SANNLEIKURINN: FYRSTA FÓRNARLAMBIÐ.

Hópur kvenna hefur sem kunnugt er birt opinberlega frásagnir sínar af samskiptum við mig (og Bryndísi konu mína í níu tilvikum) á undanförnum árum.  Sex þeirra taka ábyrgð á orðum sínum með því að vitna undir nafni.  Þeim hef ég þegar svarað (sjá www.jbh.is – Vitnaleiðslur).

Hinar – sextán talsins – fela sig undir nafnleynd. Ýmsir fjölmiðlar hafa birt þessar sögur, athugasemda- og gagnrýnilaust. Sameiginlega er þessum sögum ætlað að duga til að ræna mig og konu mína mannorðinu og útskúfa okkur úr íslensku samfélagi.

Í upphafi taldi ég mig vera varnarlausan líkt og jafnan er um þá, sem vegið er að úr launsátri. En við nánari skoðun kom á daginn að unnt er að sannreyna eina söguna út frá stað og stund. Sú saga reyndist vera hreinn skáldskapur. Þá vaknaði spurningin: Gegnir sama máli um allar hinar?

Vandleg skoðun og könnun á staðreyndum og sannleiksgildi fullyrðinga leiðir í ljós, að tólf af sextán þessara frásagna eru sannanlega uppspuni eða fá ekki staðist, af öðrum tilgreindum ástæðum.

Hinar sem eftir standa eiga það sammerkt, að þar er  ekkert sem hönd á festir;  hvorki hvar eða hvenær, né hverjar eigi hlut að máli. Þar með er ekkert sem gefur ástæðu til að ætla að sannleiksgildið sé annað eða meira en hjá hinum.

Haustið 2013 lagði Aldís Schram fram kæru til Rannsóknarlögreglunnar, sem hún hafi áður birt í DV og samanstóð af frásögnum nokkurra nafnlausra kvenna um meinta kynferðislega áreitni mína. Lögreglan svaraði því til, að þess væri enginn kostur að rannsaka sannleiksgildi vitna, sem ekki kæmu fram undir nafni. Slíkur söguburður væri marklaus. Þau orð standa.

Hér á eftir er listi yfir 12 vitnisburði sem, miðað við gefnar upplýsingar, reynast vera sannanlega uppspuni eða fá ekki staðist :

Saga númer 1:

Sögusviðið var sagt vera Ráðherrabústaðurinn við Tjarnargötu. Árið var tilgreint 1996. Ég vissi fyrir víst, að ég hafði ekki stigið þar fæti inn fyrir dyr árum saman eftir að ég lét af störfum utanríkisráðherra fyrir mitt ár 1995. Ég spurði því veisluhöld ríkisins, sem annaðist veitingar þar á þessum árum, hvort hann gæti staðfest þetta. Vottfest svar hans hljóðar svo:

Að gefnu tilefni vil ég undirritaður veisluhöldur ríkisins í Borgartúni og Ráðherrabústað taka fram eftirfarandi:

  1. Jón Baldvin Hannibalsson var aldrei gestur í Ráðherrabústað á umræddu ári og þar af leiðandi aldrei vísað þaðan út
  2. Enginn starfsmanna minna kannast við umrædda frásögn
  3. Enginn í starfsliði mínu var undir lögaldri

Sagan virðist því vera uppspuni frá rótum.  

11.02.19

Elías Einarsson (sign)

Þá vitum við það.  Sagan er uppspuni frá rótum.

Saga nr. 2

Sagan var upphaflega ónafngreind. Mbl. is fékk höfundinn hins vegar til að stíga fram undir nafni. Sagan á að hafa gerst við borðhald á heimili foreldra stúlkunnar, sendiherrahjóna í London.  Í upphafi tekur stúlkan það fram að hennar verst geymda leyndarmál sé „hatur sitt á þeim hjónum, Jóni Baldvini og Bryndísi“.  Þetta eru hennar eigin orð.Það er okkur hins vegar hulin ráðgáta, af hvaða rótum þetta hatur er runnið, þar sem við þekkjum stúlkuna nánast ekki neitt.

Frásögnin er með endemum. Það er óhætt að fullyrða, að enginn ærlegur faðir hefði liðið framkomu gagnvart dóttur sinni eins og þar er lýst, á sínu eigin heimili. Enda er sagan hreinn uppspuni. Stúlkan segir Bryndísi hafa verið  viðstadda borðhaldið. Hér er það sem Bryndís hefur um málið að segja (Fréttablaðið, 060219):

  • Því er haldið fram „að ég hafi verið viðstödd og aumkast yfir skíthælinn, sem þar er lýst, væntanlega af meðfæddri aumingjagæsku ; og beðið stúlkuna að fyrirgefa honum. Trúlegt – eða hitt þó heldur! Á ég að þurfa að segja þér og öðrum lesendum þessa blaðs, að þessi saga er hreinn hugarburður og heilaspuni. Ég hef aldrei – og mun aldrei –  biðja griða manni, sem hegðar sér eins og þar er lýst“.

