Bryndís Schram hefur sent frá sér bókina Brosað gegnum tárin þar sem hún segir frá lífi sínu, gleði og sorgum. Áður hafa komið út tvær bækur um líf Bryndísar, Ólína Þorvarðardóttir skrifaði þá fyrstu 1998 en fyrir 12 árum kom út bókin Í sól og skugga sem Bryndís skrifaði sjálf. En ef einhver heldur að hér sé borið í bakkafullan læk skal strax tekið fram að svo er ekki, enda hefur hún lifað langa og viðburðaríka ævi sem verður að sjálfsögðu ekki gerð full skil á nokkrum blaðsíðum.
Bryndís brosir gegnum tárin og hefur gaman af ferðalögum og lestri góðra bóka eins og klisjan um fegurðardrottninguna býður. En Bryndís er engin klisja, engin innantóm fegurðardís – ef slík er þá til. Bryndís er stórvel gefin kona, hæfileikarík á ótal sviðum og hefur lifað óvenjulegu og merkilegu lífi, gegnt margs konar störfum, gjarnan í kastljósi fjölmiðla, búið í mörgum ólíkum löndum, ferðast um allan heim og kynnst mörgu af valdamesta fólki veraldar.