ERINDISBRÉF HANDA JAFNAÐARMÖNNUM Á NÝRRI ÖLD

“Erindisbréf handa jafnaðarmönnum á nýrri öld” var lokaerindið í erindaflokki um sögu Alþýðuflokksins og framtíð jafnaðarstefnu, í tilefni af 100 ára afmæli Alþýðuflokks og Alþýðusambands. Erindið var flutt 1. okt. í Iðnó.

Kapitalisminn og óvinir hans.

KAPITALISMINN – með sinni forhertu skírskotun til eigingirni mannsins og gróðafíknar – verður seint kenndur við siðaboðskap kristninnar. Það er ekkert „sælla-er-að-gefa-en-þiggja“ á hans kokkabókum. Pólskur háðfugl, sem var að lýsa hlutskipti fólks í hinum hráslagalega kapitalisma, sem tók við þar í landi eftir fall kommúnismans – sjokk-þerapía var það kallað – en reyndist vera meira sjokk en þerapía, komst að þeirri niðurstöðu, að svo frumstæður kapítalismi gæti ekki þrifist í himnaríki. Reyndar ætti hann ekkert erindi í helvíti heldur, því að hann væri þar fyrir.

Það er leitun að manni, sem lýst hefur aðdáun sinni á frumkapítalisma iðnbyltingarinnar af jafnmikilli aðdáun og Karl Marx. Hann fékk ekki dulið hrifningu sína á þessari gróðakvörn, sem muldi mélinu smærra alla fyrirstöðu og hámaði í sig auðlindir jarðar á útþensluskeiði nýlendustefnunnar. Samt komst hann að þeirri niðurstöðu, að vegna innri mótsagna mundi kapítalisminn, að lokum, tortíma sjálfum sér. Æ tíðari offramleiðslukreppur fjölguðu sífellt í „varaher atvinnuleysingjanna“. Samþjöppun auðs á fáar hendur mitt í örbirgð fjöldans myndi að lokum framkalla byltingu. Öreigar allra landa sameinist!

Var ekki Oxfam að tilkynna um daginn, að 64 ofurríkustu einstaklingarnir réðu yfir meiri auði en helmingur mannkyns, ca. 3.6 milljarðar manna? Og fjöldaatvinnuleysi – allt að annar hver maður meðal ungs fólks í sumum löndum Evrópusambandsins – er orðið innbyggt í kerfið.

Byltingin kom að vísu, eins og Marx spáði – en þar sem hann átti hennar síst von: Í frumstæðu lénsveldi ánauðugra bænda á Volgubökkum, en ekki í hinum þróuðu iðnríkjum. Bylting Leníns og Stalíns endaði í gúlaginu og er nú husluð á öskuhaugum sögunnar. En hvers vegna rættist ekki spá Marx um byltingu öreiganna í iðnríkjum Vesturlanda? Það var vegna þess að við, seinni tíma lærisveinar Marx á Vesturlöndum, virkjuðum afl lýðræðisins í þágu fjöldans.

Fjöldahreyfingar vinnandi fólks, verkalýðshreyfingin og hinn pólitíski armur hennar, jafnaðarmannaflokkarnir, virkjuðu lýðræðið til að breyta þjóðfélaginu – beisla kapítalismann. Koma á hann böndum. Hafa hann undir eftirliti. Setja honum lög og reglur í þágu almannahagsmuna. Hvergi í heiminum hefur þetta tekist jafnvel og á Norðurlöndum, eins og ég vík að síðar.

Þetta er okkar erindisbréf, jafnaðarmanna; að hemja kapítalismann, en um leið að forða honum – og okkur – frá sjálfstortímingu.

Uppreisn nýfrjálshyggjunnar gegn velferðarríkinu.

Við jafnaðarmenn megum síst allra gleyma því, að nýfrjálshyggjutímabilið, sem nú er í andaslitrunum, byrjaði með uppreisn gegn velferðarríkinu á 8unda áratug síðustu aldar – með því að vekja upp aftur trúna á óskeikulleik markaða og skaðsemi ríkisafskipta. Þeir skilgreindu okkur sem óvininn. Vandi okkar er að verulegu leyti sá, að okkur hefur láðst að gjalda líku líkt.

Hugtakið nýfrjálshyggja er reyndar afar villandi orðanotkun, nánast orwellskt öfugmæli. Þetta fyrirbæri er nefnilega hvorki nýtt né á það nokkuð skylt við frelsisbaráttu fjöldans. Þvert á móti. Þetta er uppvakningur úreltra laissez-faire hagfræðikenninga aftan úr 19du öld. Kjarni þeirra er bernsk trú á óskeikulleik markaða og eðlislæga getu þeirra til að leiðrétta sjálfa sig. Báðar þessar trúarsetningar hafa reynst rangar. Kerfisbrestur óbeislaðs kapítalisma í kreppunni miklu milli 1930 og 1940 á seinustu öld staðfesti skipbrot þessarar hugmyndafræði þá þegar. Sagan endurtók sig 2008 með Hruninu. Og allt er þegar þrennt er: Vegna þess að kerfið var, þrátt fyrir Hrunið, endurreist skv. sama módeli, teljast meiri líkur en minni vera á því, að kerfið hrynji yfir okkur einu sinni enn.

