Árni Gunnarsson, minning

Árni Gunnarsson var maður heitra tilfinninga. Rík réttlætiskennd var honum í blóð borin. Hann vildi leggja þeim lið, sem áttu undir högg að sækja og rétta þeim hjálparhönd, sem liðsinnis þurftu við. Hann var m.ö.o. jafnaðarmaður af lífi og sál og drengur góður. Samt var hann aldrei haldinn bölmóði, eins og hendir suma þá, sem vex í augum óréttlæti heimsins. Þvert á móti. Hann trúði á hið góða í manninum. Og gekk bjartsýnn og baráttuglaður að hverju verki. Hann átti auðvelt með að laða fólk til samstarfs, enda betri samstarfsmaður vandfundinn.

Flokkurinn sem Árni aðhylltist ungur að árum hét Alþýðuflokkurinn – og var Jafnaðarmannaflokkur Íslands. Enginn annar flokkur hefur hrundið í framkvæmd jafnmörgum og jafn róttækum umbótamálum, sem til samans hafa gerbreytt íslensku þjóðfélagi til hins betra.

Þetta er flokkurinn, sem boðaði Íslendingum hið „norræna samfélagsmódel“ sem eftirsóknarverða fyrirmynd. Reynslan sýnir, svo að ekki verður lengur um deilt, að þessi þjóðfélagsgerð ber af. Það á bæði við um „óða-kapitalisma“ samtímans, sem hleður ofurauði á æ færri hendur og rányrkir takmarkaðar auðlindir jarðar svo freklega, að sjálfu lífríkinu er hætta búin; og svo ekki sé talað um lögregluríki sovétkommúnismans, sem þegar hefur verið huslað á öskuhaugum sögunnar.

Árna varð á efri árum æ meir umhugað um að varðveita afrekaskrá og hugmyndaarf jafnaðarstefnunnar – Alþýðuflokk s og verkalýðshreyfingar. Hann vissi sem var, að „rótarslitinn visnar vísir…“; að nýjar kynslóðir, sem hafa glatað jarðsambandinu, eiga á hættu að glata lífsþrótti sínum og framtíðarsýn – hugsjóninni, sem hvetur til dáða.
Þessi ótti var ekki ástæðulaus. Ef við svipumst um af sjónarhóli samtímans blasir við, að draumurinn um að sameina umbótaöflin í einni hreyfingu, undir gunnfána lýðræðislegrar jafnaðarstefnu og með vald öflugrar verkalýðshreyfingar að baki, hefur gersamlega mistekist. Í staðinn hafa sprottið upp ótal smáflokkar, þar sem hver otar sínum tota um dægurmál. En skortir sameinandi framtíðarsýn jafnaðarstefnunnar til að geta orðið trúverðugt forystuafl. Í þessari flokkaflóru er enginn sem varðveitir, ver og ávaxtar hugmyndaarf jafnaðarstefnunnar.

Árna Gunnarssyni rann þessi nöturlega staðreynd til rifja. Hann ákvað að gera það sem í hans valdi stæði til að bæta fyrir þessa bæklun. Sem formaður Bókmenntafélags jafnaðarmanna ákvað hann að minnast 100 ára afmælis hreyfingarinnar með veglegum hætti á málþingi í Iðnó, þar sem afrekaskráin var tíunduð. Og fylgdi því síðan eftir með því að ráða Guðjón Friðriksson, sagnfræðing, til að gera sögunni og hugmyndaarfinum verðug skil í öndvegisritinu: „Úr fjötrum“. Þar er arfurinn varðveittur, sem seinni kynslóðum ber að ávaxta.

Góður drengur er fallinn í valinn. Við minnumst hans þakklátum huga og sendum hugheilar samúðarkveðjur til Hrefnu, Sigríðar Ástu, Gunnhildar og fjölskyldu þeirra.

Jón Baldvin Hannibalsson