa misbeitt valdi sínu við að tefja framgang réttvísinnar í málinu. Þar með gerir hún sakborninginn ábyrgan fyrir því, að kærandinn sitji uppi með „rúið traust á íslensku réttarkerfi“. Sem fyrr segir, hafði Þóra Tómasdóttir aðgang að öllum málskjölum, sem fram voru lögð við rannsóknina. Þar er að finna mörg skjöl, sem sanna, að JBH og lögmaður hans gengu ítrekað og hart fram í því að gagnrýna seinagang kerfisins. Þeir kröfðust þess, með vísan til réttinda sakborningsins að afgreiðslu málsins yrði hraðað.
  • Reyndar lauk málinu ekki fyrr en JBH hafði gripið til sinna eigin ráða og útvegað saksóknaraembættinu þau gögn frá Washington og Venezuela, sem embættið kvaðst bíða eftir. Hér á eftir er birt skjal frá JBH til ríkissaksóknara, Boga Nilssonar, dags. 21. mars, 2007, þar sem vítaverð embættisfærsla ríkissaksóknara, lögreglu og ráðuneyta er gagnrýnd í níu liðum. Þar er sett fram krafa um réttláta málsmeðferð, sem kveður á um „fljótvirka eða hraða málsmeðferð – og að leyst sé úr málum innan hæfilegs tíma“. Sýnt er fram á, að óhæfilegur dráttur málsins sé einvörðungu stjórnvöldum að kenna.
  • Öllu þessu stingur Þóra Tómasdóttir undir stól af ásettu ráði. Hún snýr öllum staðreyndum málsins á haus og kórónar ósvífnina og óheiðarleikann með því að gera sakborninginn, sem fyrst og fremst galt þessarar embættisfærslu, að ábyrgðarmanni hennar. Þetta getur ekki flokkast undir vangá. Það liggur við, að þetta megi kalla skjalafals. Þóra er augljóslega einbeitt í þeim ásetningi sínum að skrumskæla sannleikann.
  • Í millifyrirsögn fullyrðir ritstjórinn, að JBH sé „brotlegur samkvæmt íslenskum lögum“. Hver sá, sem les rökstuðning ríkissaksóknara fyrir þeirri niðurstöðu að vísa málinu frá, veit, að ríkissaksóknari fullyrðir hvergi neitt slíkt. Ritstjórinn kýs að leggja honum orð í munn.
  • Í ritstjórnargrein lætur ritstjórinn eins og hann sé að leggja málið í dóm lesenda, þannig að „fólk geti sjálft tekið afstöðu til málsins“. Spyrja má, hvernig lesendur eigi að mynda sér fordómalausa skoðun á málinu, þegar ritstjórinn býður þeim upp á einhliða frásögn kærenda, virðir ekki andmælarétt hins ákærða, velur það eitt til birtingar úr gögnum málsins, sem henta fyrirfram gefinni niðurstöðu, stingur undir stól gögnum, sem sanna að hún fer með rangt mál og hunsar vottfestan framburð vitna, sem bera til baka meginákæruna um kynferðislega áreitni við barnunga stúlku?

Ég býð ekki í það, ef óhróður af þessu tagi, settur fram undir yfirskini hlutlægrar blaðamennsku, yrði látinn viðgangast fyrir dómi. Guð forði okkur frá því.