Einar Benediksson, fyrrverandi sendiherra í Bandaríkjunum, sagði við mig þegar hann fór frá Washington og vitað var að Jón Baldvin myndi verða næsti sendiherra:„Bryndís þarf að kynnast þér“. Ég varð furðu lostin, Bryndís þessi fræga kona, af hverju þurfti hún að kynnast mér, stelpu úr Keflavík sem enginn þekkti. „Jú af því að hún þarf einhvern sem hún getur treyst og þekkir alla staðhætti hér í Washington“. Ég lofaði honum að ég skyldi gera það og þegar þau komu gerði ég boð á undan mér í sendiráðið og tilkynnti að ég vildi eiga fund með þeim.
Ég hitti þau í sendiráðinu einn morgun í nóvember og við áttum góðan fund þar sem við ákváðum að hittast fljótlega. Á þessum tíma átti ég heima í næsta nágrenni við þau og ég varð eins og sagt er „heimilisköttur“ á Kalorama (sendiráðsbústaðnum) og tók virkan þátt í mörgu sem átti sér stað þar næstu fimm árin. Það sem mér er minnistæðast er að frá upphafi tók listunnandinn Bryndís, þá ákvörðun að hún skyldi reyna allt sem í hennar valdi stæði til að kynna íslenska listamenn fyrir Bandaríkjamönnum, listamenn sem bæði voru búsettir á Íslandi, Bandaríkjunum og annars staðar. Hún stóð fyrir uppákomum í bústaðnum fyrir rithöfunda, tónlistarfólk, myndlistamenn og m.a.s. fatahönnuði svo eitthvað sé nefnt.