Það tók heilan áratug með íhlutun ríkisins – „New-Deal“ í Bandaríkjunum og Norræna módelið í Skandinavíu – og reyndar heila heimsstyrjöld, sem kostaði 50 milljónir mannslífa, að blása lífsanda í nasir skepnunni á ný og koma á hana böndum. Aldarfjórðungurinn eftir seinna stríð reyndist vera gullöld hins sósíal-demókratíska velferðarríkis. Árangur þess er óumdeilanlegur. Þetta var tímabil öflugs hagvaxtar (miklu meiri en á s.l. 3 áratugum nýfrjálshyggjunnar); Það einkenndist af vaxandi jöfnuði lífsgæðanna (öfugt við hraðvaxandi ójöfnuð á tímabili nýfrjálshyggjunnar). Þetta var framfaratímabil, sem var laust við kreppur (ólíkt tímabili nýfrjálshyggjunnar).

Árangurinn byggðist ekki síst á því, að sjálfum forsendum nýfrjálshyggjunnar um alræði markaða og böl ríkisafskipta, var hafnað. Þess í stað viðurkenndu menn mikilvægt hlutverk lýðræðislegs ríkisvalds til að setja mörkuðum skýrar leikreglur; og til að fyrirbyggja eðlislægar tilhneigingar óbeislaðs markaðskerfis til óviðundandi misskiptingar auðs og tekna.

Gjaldþrot Lehman´s Brothers í september 2008 táknar endalok þessarar endurteknu nýfrjálshyggju-tilraunar. Enn á ný endaði þessi tilraun með óbeislaðan kapítalisma í Hruni. Það sem við tók var stærsti björgunarleiðangur ríkisins í sögunni til að forða okkur frá nýrri heimskreppu. Þessi reynsla hefur afhjúpað ný-frjálshyggjuna endanlega. Þetta eru gervivísindi í þjónustu hinna ofurríku. Það er margt líkt með ný-frjálshyggjumönnum og kommúnistum fyrri tíðar. Báðir trúa á „Stóra sannleik“.

Nýfrjálshyggjan er í reynd í fullkominni andstöðu við frelsishugsjónina. Auðvald hinna fáu þýðir helsi hinna mörgu. Og að svo miklu leyti, sem þetta er hugmyndafræði í þjónustu hinna ofurríku og hafnar hlutverki lýðræðislegs ríkisvalds, er kenningin andlýðræðisleg. Hún á fátt sameiginlegt með frjálslyndisstefnu (liberalism) 19du aldar, sem studdi lýðræðislegar umbótahreyfingar fyrir atbeina lýðræðislegs ríkisvalds, í nafni mannúðartefnu.

Sjúkt fjármálakerfi – undirrót ójafnaðar.

Auðsöfnun í höndum fárra fylgir gríðarlegt pólitískt vald. Þetta forréttindavald hinna fáu er þegar orðið ógnun við lýðræðið. Hinir ofurríku öðlast vald til að breyta helstu leikreglum samfélagsins sér í hag. Lýðræðið verður þá fórnarlamb auðræðis. Markaðir lúta ekki neinum náttúrulögmálum. Markaðir eru gerðir af manna höndum. Þeir geta verið góðir til síns brúks, ef þeir lúta lögum og reglum í þágu almannahagsmuna. Það ræðst allt af pólitík. Ef þessar reglur eru hannaðar í þágu hinna ofurríku, eins og t.d. er þegar orðinn hlutur í Bandaríkjunum (og um of innan Evrópusambandsins), er það ekki einungis ógnun við lýðræðið, heldur líka grundvallarreglur réttarríkisins. Við erum ekki lengur jöfn fyrir lögunum. Tökum nokkur dæmi:

Sjúkt fjármálakerfi: Á tímabili frjálshyggjunnar upp úr 1980 hefur fjármálakerfið vaxið raunhagkerfinu gersamlega yfir höfuð. Sívaxandi hluti hagnaðar hinna ofurríku á uppruna sinn í kauphallar- og fasteignabraski, sem hvort tveggja stjórnast af skammtíma gróðavon, fremur en af langtíma fjárfestingum í framleiðsluferlum, sem skapa atvinnu. Örfáir alþjóðlegir risabankar eru markaðsráðandi, svo stórir, að þeir teljast geta dregið hagkerfi heimsins með sér í fallinu, ef á reynir.

Eldvarnarveggurinn milli venjulegra viðskiptabanka, sem þjóna atvinnulífi og samfélagi, og áhættusækinna „skuggabanka“, sem hafa fitnað eins og púki á fjósbita, var reistur að fenginni reynslu í Kreppunni miklu, þegar þúsundir banka hrundu. Þessi varnarveggur var rifinn niður fyrir seinustu aldamót. Þar með varð fjandinn laus. Innistæðutryggingar með stuðningi ríkisins, sem eru nauðsynlegar til að tryggja venjulegan sparnað, voru látnar ná yfir glæfralega áhættusamt fjármálabrask.

Þar með er siðferðileg bjögun („moral hazard“), að taka blinda áhættu með annarra fé, í von um ofsagróða – en í trausti þess, að aðrir beri skaðann, ef illa fer, orðin kerfislæg. Þetta er örhvikt áhættufjármagn, sem leitar um allan hnöttinn að skammtímagróða, en fælist og flýr við fyrstu viðvörunarmerki um vandræði. Þegar það flýr, skilur það eftir sig sviðna jörð.

Afleiðingarnar lýsa sér í hrundum gjaldmiðlum, gjaldþrotum banka og ofurskuldsettum ríkjum. Aðeins íhlutun ríkisstjórna, seðlabanka og alþjóðastofnana, hafa hvað eftir annað komið í veg fyrir hrun fjölda ríkja á tímabili nýfrjálshyggjunnar. Það er orðin regla fremur en undantekning, að ríki (skattgreiðendur) verði að koma fjármálastofnunum til bjargar.