Þessi orð standa.

Saga nr. 3

Sagan er sögð gerast árið 1998 „sem var síðasta ár hans sem formaður Alþýðuflokksins“. Við þetta er tvennt að athuga: Ég lét af formennsku í Alþýðuflokknum árið 1996 og var búsettur í Bandaríkjunum frá upphafi árs 1998. Seinasti kosningastjóri minn (sem er sagður koma þarna við sögu) hætti eftir kosningarnar 1995. Sagan er með öðrum orðum hreinn tilbúningur.

Saga nr. 4

Frásögnin ber með sér, að sagan á að gerast á skólaárinu 1976-77 við Menntaskólann á Ísafirði. Við þetta er það að athuga, að á þessu skólaári var JBH Fulbright-styrkþegi við Harvard-háskóla í Boston, Massachusets. Það verður því að finna annan sökudólg í þetta skipti.

Saga nr. 5

Sagan er lögð í munn æskuvinkonu Aldísar Schram frá Ísafjarðarárum, ein af mörgum í sögusafni hennar. Við hana er það að athuga, að vinkonan dró hana til baka fyrir mörgum árum, sem leiddi til vinslita þeirra Aldísar. Vilji hún vekja söguna upp aftur, er hún þar með að bera vitni gegn sjálfri sér. Hún er þá orðin tvísaga. Það þykir ekki marktækur vitnisburður. Þess ber að geta að umrædd æskuvinkona Aldísar er móðir Carmenar, sem tók upp þráðinn frá móður sinni í veislunni á þakinu (sjá Sögu nr. 12).

Saga nr. 6

Sagan er um heimsókn okkar hjóna í garðyrkjustöð um hábjartan dag. Um söguna er aðeins þetta að segja: Hver sá, sem eitthvað þekkir til mín, veit að ég fer ekki niðrandi orðum um útlit kvenna.  Enginn sem þekkir Bryndísi trúir því að hún hlæi hæðnishlátri að slíkum dónaskap. Rógburður af þessu tagi er söguberanum til háborinnar skammar.

Saga nr. 7

Þarna segir frá heimsókn okkar hjóna til kunningjafólks, foreldra stúlkunnar. Frásögnin breytist síðan í lýsingu á manni, sem er „blindfullur, þvoglumæltur og illa lyktandi…… eins og hungraður úlfur með glott á vör“. Það sem bjargar stúlkunni frá bráðum voða er þýskur fjárhundur,sem stuggar við úlfinum í mannsmynd. Hvað varð af Bryndísi í þessu fjölskylduboði er ósagt látið.

Sagan er hreinn viðbjóður og ekki svaraverð í sjálfu sér, en orðfærið er hið sama og í maníusögum Aldísar fyrr og síðar. Þar er að finna staðlaða lýsingu á manni, sem á að vera blindfullur eða fordrukkinn, þvoglumæltur, sveittur, illa lyktandi skrímsli með starandi augnaráð  og vekur ótta og andstyggð. Þetta gengur aftur í mörgum sögunum. Álíka mannlýsingar er einnig að finna í kvikmyndahandriti Aldísar, sem hún leitar oft í smiðju til. Er hún sjálf höfundurinn – eða bara ritstjórinn, sem samræmir stílbrögðin? Þeirri spurningu er enn ósvarað – en það er fullt tilefni til að spyrja.

Saga nr. 8

Þetta er saga Guðrúnar Harðardóttur, sú eina sem hefur haft sinn  gang í réttarkerfinu. Árið 2005 kærði Guðrún JBH til Lögreglu fyrir meinta kynferðislega áreitni.  Þegar þeirri kæru var vísað frá, kærði hún til Saksóknara, í það skiptið fyrir „særða blygðunarkennd“. Báðar kærur voru rannsakaðar, m.a. með yfirheyrslum og vitnaleiðslum. Báðum var vísað frá, þar sem ekki þótti tilefni til sakfellingar. Þrátt fyrir þessa ótvíræðu niðurstöðu er samt látið eins og hinn ákærði sé víst sekur, af því að hann var sagður svo valdamikill að hann gæti látið réttarkerfið dæma sér í vil. Það er bara bull.  Niðurstaðan stendur óhögguð, vegna þess að vitnum varð við komið. Endurteknar  sögur í fjölmiðlum fá engu um það breytt.

Saga nr. 9

Sagan lýsir grillveislu í sumarbústað foreldra Bryndísar í Mosfellssveit „vegna nýrrar sundlaugar við bústaðinn“ og á að hafa gerst sumarið 1982, eftir opnun laugarinnar.  Það sem er athugavert við þetta er, að samkvæmt heimildum þeirra sem gerst mega vita, var sundlaugarkrýlið tekið í notkun á fyrri hluta 8. áratugarins. Á þeim tíma vorum við Bryndís búsett á Ísafirði. Það er hafið yfir allan vafa, að hvorugt okkar Bryndísar sótti þessa grillveislu.

