Þó Bryndís Schram brosi gegnum tárin er hún miklu meira en fegurðardrottning, hvað þá ballerína og mun meira en aðeins eiginkona eins af okkar svipmestu stjórnmálamönnum.
Það sem gerir þessa bók skemmtilega er að hún er svo full af lífi að það hálfa væri nóg. Reyndar sáum við þessa forvitni og lífsneista á skjánum, enda er hún ein af okkar allra besta sjónvarpsfólki, en það var engin tilgerð því sama lífsins libidó færir líf í tilveruna hvert sem hún fer, hvort sem það er vestur á fjörðum, í fjölmiðlafansinum fyrir sunnan eða í kalklituðum fjallahúsunum í Salobreña.