Frelsi án ábyrgðar: Ein af kenningum frjálshyggjunnar er sú, að forstjórum fyrirtækja beri aðeins skylda til að hámarka verð hlutabréfa og ársfjórðungslegan hagnað hluthafa. Engu skiptir, þótt hlutafé gangi kaupum og sölum frá degi til dags og eigendahópurinn sé þar með síbreytilegur. Í krafti þessarar kenningar eru forstjórar sagðir þurfa innbyggða hvata til að hámarka gróða. Þetta á að réttlæta forstjóralaun með kaupaukum, sem orðin eru mörghundruðföld á við meðallaun starfsmanna fyrirtækjanna. Engu breytir þótt þessir sömu forstjórar keyri fyrir tækin í þrot – þeir hirða samt umbunina. Kostuleg „árangursstjórnun“ það, eða hitt þó heldur.
Þarna er að finna hluta skýringarinnar á því, hvers vegna tekjur og eignir safnast sífellt á æ færri hendur, á sama tíma og raunlaun standa í stað. Þetta skýrir líka, hvers vegna langtímafjárfestingar eru vanræktar; hvers vegna það dregur úr sköpun nýrra starfa, langtímaatvinnuleysi festir sig í sessi, starfsöryggi launþega fer þverrandi, og stöðugt er gengið á félagsleg réttindi þeirra.

Í þessari gróðamyndunarmaskínu eru innbyggðir hvatar til að stunda markaðsmisnotkun, innherjaviðskipti, bókhaldshagræðingu og aðra fjármálaglæpi. Hin siðferðilega bjögun er innbyggð í kerfið. Kerfið er fársjúkt.

Ísland er gott dæmi um þetta: Ný-einkavæddir bankar hlóðu upp skuldum í erlendum gjaldmiðlum, sem námu meira en tífaldri þjóðarframleiðslu okkar, áður en skuldafjallið hrundi. Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu, að margir af eigendum/stjórnendum bankanna hefðu gert sig seka um glæpsamlega hegðun skv. mottóinu: „Besta leiðin til að ræna banka er að eiga banka“. Nefndin komst líka að þeirri niðurstöðu, að stjórnmálaforystan og eftirlitsstofnanir væru uppvís að vanrækslu og hefðu brugðist skyldum sínum. Alþingi reyndist ófært um að bregðast við þessum niðurstöðum með ábyrgum hætti, hvað þá heldur að fylgja þeim eftir með stjórnkerfisumbótum. Þar með brast traustið. Niðurstaðan af frjálshyggjuævintýrinu í hverju landinu á fætur öðru, er víðast hvar sú sama: Öllu er snúið á haus: Hagnaðurinn er einkavæddur, en skuldirnar eru þjóðnýttar. Hvað segir þetta okkur um jafnræði frammi fyrir lögunum og stöðu réttarríkisins?

Skattaskjólin: Frumskylda lýðræðislegra stjórnvalda er að tryggja jafnræði allra frammi fyrir lögunum. Hvernig má það vera, að lýðræðislegar ríkisstjórnir, fulltrúar almannavaldsins, láta bjóða sér, að eigendur fjármagnsins, hinir ofurríku (þetta eina prósent, sem á eða ræður meirihluta jarðneskra gæða), taki lögin í eigin hendur og undanskilji tekjur sínar og eignir frá skattlagningu í almannaþágu?

Sívaxandi ójöfnuður: Þetta fársjúka og stjórnlausa fjármálakerfi, sem hefur þanist út á tímabili nýfrjálshyggjunnar, hefur leitt af sér sívaxandi ójöfnuð auðs og tekna. Þessi ójöfnuður er nú orðinn meiri en hann var, áður en áhrifa velferðarríkis jafnaðarmanna fór að gæta eftir seinna stríð.

Eitt prósent hinna ofurríku eiga nú meiri en auð en 99% mannkyns. Í Bandaríkjunum á 1/tíundi af einu prósenti jafnmikinn auð og 90% Bandaríkjamanna til samans. Meira en helmingur allra fjármagnstekna (arður, vextir, leiga, o.s.fr.) rennur til innan við 1% mannkyns. 58% nýrra tekna eftir hrun í Bandaríkjunum renna til 1% hinna ofurríku.

Hlutur launa í þjóðartekjum heimsins í samanburði við arð af fármagni hefur lækkað svo nemur risavöxnum upphæðum. Ein skýringin er sú, að verkalýðshreyfingin er víðast hvar á undanhaldi. Þessar þróunartilhneigingar eru innbyrðis tengdar. Sóknin eftir skammtímagróða gegnum kauphallar- eða fasteignabrask þýðir minni langtímafjárfestingu í innviðum þjóðfélagsins og í raunhagkerfinu og þ.a.l. vel borgandi störf og meira atvinnuleysi. Gefum Bernie Sanders orðið:

„The global economy is not working for the majority of the people in our country and the world. This is an economic model developed by the economic elite to benefit the economic elite. We need real change.“

Norræna módelið

Það sem greinir noræna módelið frá öðrum, tók á sig mynd í hinum harðvítugu þjóðfélagsátökum í heimskreppunni á millistríðsárunum á seinustu öld. Í Vestri blasti við kerfisbrestur hins óbeislaða kapitalisma í Bandaríkjunum, sem gat af sér heimskreppuna. Í Austri fylgdumst við með tilrauninni með Sovét-kommúnismann (afnám einkaeignaréttar og þjóðnýting á framleiðslutækjunum). Miðstýrður áætlunarbúskapur, sem umhverfðist pólitískt í lögregluríki, þar sem lýðræðinu og réttarríkinu var rutt úr vegi. Tilraunin endaði í gúlagi Stalíns.