Saga nr. 10

Þessi saga gefur ýmislegt í skyn en fullyrðir samt ekkert. „Hann kom ekki við mig á óviðeigandi stöðum, en ég man, hvað mér leið illa“.  Eina sakargiftin er, að hann „mældi hæð mína fyrir kaup á svefnpoka“, vegna fyrirhugaðrar útilegu. Er það ámælisvert?

Saga nr. 11

Þetta voru tónleikar á Rósenberg, að sögn árið 2009. Söguhetjan er svo viss um ómótstæðilegt aðdráttarafl sitt, að hún fullyrðir, að JBH hafi  starað á hana „eins og rándýr allt kvöldið“. Síðan segir hún: „Ég hef lent í ýmsu varðandi alls konar menn og er ekkert sérstaklega viðkvæm í þeim efnum, en aldrei, hvorki fyrr né síðar, hefur mér liðið jafnmikið eins og ég stæði óvarin frammi fyrir rándýri eða skrímsli. Og það með augnaráðinu einu saman.“ – Það gerðist sumsé ekki neitt annað en að það voru jazztónleikar á Rósenberg. Það virðist alveg hafa farið fram hjá stúlkunni, sem gat ekki um annað hugsað en sjálfa sig. Ég verð því miður að hryggja viðkomandi með því, að þessi ómótstæðilega fegurð hefur ekki reynst vera mér minnisstæð.Það er vandlifað. En orðalagið er kunnuglegt úr leiksmiðju Aldísar.

Saga nr. 12

Loks er það veislan á þakinu í Salobrena sumarið 2018. Undir yfirskyni vináttu koma mægður í heimsókn og þiggja gistingu og góðan beina. Allt fer fram fyrir opnum tjöldum. Um morguninn erum við Bryndís á þönum við matseld og undirbúning borðhalds. Það er skroppið á þorpskrána til að fylgjast með viðureign Íslands og Argentínu á HM á stórum skjá. Að leik loknum er sest að veisluborði á þakinu. Bryndís er ekki fyrr búin að segja: „Gjörið þið svo vel“, þegar móðirin æpir upp: „Jón Baldvin, þú káfaðir á henni. Ég sá það“. Sem betur fer var þarna gestkomandi íslensk kona, Hugrún Auður Jónsdóttir, sem búsett er í Salobrena. Hún hefur vottað eftirfarandi: „Þetta er rugl. Ég hefði ekki komist hjá því að sjá það, þar sem ég sat við hliðina á JBH“.

Þetta er m.ö.o. vottfest lygi. Ég viðurkenni, að mér blöskra óheilindin og óheiðarleikinn. En til að bæta gráu ofan á svart hafa þær mæðgur krafist miskabóta upp á milljón. Var það kannski frá upphafi tilgangurinn með þessari innrás á heimili okkar? Lögreglan lauk rannsókn með yfirheyrslum í apríl 2019. Niðurstaðan lætur eitthvað á sér standa. Er það kannski vegna þess að kærur til lögreglu hrannast upp eftir hverja helgi í næturlífi Reykjavíkur, að sögn lögmanna? Vonandi reynist þetta stórmál ekki ofvaxið réttarkerfinu.

………………………………………………………

Mér er fyrirmunað að „svara“ þeim fáu sögum, sem eftir eru. Þær eiga það sammerkt, að þar er ekkert sem hönd á festir, hvorki hvar né hvenær né hverjar eiga að koma við sögu; eða að frásögnin er svo fjarstæðukennd, að hún hlýtur að ofbjóða trúgirni jafnvel hinna trúgjörnustu.  Alla vega er ekkert mark á þeim takandi meðan hinir nafnlausu rógberar þora ekki að standa við orð sín undir nafni. Ómarktækar, að sögn lögreglunnar – réttilega.

Hvað stendur þá eftir? Að því er varðar meðferð staðreynda og sannleiksgildi, stendur ekki steinn yfir steini. Ég spyr sjálfan mig og ykkur sem lesið þessi orð:  Er svo komið málum í okkar þjóðfélagi að við stöndum uppi varnarlaus frammi fyrir skipulagðri aðför að æru og heiðri af hálfu fólks sem er heltekið af hatri og hefndarhug? Mínu mannorði í þetta sinn. Þínu kannski á morgun.  Ætlum við að láta það yfir okkur ganga?

Að lokum þetta: Ef Metoo-hreyfingin er til, sem merkir að einhverjar geti talað í nafni hennar, þá stendur hún frammi fyrir þessari samviskuspurningu: Er skipulögð rógsherferð, af því tagi sem hér hefur verið lýst, samboðin málstað hreyfingarinnar? Er ekki kominn tími til að stíga fram og biðjast afsökunar á óhróðrinum, illmælginni og hatrinu?