Hver var hinn meinti glæpur? Tveimur risnureikningum frá fjármálaráðherratíð Jóns Baldvins (1987–88), þar sem tilefnis var ekki getið, var lekið til fjölmiðla. Þar sem ég hélt upp á fimmtugsafmælið mitt sumarið 1988, var það látið fylgja sögunni, að „grunur léki á“, að Jón Baldvin hefði látið fjármálaráðuneytið kosta veisluna.
(Ó)heiðarleg blaðamennska
„…það var ekki fyrr en sjálfstæð eftirlitsstofnun – Umboðsmaður Alþingis – tók ákvörðun um að rannsaka málið, sem sannleikurinn um óheiðarleikann kom fram.“
Jón Trausti Reynisson ritstjóri (í leiðara Stundarinnar 30.03.17)
Í grein í Stundinni ( 30.03.17), sem á að vera upprifjun á næstum 30 ára gamalli frétt, tekur Reynir Traustason á sig krók til að vekja upp gamlan draug. Um hvað snerist það nú aftur? Jú, það var verið að reyna að telja fólki trú um, að við Jón Baldvin værum þjófar. Pólitískur skítabissness þá. Já – en mundi nú vera kallað falsfrétt. Af hverju fals? Vegna þess að „sjálfstæð eftirlitsstofnun“ – Ríkisendurskoðun – hafði rannsakað málið og kveðið upp úrskurð um að þetta væru ósannindi.