“Elsku Bryndís mín. Gleðilegar nýársóskir til ykkar Jóns. Ég ætlaði að hringja, en varð skyndilega raddlaus. Elska ykkur, knús og kossar”.
Þetta var síðasta kveðja Önnu Kristine til mín. Tveimur dögum síðar var hún gengin út af sviðinu – horfin mér að eilífu.
Aldrei framar mundi hún senda mér uppörvandi kveðju – hugga mig í andstreymi, gefa mér von um betra líf – bjartsýn og örlát, vinur í raun.
Ég var strax farin að sakna hennar.
Við Anna höfðum þekkst lengi. Unnum saman um tíma fyrir mörgum árum, þegar ég bjó á Vesturgötunni og hún á Ránargötunni – bara spölkorn á milli. Við vorum að gefa út blað – kvennablað – og vorum stöðugt að leita að söluvænum, spennandi hugmyndum.