Máttur rógsins (2023)

Mér finnst einhvern veginn, að ég geti ekki sagt skilið við land mitt og þjóð án þess að reyna að gera hreint fyrir mínum dyrum  –  segja sannleikann.

Auðmýkingin, niðurlægingin er slík, að okkur er ekki vært hér lengur.

Ég trúði því staðfastlega, að réttlætið mundi sigra –  að við byggjum við heilbrigt réttarkerfi.

En svo er ekki.

Skólabróðir minn og mikill vinur, Styrmir Gunnarsson, sagði einhvern tíma, að „Ísland væri ógeðslegt þjóðfélag“. Ég skildi ekki alveg þá , hvað hann var að fara.

En núna liggur það ljóst fyrir –  og við erum sjálf fórnarlömb spillingarinnar.

————————————-

Innan nokkurra vikna eru liðin fimm ár frá því að skipulögð aðför að mannorði mínu og eiginmanns míns hófst  á Íslandi. Það var sumarið sem ég varð áttræð, 2018. Þetta sama sumar vildi svo til, að fyrrverandi nemendur mínir í MÍ, vinkonur og samstarfsmenn, fóru að hringja í mig og vara mig við. Sögðu, að MeToo konur væru að leita að „ljótum sögum“ um manninn minn. Ég gat ekki ímyndað mér, að til væru „ljótar sögur“ af manni mínum og tók ekki mikið mark á þessu.

Lesa meira

DRAUMURINN HENNAR MÖMMU

Hátíðarræða flutt þann 9. júní, 2023 á 65 ára stúdentsafmæli skólasystkina úr Menntaskólanum í Reykjavík.

Kæru vinir og skólafélagar.

Þegar ég lít í öll þessi andlit, sem ég er búin að þekkja í meira en hálfa öld, minnist ég þeirra á kveðjustund árið 1958. Við vorum búin að setja upp stúdentshúfurnar og vorum að byrja nýtt líf – á leið út í heim. Eftirvæntingin skein út úr hverju andliti, líka tilhlökkun, forvitni, gleði –   jafnvel kvíði. Og nú erum við hér samankomin 65 árum seinna. Og ég sé þessi sömu andlit. Yfir þeim er værðasvipur,  jafnvel feginleiki, nú þegar þessi langa vegferð er að baki.

Úr þessu getum við engu breytt.

Áður en ég held áfram, langar mig til að nota tækifærið og færa einni konu sérstakar þakkir okkar allra fyrir að hafa stöðugt í öll þessi ár minnt okkur hverja á aðra (eða hvert á annað), haldið þessum sundurleita hópi saman – þannig að við misstum aldrei alveg sjónar hvert af öðru í amstri daganna. Allt er þetta henni Sigríði Dagbjartsdóttur að þakka. Þess vegna er þessi hátíð í kvöld. Hún hefði ekki orðið nema fyrir tilstuðlan Sigríðar. Og innilegar þakkir fyrir það, Sigríður,  og fyrir höfðinglegar móttökur á þínu fallega heimili í dag.

Hafi einhver ykkar gert ráð fyrir því, að ég byði upp á fræðilega greiningu á stöðu og hlutverki skólans okkar í samfélaginu, eiga þau hin sömu eftir að verða fyrir vonbrigðum. Það bíður betri tíma. Kannski eitthvert okkar geri það bara á hundrað ára afmælinu?!

Lesa meira

Niðurlægingin fullkomnuð – lygarinn hafði betur.

          (Ritað vorið 2023)

Ég er satt að segja búin að fá mig fullsadda af viðbjóðslegum lygasögum um manninn minn, Jón Baldvin Hannibalsson – alltaf ljótari og hatursfyllri með hverju árinu. Ég  hef verið gift þessum manni í 64  ár og veit, hvern mann hann hefur að geyma. Sá maður á ekkert skylt við þá lýsingu, sem dregin er upp af honum af hatursfullu fólki á samfélagsmiðlum. Þess vegna geri ég orð dóttur okkar, Aldísar, að mínum, en hún sagði í viðtali einhvern tíma:  “ ….má hann aldrei njóta sannmælis?“

Og áður en lengra er haldið, langar mig til að segja við ykkur, lesendur góðir, að ég hef heldur aldrei – ég endurtek, aldrei –  heyrt manninn minn, tala af slíkri óvirðingu, heift og hatri um nokkra manneskju, eins og ég hef orðið vitni að í íslenskum fjölmiðlum um hann.   

Lesa meira

RASSSTROKA Á ÞAKINU –  SEM ALDREI VAR.

Allir sem þekkja okkur Jón Baldvin, vinir og kunningjar, vita, að við erum hvorki ruddar né dónar. Við erum mannvinir, og umgöngumst fólk af virðingu og væntumþykju – kannski forvitni, en aldrei óþarfa ágengni. Hvað þá, ef við þekkjum fólk ekki neitt og höfum aldrei séð  áður.

