Fréttatilkynning

Þann 11. febrúar var Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands, sæmdur nafnbót heiðursdoktors við Vytautas Magnus háskólann í Vilnius, Litáen. Athöfnin fór fram í kirkju heilags Jóhannesar skírara í Vilnius.

Í ræðu rektors sagði m.a. að Jón Baldvin hefði orðið fyrir valinu vegna hugrekkis, sem fáum mönnum er gefið og birtist meðal annars í liðveislu hans við litáísku þjóðina á háskastundu, þegar flestir aðrir kusu að láta kyrrt liggja.

Meðal gesta voru Vitautas Landsbergis, forseti Sajudis og ýmsir nafnkunnir forystumenn sjálfstæðishreyfingar Litáa á árunum 1987-92. Auk þess sendiherrar ýmissa Evrópuríkja, þ.á.m. Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur og heiðurskonsúll Íslands í Vilníus. Meðal gesta voru Íslendingar búsettir í Vilníus og ýmsir nafnkunnir einstaklingar úr lista- og menningarlífi Litáa.

Daginn eftir flutti Jón Baldvin fyrirlestur í hátíðarsal Alþjóðamálastofnunar háskólans undir heitinu: „Samstaða smáþjóða: Hugsjón eða hagnýt pólitík?“ Auk þess tók Jón Baldvin þátt í hringborðsumræðum á vegum háskólans um reynslu Litáa að fengnu sjálfstæði, árangur, mistök og framtíðarvonir. Þessum hringborðsumræðum var síðar sjónvarpað.

Þakkarræðu Jóns Baldvins við athöfnina í kirkju Jóhannesar skírara má lesa á heimasíðu hans: www.jbh.is. Þar má einnig lesa fyrirlestra hans: „Solidarity of Small Nations: Utopian Dreams or Practical Politics?“ og „Transition from Totalitarianism to Democracy: What can We Learn from the Baltic Post-Independence Experience?“

Jón Baldvin ásamt nýkjörnum borgarstjóra Vilníus, R. Simasius – kallaður borgarstjórinn síbrosandi. Jón Baldvin heldur á skopmynd af sjálfum sér, sem listamaður dró upp á staðnum. Tilefnið var afhjúpun á nýju skilti á Íslandsstræti.

Fyrir altarinu í Kirkju Heilags Jóhannesar skírara, þar sem athöfnin fór fram. Frá vinstri: Tveir prófessorar, sem stýrðu athöfninni, síðan aðstoðarrektor háskólans. Hægra megin við hann Dr. Michael Shur, eðlisfræðingur og Jón Baldvin. Varaforseti Alþjóðamálastofnunar, Rektor háskólans og aðstoðarmaður. Athöfnin var með mjög hefðbundnu sniði, t.d. var alþjóðasöngur stúdenta, Gaudeamus …  sunginn á latínu, öll versin.

Hringborðsumræður í Hátíðarsal. Þátttakendur frá vinstri: Vilpisauskas, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar, Abisala, fv. forsætisráðherra, Landsbergis, fv. forseti Sajudis og Seimas, Jón Baldvin og Prófessor Girnius, sagnfræðingur.


Jón Baldvin og Vytautas Landsbergis, fornir fóstbræður.