SAGAN ENDURTEKUR SIG

Ritað dagana sem heimsókn forseta, ráðherra og borgarstjóra Eystrasaltríkjanna stóð yfir í Reykjavík, þann 25.8. – 27.8.2022

  • Jón Baldvin var hunsaður frá upphafi.

Ég man það eins og það hefði gerst í gær. Þetta var um miðja nótt í janúar 1991. Niðamyrkur allt um kring. Og síminn hringdi. Kunnugleg rödd sagði: „Jón Baldvin, nú er stundin runnin upp. Þetta er neyðarkall frá Vilníus.“ Þessa rödd átti Vytautas Landsbergis, forseti Þjóðþingsins í Vilníus. Honum var mikið niðri fyrir. Ég heyrði hvert orð sem hann sagði: „Rússarnir hafa ákveðið að láta til skarar skríða“. Ég man, að það fór um mig hrollur við tilhugsunina – Rússarnir – til skarar skríða!

„Þú verður að koma strax – nærvera NATO-ráðherra skiptir máli.  En enginn þeirra hefur svarað ákalli mínu“.

Þessir örlagaríku dagar í Litáen í janúar 1991, þegar farsímar og tölvur voru enn óþekkt fyrirbæri, heyrði ég ekkert í manninum mínum, frá því hann kvaddi mig með kossi um niðdimma nótt og þar til hann sneri til baka –  heill á húfi – sjö dögum seinna.

Lesa meira

Afmæliskveðja frá eiginmanni 9. júlí, 2022

Hún á afmæli í dag.
Hversu oft hef ég ekki sagt það:
Ég sá hana fyrst aftanverða í landsprófi í Gaggó Vest, október 1953.
Þá vantar eitt ár í sjötíu ár.
Hún var of sein fyrir. Hún sveif inn fisléttum skrefum. Settist fyrir framan mig, sneri sér við og brosti.
Þessu sama brosi, sem enn yljar mér um hjartarætur. Og svo líður tíminn. Þannig líður tíminn.
Og nú erum við stödd á sólarströnd Salobrena til að halda upp á afmælið.
Það er enn sama sagan. Ég labba á eftir henni. Það er sama sveiflan í göngulaginu. Skvaldrið í kring hljóðnar. Athygli nærstaddra beinist öll að sama púnkti:
Yfirþjónnin hneigir sig djúpt og kyssir á hönd drottningar. Ég sé hana bara aftanverða eins og forðum í Gaggó West.
Yfirþjónninn leiðir okkur að borðinu, þar sem við fögnum afmæli hennar án þess að nefna nokkur ártöl.
Þarna voru tveir eða þrír gamlir kunningjar.
Smám saman spurðist út, hver hún væri.
Að lokum var þetta orðin sameiginleg veisla.
Mér tókst þó að segja: Til hamingju með afmælið.
Og þannig hefur þetta verið í bráðum sjötíu ár.
Það laðast allir að henni, af því að brosið hennar er ekta.
Hún er ekta.
Þess vegna hefur afmælisveislan staðið í bráðum 70 ár.

Anna Kristine Magnúsdóttir – minning

“Elsku Bryndís mín. Gleðilegar nýársóskir til ykkar Jóns. Ég ætlaði að hringja, en varð skyndilega raddlaus. Elska ykkur, knús og kossar”.

Þetta var síðasta kveðja Önnu Kristine til mín. Tveimur dögum síðar var hún gengin út af sviðinu – horfin mér að eilífu.
Aldrei framar mundi hún senda mér uppörvandi kveðju – hugga mig í andstreymi, gefa mér von um betra líf – bjartsýn og örlát, vinur í raun.
Ég var strax farin að sakna hennar.

Við Anna höfðum þekkst lengi. Unnum saman um tíma fyrir mörgum árum, þegar ég bjó á Vesturgötunni og hún á Ránargötunni – bara spölkorn á milli. Við vorum að gefa út blað – kvennablað – og vorum stöðugt að leita að söluvænum, spennandi hugmyndum.

Lesa meira

Arna Schram – minning

Örninn, hinn tígulegi fugl, er einfari, fer eigin leiðir, flýgur hátt, fjarri mannabyggð, er sjálfum sér nægur. Og þannig var Arna –  eins og nafnið ber með sér. Alveg frá barnsaldri var hún mjög sjálfstæð, vissi hvað hún vildi. Ekki allra, að vísu, en íhugul og seinþreytt til vandræða.

Ég kynntist þessari bróðurdóttur minni, þegar hún var smábarn og kom í heimsókn til okkar að sumarlagi vestur á firði.  Arna og Snæfríður, dóttir mín, voru jafnaldrar og urðu fljótt nánar vinkonur. Báðar með  ljósan hadd og himinblá augu. Önnur feimin og hlédræg, hin á heimavelli á Ísafirði, og líklega ögn heimarík. 

Lesa meira

Á amma alltaf að borga?

„Á amma alltaf að borga?“ spurði JB að lokinni þriggja rétta sjávarréttaveislu uppi á þaki á Pesetas, sem er veitingastaðurinnn fyrir ofan þorpskrána hér í Salobrena, uppi á kletti Hannibals. Þetta var á Siestunni seinasta sunnudag í júlí. Og svei mér þá, hvort þetta var ekki orðið fullmikið af því góða – 37 gráður plús. Við nenntum varla að hreyfa okkur. En fremur en að koðna alveg niður, mönnuðum við okkur upp í að taka þessi fáu skref, sem liggja til Pesetas. Þetta er elsti veitingastaðurinn a klettinum. Stofnaður 1966 á viðreisnarárunum – áratug áður en Franco skepnan hrökk upp af.

Lesa meira