Norrænar sósíal-demókratar höfnuðu báðum þessum kostum. Þeir fóru „þriðju leiðina“. Við viðurkenndum nytsemi samkeppni á markaði, þar sem hún átti við, fyrir hagkvæma nýtingu framleiðsluþátta og auðsköpun. En við lögðum markaðinn undir stjórn og eftirlit ríkisins, til þess að koma í veg fyrir markaðsbrest (einokun, fákeppni og samþjöppun auðs), til að gæta almannahagsmuna. Þegar kom að menntun, heilsugæslu og grunnþjónustu (orka, vatn, almannaþjónusta o.s.fr.), höfnuðum við gróðasjónarmiði einkareksturs og buðum í staðinn upp á almannaþjónustu á forræði ríkis og sveitarfélaga. Við nýttum lýðræðislega fengið vald ríkisins sem tæki til að halda sérhagsmunum í skefjum og til að tryggja meiri jöfnuð í eigna- og tekjuskiptingu en markaðurinn hefði ella leitt til.

Í óbeisluðu markaðaskerfi er vald eigenda framleiðslutækja og fjármagns gríðarlegt. Atvinnurekendavaldinu fylgir mikið pólitískt vald. Fjármagnseigendur eru bakhjarlar hægri flokka, sem þeir gera út til að gæta hagsmuna sinna. Ef þeir ná hinu pólitíska valdi undir sig líka, býður það hættunni heim á forræði sérhagsmuna („crony capitalism“). Það sem einkennir noræna módelið er, að hægri flokkar (hagsmunagæsluaðilar sérhagsmuna) hafa lengst af verið þar í minnihluta; og að hinn pólitíski armur verkalýðshreyfingarinnar – jafnaðarmannaflokkarnir – hefur verið í meirihluta áratugum saman.

Almannahagsmunir hafa þvi verið ráðandi. Þetta hefur hvergi gerst annars staðar. Þótt bandalag hægri flokka hafi einstaka sinnum komist til valda, hafa þeir ekki notið stuðnings við að limlesta velferðarríkið. Jafnaðarstefnan – sósíal-demókratí – hefur verið ráðandi hugmyndafræði í þessum þjóðfélögum. Þetta á þó ekki við um Ísland, eins og Þröstur Ólafsson gerði rækilega grein fyrir í sínu frábæra erindi.

Tækin sem við notum eru núorðið kunnugleg: Almannatryggingar (sjúkra-, slysa-, örorku-, elli-, og atvinnuleysistryggingar), frjáls aðgangur að hágæða heilsugæslu og menntakerfi, sem greitt er fyrir með stighækkandi sköttum; virk vinnumarkaðsstefna til að uppræta atvinnuleysi; aðgangur að húsnæði á viðráðanlegum kjörum fyrir alla. Mikil áhersla er lögð á jafnrétti kynja og stuðning við barnafjölskyldur. Öll eru þessi réttindi flokkuð sem mannréttindi – en ekki ölmusur handa þurfalingum.

Afleiðingin er þjóðfélag, þar sem jöfnuður í eigna- og tekjuskiptingu er meiri en annars staðar á byggðu bóli. Frelsi einstaklingsins nýtur virks stuðnings í reynd. Félagslegur hreyfanleiki – getan til að vinna sig frá fátækt til bjargálna – er meiri en annars staðar. Bandaríkin voru einu sinni kölluð land tækifæranna. Ekki lengur. Þar ríkir nú harðsvíraðri stéttaskipting en jafnvel í gömlu Evrópu. Norræna módelið er á okkar dögum í fremstu röð sem land tækifæranna.

Norræna módelið er eina þjóðfélagsmódelið, sem mótað var á öldinni sem leið, sem staðist hefur dóm reynslunnar á tímum hnattvæddrar samkeppni á 21stu öldinni. Kommúnisminn er huslaður á öskuhaugum sögunnar. Óbeislaður kapítalismi skv. forskrift nýfrjálfshyggjunnar, hrekst úr einni kreppunni í aðra, en tórir enn í gjörgæslu ríkisins.

Eins og fyrr var sagt, byrjaði nýfrjálshyggjan sem uppreisn gegn velferðarríkinu. Samkvæmt kenningum nýfrjálshyggjunnar á velferðarríkið, með sínum háu sköttum og öfluga ríkisvaldi, að vera ósamkeppnishæft. Það dæmist því til að dragast aftur úr í alþjóðlegri samkeppni vegna hárra skatta og lamandi íhlutunar ríkisvaldsins, sem spillir hagkvæmni markaðslausna. Kerfið er sagt eyða öllum hvötum til sjálfsbjargarviðleitni. Í staðinn fyrir hugarfar frumkvöðulsins verði hugarfar þiggjandans allsráðandi. Það vanti allan sköpunarkraft – „dínamik“ – í kerfið. Það hljóti að enda í stöðnun. Og að möppudýr kerfisins muni að lokum kæfa frelsi einstaklingsins og enda í alræðisríki (Hayek: The Road to Serfdom).

Gallinn við þessa dómadagsspá, að sá, að reynslan hefur einfaldlega afsannað hana. Það er ekkert hæft í þessu. Sovétríkin eru ekki lengur til. Óbeislaður kapítalismi hrekst úr einni tilvistarkreppunni í aðra. En norræna módelið hefur staðist dóm reynslunnar betur en báðir þessir trúboðar Stóra sannleiks. Staðreyndirnar tala sínu máli. Óteljandi skýrslur um frammistöðu þjóðríkja í harðri samkeppni á öld alþjóðavæðingar tala sínu máli. Það er sama hvaða mælikvarða við notum: Norrænu ríkin eru óbrigðult í fremstu röð.

