Þegar fundum okkar Uffe Ellemann Jensen, utanríkisráðherra Dana, bar fyrst saman haustið 1988 á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda, kom brátt á daginn, að við Uffe áttum meira sameiginlegt en við mátti búast. Við vorum allir sósíaldemókratar nema hann, sem var formaður flokks, sem kenndi sig við vinstrið, en var til hægri. Þetta hafði ekkert að gera með pólitík. Við áttum það bara sameiginlegt að bera takmarkað umburðarlyndi fyrir leiðindum. Því fylgdi grallaralegt skopskyn, sem þótti á köflum varla selskapshæft.
Að sögn vinar míns, Stoltenbergs hins norska, missti Uffe út úr sér eftirfarandi: „ Það væri nú munur fyrir okkur hin að búa við ráðríki ykkar, krataflokkanna í Norðurlandapólitíkinni, ef þið væruð ekki flestir (alls ekki þú, þó!) svona hrútleiðinlegir.Af hverju getið þið ekki verið meira eins og þessi íslenski?“
Svona trakteringar þóttu ekki við hæfi í bræðralaginu, enda var vini mínum, Stoltenberg, ekki skemmt.
Þegar ég lít til baka til þessara ára, 1988-92, þegar samstarf okkar Uffe var hvað nánast, kemst ég ekki hjá því að játa, að við vorum lukkunnar pamfílar. Heimurinn var að taka stakkaskiptum. Við vorum að binda endi á Kalda stríðið. Fyrir hundrað milljónir Austur-Evrópubúa var loksins verið að binda endi á Seinni heimsstyrjöldina. Berlinarmúrinn var rifinn niður og Þýskaland sameinað friðsamlega.
Endurheimt sjálfstæði Eystrasaltsþjóðanna reyndist vera upphafið að endalokum Sovétríkjanna. Það tókust sögulegir samningar um afvopnun, samdrátt herja og brottflutning hernámsliða. Síðast en ekki síst náðust samningar um fækkun kjarnavopna og samstarf kjarnorkuvelda um að bægja frá útrýmingarhættu af þeirra völdum.
Eftir hálfrar aldar Kalt stríð undir hótun um allsherjar útrýmingu mannlífs á þessari jörð, vaknaði von um nýja og betri tíma. Hinir lærðustu menn voru þá jafnvel svo bernskir, að þetta táknaði „endalok sögunnar“. Framundan biði friðsæl framtíð, þar sem allir fengju notið frelsis og mannréttinda í samfélögum, sem lytu lýðræðislegri stjórn.
Hversu ólýsanleg eru ekki vonbrigðin, þegar við lítum nú til baka.
Það sem leiddi okkur Uffe saman á þessum árum, var óbrigðull stuðningur okkar sem fulltrúa smáþjóða við endurheimt sjálfstæðis Eystrasaltsþjóða. Þar var við ramman reip að draga. Leiðtogum Vesturveldanna virtist fyrirmunað að skilja, að Sovétríkin voru gjaldþrota. Að Gorbachev var rúinn fylgi, af því að hann gat engan veginn staðið við gefin fyrirheit. Yfirlýst stefna leiðtoga lýðræðisríkjanna um að binda allt sitt trúss við pólitísk örlög Gorbachevs – og þar með að halda Sovétríkjunum saman í nafni stöðugleikans – allt var þetta viðbragðapólitík, byggð á vanþekkingu á raunveruleikanum um yfirvofandi hrun hins gjaldþrota nýlenduveldis Rússa.
Það sem skorti var óbilandi stuðningur og þar með massív Marshallaðstoð við lýðræðisöflin í Rússlandi, þá undir forystu Yeltsíns . Fimm ár og 150 milljarðar dala til að fylgja því eftir, skv. áætlun Yavlinskys. En forystumenn lýðræðisríkjanna þekktu ekki sinn vitjunartíma. Þess vegna fór sem fór. Þess vegna er nú þegar byrjað nýtt Kalt stríð. Þess vegna erum við á barmi þriðju heimsstyrjaldarinnar. Þess vegna er fyrirhugaður björgunarleiðangur til að forða lífríki plánetunnar frá tortímingu nú í molum.
Okkur Uffe tókst að koma í veg fyrir, að endurheimtu sjálfstæði Eystrasaltsþjóða yrði fórnað í nafni ímyndaðs stöðugleika, sem enginn var í boði innan Sovétríkjanna. Þegar valdaránstilraun „harðlínumanna“ í Moskvu hafði mistekist í ágúst 1991 og Yeltsín stóð sigri hrósandi uppi á skriðdrekanum, sigri hrósandi sem leiðtogi lýðræðisaflana, var lýðum ljóst, að yfirlýst stefna lýðræðisríkjanna var gersamlega í molum. Um skeið ríkti valdabarátta í Kreml. Í Vestrinu blasti við pólitískt tómarúm.
Þá tókum við af skarið um viðurkenningu á endurreistu sjálfstæði Eystrasaltsþjóða. Aðrar þjóðir komu svo í kjölfarið. Það varð upphafið að upplausn Sovétríkjanna. Það er hins vegar ekki okkur að kenna, að leiðtogar Vesturveldanna létu tækifærið, sem upplausn Sovétríkjanna veitti, sér úr greipum ganga, með þeim afleiðingum sem við blasa.
Eitt af því sem Uffe Ellemann beitti sér fyrir, eftir að utanríkisráðherraferli hans lauk 1993, var að stofna Baltic Developement Forum. Það var áhrifamikill samstarfsvettvangur Norðurlanda og Eystrasaltsþjóða, einkum og sér í lagi með því að greiða fyrir fjárfestingum norrænna fyrirtækja í Eystrasaltslöndum. Og hefur þar með skilað miklum árangri og vísað veginn til framtíðar. Sú framtíð byggir á svæðisbundnu samstarfi Norðurlanda og Eystrasaltsþjóða, innan ramma Evrópusamstarfsins.
Fundum okkar Bryndísar og Uffe, vinar okkar, bar seinast saman í Kaupmannahöfn fyrir fáeinum árum. Við vorum á heimleið frá Vilníus með viðkomu í okkar gömlu höfuðborg. Við létum vita af ferðum okkar, og Uffe bauð upp á „dansk julefrokost“ í Nyhavn. Það var ógleymanleg stund. Við létum gamminn geisa um hið liðna og hnakkrifumst um sitthvað í samtíðinni. En þegar ég spurði hann um danska pólitík, sagði hann: „Hafðu ekki áhyggjur af henni. Það eru þegar þegar tveir fulltrúar Ellemann Jensen þar við völd“. Og hló með bakföllum.
(Höfundur var utanríkisráðherra Íslands 1988-95).