Þannig var það með hana Carmen, sem ég hafði aðeins hitt einu sinni eða tvisvar áður og þekkti lítið. Nú var hún komin í heimsókn til okkar í Salobreña í fylgd móður sinnar, Laufeyjar. Laufeyju hef ég hins vegar þekkt í mörg ár. Ég hafði náin samskipti við hana á árunum okkar á Ísafirði i den. Þá var hún vinkona elstu dóttur okkar, Aldísar.

Lesa meira

Páskabækurnar 2023

Páskabækurnar 2023, að frátöldu sérhæfðu veðurefni, voru þrjár, Tæpitungulaust eftir Jón Baldvin Hannibalsson, Brosað gegnum tárin eftir Bryndísi Schram og Lög og landsmál eftir Arnar Þór Jónsson. Bók Bryndísar er lipur og skemmtileg frásögn af atburðum á lífsleiðinni, krydduð heimspekilegum vangaveltum. Það lætur Bryndísi vel að hafa marga bolta á lofti og hún ræður fullkomlega við að vera drottning og alþýðustúlka í senn. Ég held að Bryndís sé og verði eilíf.

Lesa meira

SAGAN ENDURTEKUR SIG

Ritað dagana sem heimsókn forseta, ráðherra og borgarstjóra Eystrasaltríkjanna stóð yfir í Reykjavík, þann 25.8. – 27.8.2022

  • Jón Baldvin var hunsaður frá upphafi.

Ég man það eins og það hefði gerst í gær. Þetta var um miðja nótt í janúar 1991. Niðamyrkur allt um kring. Og síminn hringdi. Kunnugleg rödd sagði: „Jón Baldvin, nú er stundin runnin upp. Þetta er neyðarkall frá Vilníus.“ Þessa rödd átti Vytautas Landsbergis, forseti Þjóðþingsins í Vilníus. Honum var mikið niðri fyrir. Ég heyrði hvert orð sem hann sagði: „Rússarnir hafa ákveðið að láta til skarar skríða“. Ég man, að það fór um mig hrollur við tilhugsunina – Rússarnir – til skarar skríða!

„Þú verður að koma strax – nærvera NATO-ráðherra skiptir máli.  En enginn þeirra hefur svarað ákalli mínu“.

Þessir örlagaríku dagar í Litáen í janúar 1991, þegar farsímar og tölvur voru enn óþekkt fyrirbæri, heyrði ég ekkert í manninum mínum, frá því hann kvaddi mig með kossi um niðdimma nótt og þar til hann sneri til baka –  heill á húfi – sjö dögum seinna.

Lesa meira

Afmæliskveðja frá eiginmanni 9. júlí, 2022

Hún á afmæli í dag.
Hversu oft hef ég ekki sagt það:
Ég sá hana fyrst aftanverða í landsprófi í Gaggó Vest, október 1953.
Þá vantar eitt ár í sjötíu ár.
Hún var of sein fyrir. Hún sveif inn fisléttum skrefum. Settist fyrir framan mig, sneri sér við og brosti.
Þessu sama brosi, sem enn yljar mér um hjartarætur. Og svo líður tíminn. Þannig líður tíminn.
Og nú erum við stödd á sólarströnd Salobrena til að halda upp á afmælið.
Það er enn sama sagan. Ég labba á eftir henni. Það er sama sveiflan í göngulaginu. Skvaldrið í kring hljóðnar. Athygli nærstaddra beinist öll að sama púnkti:
Yfirþjónnin hneigir sig djúpt og kyssir á hönd drottningar. Ég sé hana bara aftanverða eins og forðum í Gaggó West.
Yfirþjónninn leiðir okkur að borðinu, þar sem við fögnum afmæli hennar án þess að nefna nokkur ártöl.
Þarna voru tveir eða þrír gamlir kunningjar.
Smám saman spurðist út, hver hún væri.
Að lokum var þetta orðin sameiginleg veisla.
Mér tókst þó að segja: Til hamingju með afmælið.
Og þannig hefur þetta verið í bráðum sjötíu ár.
Það laðast allir að henni, af því að brosið hennar er ekta.
Hún er ekta.
Þess vegna hefur afmælisveislan staðið í bráðum 70 ár.

Anna Kristine Magnúsdóttir – minning

“Elsku Bryndís mín. Gleðilegar nýársóskir til ykkar Jóns. Ég ætlaði að hringja, en varð skyndilega raddlaus. Elska ykkur, knús og kossar”.

Þetta var síðasta kveðja Önnu Kristine til mín. Tveimur dögum síðar var hún gengin út af sviðinu – horfin mér að eilífu.
Aldrei framar mundi hún senda mér uppörvandi kveðju – hugga mig í andstreymi, gefa mér von um betra líf – bjartsýn og örlát, vinur í raun.
Ég var strax farin að sakna hennar.

Við Anna höfðum þekkst lengi. Unnum saman um tíma fyrir mörgum árum, þegar ég bjó á Vesturgötunni og hún á Ránargötunni – bara spölkorn á milli. Við vorum að gefa út blað – kvennablað – og vorum stöðugt að leita að söluvænum, spennandi hugmyndum.

Lesa meira