Þetta á ekki síður við um hagræna mælikvarða en aðra: Hagvöxt, framleiðni pr vinnustund, rannsóknir og þróun, tækninýjungar og útbreiðslu þeirra, sköpun starfa, þátttöku á vinnumarkaði (sérstaklega þátttöku kvenna), jafnræði kynjanna, menntunarstig og starfsþjálfun, félagslegan hreyfanleika, heilbrigði og langlífi, gæði innviða, útrýmingu fátæktar, aðgang að óspilltri náttúru, almenn lífsgæði. Og miklu minni ójöfnuð en víðast hvar annars staðar. Rótgróið og vakandi lýðræði. Hvar er fyrirhafnarminnst að stofna fyrirtæki? Í Bandaríkjunum? Nei, þau eru nr. 38 á þeim lista. Danmörk er nr. eitt! Hvað viltu meir?

Kratar í kreppu: Fórnarlömb eigin árangurs?

Hvernig má þá vera, í ljósi þessa árangurs, að jafnaðarmannaflokkarnir í Evrópu – m.a.s. líka á Norðurlöndum – eiga víðast hvar í vök að verjast? Er það vegna þess að velmegun velferðarríkisins „dregur eðlilega úr löngun okkar til að hugsa til breytinga á samfélaginu“, eins og Þröstur Ólafsson sagði í sínu erindi. Hann taldi það skýra, að „pólitísk tómhyggja“ réði ríkjum. „Við erum… hætt að trúa því, að til sé hagskipan, sem virki betur en kapítalismi, bragðbættur með nýfrjálshyggju“, sagði Þröstur.

Þarna er ég ósammála Þresti. Norræna módelið er svar okkar við nýfrjálshyggjunni – og það svínvirkar. Hitt er nær lagi, að við séum fórnarlömb eigin árangurs í þeim skilningi, að ef stéttarríkið sem slíkt tilheyrir nú liðinni tíð, ekki síst fyrir okkar atbeina, „hvaða meining er þá í því að berjast fyrir samfélagi án stéttamismunar?“ , eins Þröstur spyr. Svo er vofa kommúnismans ekki lengur ofar moldu til a brýna okkur kratana til dáða. Má ekki í vissum skilningi segja, að við höfum þar með „misst glæpinn“?

En ætli Þröstur hafi ekki hitt naglann á höfuðið, þegar hann talaði um mannréttindahreyfinguna í hundrað ár, sem hefur nú týnt draumnum – útópíunni – hugsjóninni um framtíðarlandið, sem á að leysa af hólmi óbreytt ástand og hvetja fólk til baráttu fyrir bættum heimi – breyttu þjóðfélagi? Þetta er nú einu sinni hreyfing, sem eitt sinn „ hafði framtíðina að léni og mótaði samtíma sinn í spegilmynd hennar“, eins og Þröstur sagði með svo skáldlegum tilþrifum.

Höfum við virkilega týnt erindisbréfinu? Þöstur segir: „Hér verður „misskipting, hvort heldur sem er tækifæra, auðs eða tekna, sífellt augljósari, alþjóðlega sem og hérlendis. Hér eflast eignastéttir og láta æ meira til sín taka, meðan fátækt er aftur orðin smánarblettur á Íslandi. Með aukinni misskiptingu rýrnar einnig lýðræðið. Enginn jafnaðarmannaflokkur hefur komið með marktækt andsvar við þessu. Því skrikar þeim fótum. Tiltrúin sveipast þoku“.

Fórnarlömb eigin árangurs? Eða höfum við gleymt uppruna okkar? Fjöldinn allur af afkomendum verkafólks, sem verkalýðshreyfingin og flokkar jafnaðarmanna ruddu brautina fyrir, hafa klifið menntaveginn og tilheyra nú millistétt. Eigið húsnæði, einstaklingsbundnir starfssamningar, fjölgun sérfræðinga af öllu tagi í þjónustugeirum samfélagsins – allt ýtir þetta undir einhvers konar einstaklingshyggju. Það dregur úr stéttarvitund og félagslegri samstöðu. „Það er ekkert til, sem heitir þjóðfélag – bara einstaklingar“, sagði járnfrúin Maggie Thatcher.

Einhvern tíma var sagt: „Forðaðu mér frá vinum mínum – sjálfur get ég séð um óvini mína“. Hafa ekki demókratar í Bandaríkjunum vingast um of við auðjöfrana á Wall Street? Það fullyrðir Bernie Sanders. Hafa ekki Blairistarnir vingast um of við braskarana í The City of London? Það segja þeir, sem tóku við verkamannaflokknum af þeim. Höfum við kannski brugðist í því að sjá sjálfir við óvinum okkar?

Frjálshyggjutrúboðið byrjaði eins og við vitum sem uppreisn gegn velferðarríkinu. Velferðarríkið er holdgerving okkar eigin hugmyndafræði. Pólitískt erindisbréf okkar hljóðar upp á að verja hagsmuni vinnandi fólks gegn fjármagnseigendum; að verja almannahagsmuni gegn rótgrónum sérhagsmunum; að verja mannréttindi verkafólks gegn ráðningarvaldi atvinnurekenda. Okkar verkefni er að beita lögmætu valdi lýðræðislegs ríkisvalds gegn sjálfteknu valdi auðræðisins. Þetta er okkar hlutverk. Um þetta snýst okkar pólitíska erindisbréf.

Sjálft norræna módelið á rætur að rekja til þess, að við brugðumst við kerfisbresti hins óhefta kapítalisma með því að koma böndum á skepnuna; með því að beisla græðgi spilavítiskapitalisma, sem lét ekki lengur að stjórn. Nú hefur nýfrjálshyggjan skorið á böndin og hleypt græðgisskepnunni á varnarlausan almenning enn á ný. Og við létum þetta líðast. Sváfum á verðinum. Sjálfir fórnarlömb eigin árangurs?

Í kapítalísku markaðshagkerfi hefur verið óskráður en viðurkenndur þjóðfélagssáttmáli, sem verður að halda í heiðri, ef við eigum að gera okkur vonir um að viðhalda félagslegri samheldni og trausti almennings á stofnunum þjóðfélagsins. Ein grundvallarreglan er þessi: Þú ert frjáls að því að keppa eftir hámarksarði og uppskera ríkulegan ávinning, svo lengi sem þú tekur áhættu með eigið fé og spilar samkvæmt settum leikreglum. Svo lengi sem þú samþykkir, að þú berir tapið sjálfur, ef illa fer. Hagnaður og tap eru tvær hliðar á sömu mynt. Og svo lengi sem þú greiðir skatta og skyldur til samfélagsins, sem gerði þig ríkan. Ljáum eyra Warren Buffet, sem er einn af ríkustu mönnum heims, og sagði um stöðu sína sem margmilljarðamærings: „Hvað ætli hefði orðið úr mér, hefði ég verið fæddur í Bangladesh?“

Það er á grundvelli þessa óskráða þjóðfélagssáttmála, sem flestir samþykkja ójöfnuð upp að vissu marki, sem réttmæta umbun fyrir frumkvæði, dugnað, sköpunarkraft – og vilja til að taka áhættu. En ef þessum grundvallarreglum er öllum snúið á haus; ef ofurarður bóluhagkerfisins er allur einkavæddur (og jafnvel skattsvikinn) en tapið í niðursveiflunni er þjóðnýtt – þá er þessi óskráði þjóðfélagssáttmáli þar með rofinn. Þá erum við ekki bara að fást við afleiðingar fjármálakreppu. Fjármálakreppan er þá að grafa undan burðarstoðum hins kapítalíska markaðskerfis sjálfs. Þá erum við stödd í miðri þjóðfélagskreppu.

Þegar hinir ofurríku – þetta svokallaða 1% – bíta höfuðið af skömminni með því að fela uppsafnaðan auð sinn í svokölluðu skattaparadísum, til þess að forðast að leggja sitt af mörkum til samfélagsins, þá hafa þeir tekið lögin í eigin hendur – sagt sig úr lögum við samfélagið. Hinn skattskyldi hluti einn og sér af þeim auði, sem falinn hefur verið í skattaskjólum, utan við lög og rétt, mundi duga til að leysa skuldakreppuna, sem nú hrjáir þjóðríkin eftir hrunið 2008.

Lítill hluti þessara földu fjársjóða hinna fáu mundi duga til að endurreisa velferðarríkin, sem sum eru að hruni komin. Veruleikinn er hins vegar sá, að skattgreiðendur í þeim löndum, sem harðast hafa orðið úti í fjármálakreppunni, eru nú neyddir til að greiða hærri skatta og þola harkalegan niðurskurð á samfélagslegri þjónustu (í heilbrigðis- og menntamálum) – í því skyni að bjarga fjármálakerfi hinna ofurríku. Þetta er harkalegasta ógnin við lýðræðislegt stjórnarfar, allt frá því að fasistar náðu völdum í Evrópu á millistríðsárunum.

Það var getuleysi lýðræðislegra ríkisstjórna til að fást við afleiðingar heimskreppunnar milli 1930-40, sem skapaði frjóan jarðveg fyrir fasismann, sem síðan leiddi af sér seinni heimsstyrjöldina. Þekkjum við ekki sjúkdómseinkennin? Erum við dæmd til að endurtaka öll þessi mistök enn og aftur? Hvenær ætlum við að læra af reynslunni?

Evrópusambandið í gíslingu nýfrjálshyggjunnar

Evrópuhugsjónin snerist frá upphafi um að varðveita frið á hinu stríðshrjáða meginlandi – að koma í veg fyrir stríð. Stofnun og stækkun Evrópusambandsins er það besta, sem gerst hefur í Evrópu eftir seinni heimsstyrjöld. Aðferðafræðin snýst um að gera ríki Evrópu svo háð hvert öðru, að freistingin að leysa ágreiningsmál milli ríkja með valdi væri óhugsandi. Árangurinn er ótvíræður. Friður og framfarir í 70 ár.

En fjármálakreppan hefur leikið Evrópusambandið grátt. Kreppan er svo djúpstæð, að ýkjulaust má tala um tilvistarkreppu. Brexit er áþreifanleg sönnun þess, sem áður þótti óhugsandi: að sjálft Evrópusambandið leystist aftur upp í frumeindir sínar. Hvað er að? Seinustu misserin eru bókahillurnar farnar að svigna undan bókum, sem greina Evrópukreppuna, orsakir hennar og afleiðingar, og hina efnahagslegu uppdráttarsýki (austerity), sem er bein afleiðing hennar. Meðal þeirra vönduðustu er þessi: „The Euro: How a Common Currency Threatens the Future of Europe“, eftir Nobels-verðlaunahagfræðinginn, Joseph Stiglitz. Heyrum, hvað hann hefur að segja:

„Evrusamstarfið hófst fyrir sautján árum undir þeim formerkjum að styrkja samhygð og samstarf meðal þjóða Evrópu; tilgangurinn var að yfirstíga landamæri og fóstra samstarfsanda meðal þjóða, sem áður höfðu borist á banaspjót. Reynslan er þveröfug á við það, sem ætlað var. Evrusamstarfið hefur endurvakið árekstra, skapað ný umkvörtunarefni, ýtt undir vantraust og gagnkvæma óvild. Evrusamstarfið, í óbreyttu formi, er hreint út sagt hörmuleg mistök. Það hefur kynt undir vaxandi ójöfnuði og klofið Evrópu í tvær fjandsamlegar fylkingar: lánadrottna og skuldunauta“. Stiglitz kemst að eftirfarandi niðurstöðu:

„Fjármálakerfið hefur makað krókinn út á lánstraust ríkisstjórna og niðurgreiðslur skattgreiðenda, án þess að gegna þeim samfélagslegu skyldum, sem hefðbundnum bönkum er ætlað að sinna. Þetta ofvaxna fjármálakerfi hefur reynst vera ein helsta undirrót ójafnaðar í Evrópu, sem og heiminum öllum.“

Meginrökin eru þessi: Hagkerfi hafa einkum þrenns konar tæki til að laga sig að ytri áföllum eða innra ójafnvægi: Vaxtastig, gengisskráningu og ríkisfjármálaaðgerðir: að hækka eða lækka skatta eða ríkisútgjöld í því skyni að halda aftur af eða örva hagvöxt. Evrusvæðið hefur ekkert af þessum ómissandi stillitækjum eða höggdeyfum á sínu valdi. Og það sem verra er: Evrópski seðlabankinn (ECB) hefur ekki einu sinni umboð til að vera lánveitandi aðildaríkja til þrautavara, ef í nauðir rekur. Þar að auki setur Maastricht-sáttmálinn aðildarríkjum, sem lenda á samdráttarskeiði, svo harða kosti í ríkisfjármálum, að ríkisstjórnir eru sviptar öllum tækjum til að reka hagvaxtarpólitík til að draga úr atvinnuleysi.Þessar þjóðir eru læstar í spennitreyju samdráttar og skuldaþjökunar.

Í stað þess að lagfæra augljósa hönnunargalla peningamálasamstarfsins hafa leiðtogar Evrópu gert illt verra með því að þröngva ríkisstjórnum skuldugu þjóðanna til að reka skattahækkunar/niðurskurðar-polítík, sem leiðir til meiri samdráttar og hærri skuldabyrði. Allt er þetta gert, samkvæmt Stiglitz, í nafni „löngu úreltrar hagfræðikreddu, sem boðar, að ef ríkisstjórnir einbeiti sér að ná fram jöfnuði í ríkisfjármálum og lágri verðbólgu, megi treysta því, að markaðirnir skili hagvexti“. Hoover reyndi þetta eftir hrunið í Bandaríkjunum eftir 1929. Það endaði í heimskreppu, sem stóð í áratug. Þetta er nýfrjálshyggjukredda, sem á sér enga stoð í veruleikanum.

Hvort sem við erum sammála greiningu Stiglitz eða ekki, tala staðreyndirnar sínu máli: Átta árum eftir hrun fjármálakerfisins er Evrópa enn á samdráttarskeiði. Senn er að baki glataður áratugur. Hagstjórnin er víðs fjarri því að hafa skilað tilætluðum árangri. Þvert á forspá er hlutfall skulda af þjóðarframleiðslu miklu hærra en fyrir hrun. Í mörgum tilfellum eru þessar skuldir ósjálfbærar. Þjóðarframleiðsla þeirra landa, sem harðast hafa verið leikin, hefur ekki náð raungildi þjóðarframleiðslu fyrir kreppu. Þegar allt er lagt saman, má meta tapaða þjóðarframleiðslu á 200 trilljónir evra og töpuð störf í tugum milljóna. Langtímatjón þessarar stefnu er ómetanlegt. Atvinnuleysið, sérstaklega meðal æskufólks, er innbyggt í kerfið. Þessi sólund á mannauði er óbætanleg.

Ójöfnuðurinn fer hraðvaxandi. Hinir ríku verða ríkari, og hinir fátæku fátækari. Það er sótt að millistéttinni á tvennum vígstöðum. Miðjan er við það að halda ekki lengur. Grundvallarreglur hins óskráða þjóðfélagssáttmála lýðræðislegs markaðsþjóðfélags eru ekki haldnar: Gróðinn er einkavæddur, en skuldirnar þjóðnýttar. Í pólitíkinni er djúp undiralda vonbrigða og vantrausts gagnvart pólitískri forystu, sem virðist getu- og úrræðalaus til að fást við efnahagsleg og félagsleg vandamál af þessari stærðargráðu. Brexit er bara viðvörun. Ef ekki verður gripið til róttækra umbótaaðgerða í tæka tíð, getur samheldni Evrópusambandsins sjálfs – og ekki síst peningamálasamstarfsins – verið í hættu.

Undirrót allra þessara vandræða er sjúkt og ósjálfbært fjármálakerfi, sem er sjálft farvegur fyrir tilfærslu auðs og tekna frá framleiðslugeirum þjóðfélagsins til fjármálakerfisins: Frá 99% til 1%. Hlutur launa í þjóðarframleiðslu heimsins hefur minnkað um hundruð milljarða evra á ári á undanförnum árum; á sama tíma hefur hlutur fjármagnsins aukist samsvarandi.

Þetta fjármálakerfi þjónar hvorki langtímahagsmunum samfélagsins né atvinnulífsins. Smá- og meðalstór fyrirtæki skapa 67% nýrra starfa innan Evrópusamstarfsins, en fá í sinn hlut bara brotabrot af útlánum banka. Eftirsókn fjármálastofnana eftir skammtímagróða beinir lánsfjármagninu fyrst og fremst að kauphallarbraski og fasteignaviðskiptum, sem hækkar nafnverð þeirra eigna, sem fyrir eru – og búa til fasteigna- og skuldabólur í leiðinni.

Það er vegna þessa sem ójöfnuðurinn fer svo vaxandi. Það er vegna þessa sem atvinnulaeysið lætur ekki undan síga. Það er vegna þessa sem fátæktin mitt í allsnægtunum fer vaxandi. Það er vegna þessa sem félagsleg samheldni fer þverrandi, en reiði og vantraust fórnarlamba kerfisins fer vaxandi. Svo lengi sem leiðtogar Evrópu bjóða ekki fram neinar sannfærandi lausnir, munu tilfinningar meðal almennings, sem lýsa vonbrigðum, reiði og vantrausti, fara vaxandi. Sjálft lýðræðið er í umsátri fjármálaelitunnar.

Haldi menn, að þessi greining lýsi hættulega róttækum hugmyndum, ættu menn að hlusta á, hvað Merwin King, fyrrverandi seðlabankastjóri Englandsbanka, hafði að segja um efnið í yfirheyrslum frammi fyrir þingnefnd í The House of Commons. Hann sagði: „Of all the the potential ways of organizing an effective financial system to serve our society the one we have is the worst imaginable“ – Hann ætti að vita það.

Vonandi hef ég sagt nóg til að sýna fram á nauðsyn róttækra umbóta. Það dugar ekki lengur að hjakka áfram í sama farinu með viðbragðapólitík – of lítið og of seint. Sem betur fer skortir ekki vandaða greiningu og vel rökstuddar tillögur um umbætur. Markmiðið er að endurskipuleggja fjármálakerfið fyrir 21stu öldina, sem þjónar samfélagi og atvinnulífi fremur en fyrst og fremst sérhagsmunum fjármálaelítunnar.

Án róttækra umbóta mun Evrópusambandið reynast ófært um að gegna jákvæðu hlutverki í alþjóðakerfinu, sem markast m.a. af upprisu Kína, hnignun Bandaríkjanna, hefndarpólitík Rússlands, trúarbragða- og borgarastyrjöldum Mið-Austurlanda, stöðnun kúgunarkerfis Arabaheimsins og vaxandi hryðjuverkahættu. Evrópa mun þá ekki heldur standa að skynsamlegum lausnum á flóttamannavandanum – sem mun fara vaxandi á næstu árum – undir formerkjum mannúðarstefnu.

Að snúa vörn í sókn

Ég lýk þessu spjalli með því að minna á þrjú meginverkefni, sem kalla eftir lausnum í samtíð og náinni framtíð:

Fyrsta verkefni er að koma böndum á sjúkt og stjórnlaust fjármálakerfi; og að koma því aftur undir stjórn og eftirlit lýðræðislegs ríkisvalds. Ég hef sett fram fimmtán tillögur um róttækar umbætur á fjármálakerfinu á sérstökum minnisblöðum, sem fylgja þessu erindi – en hlífi ykkur við upptalningunni, nema eftir verði leitað.

Annað verkefni kallar á langtíma opinberar fjárfestingar í hreinni og endurnýjanlegri orku, sem komi í stað jarðefnaeldsneytis sem drifkraftur hagkerfis framtíðarinnar. Þetta, ásamt alþjóðlegu átaki um hreinsun hafsins, er brýnasta verkefni okkar til þess að draga úr fyrirsjáanlegum hörmulegum afleiðingum loftslagsbreytinga af mannavöldum. Um þetta eiga jafnaðarmenn og umhverfisverndarsinnar að sameinast.

Þriðja verkefnið er að undirbúa nú þegar, hvernig við ætlum að taka á afleiðingum þeirrar tæknibyltingar, sem er á fullu allt í kringum okkur (upplýsingabyltingin, stafræna byltingin og sjálfvirknin), sem mun á næstu árum og áratugum breyta með byltingarkenndum hætti sjálfu eðli vinnunnar í mannlegu samfélagi.

Í náinni framtíð eru allar horfur á, að við stöndum frammi fyrir gríðarlegu og kerfislægu atvinnuleysi sem afleiðingu þessarar tæknibyltingar. Þetta kallar á róttæka hugsun um tekjuskiptinguna og um hlutverk lýðræðislegs ríkisvalds við að skipuleggja þjóðfélagsleg viðbrögð. Róttækar hugmyndir um „grunntekjur“ fyrir alla, eða lágmarks erfðafé fyrir alla við upphaf starfsferils, eiga að vera þegar á dagskrá. Reyndar eru flestar þessara hugmynda ekki eins róttækar og þær hljóma við fyrstu kynni. Sem dæmi má nefna, að hugmyndin um neikvæðan tekjuskatt – lágmarkstryggingu til viðbótar launum, er fyrir löngu komin til framkvæmda og naut meira að segja stuðnings Miltons Freedman, helsta spámanns nýfrjálshyggjunnar.

Þessi þrjú vandamál og lausnir á þeim, eru öll innbyrðis tengd. Lausninrnar kalla á vandlega hannaðar lausnir í anda jafnaðarstefnu, sem og pólitíska aðferðafræði við að vinna þeim fylgi. Pólitískar fosendur fyrir árangri eru að ná málefnalegri samstöðu verkalýðshreyfingar, jafnaðarmannaflokka, umverfisverndarsinna og róttækra vinstrisinna í Evrópu, sem eru fulltrúar ungrar kynslóðar, sem hefur verið skilin eftir utangarðs.

Vegvísarnir eru þegar þarna. Munum vísdómsorð Erlanders: “Markaðurinn er þarfur þjónn, en óþolandi húsbóndi“. Hinn andlegi leiðtogi kaþólsku kirkjunnar er sammála og bætir við: „Peningarnir eiga að þjóna manninum, ekki að stjórna honum“.

Afgangurinn er bara framkvæmdaatriði. Þekkingin er til staðar.

Vilji er allt sem þarf.