Fullt hús í Þjóðleikhúskjallaranum sýnir Hundalógík
Leikstjórn: Bjartmar Þórðarson
Þýðing: Jón Stefán Sigurðsson og hópurinn
Ljósahönnun: Lárus Björnsson
Hljóðhönnun: Bjartmar Þórðarson
Sviðsmynd og búningar: Hópurinn
Hundalógík – er það ekki samheiti yfir tómt rugl (svona eins og íslensk pólitík er nú til dags)? Mér finnst þessi samlíking, satt að segja, ekki sanngjörn gagnvart hundum. Hundar eru einmitt mjög „lógískir“ – sjálfum sér samkvæmir. Það er eiginlega þeirra eðli– og líklega það sem gerir mennina svo hænda að þeim. Sér um líkir sækjast þeir, einfeldningslegir og útreiknanlegir.
Tveir litlir hundar hafa orðið innilyksa á okkar heimili. Þeir sáu bara enga ástæðu til að fylgja eigendum sínum, þegar þeir höfðu vistaskipti – og sitja sem fastast. Þeir eru alveg ótrúlega klárir. Oftast liggja þeir eins og dauðir í þægilegasta stólnum , þ.e.a.s. svo lengi sem ég er í morgunkjólnum, ótilhöfð, með úfið hár og tebolla í hendinni. En um leið og ég tek fram varalitinn og greiðuna, rísa þeir upp við „dogg“ eða rjúka upp til „handa“ og fóta, titrandi af spenningi. – Æ, Æ, hún ætlar að yfirgefa okkur, skilja okkur eftir aleina. Það má ekki verða. – Og þeir þjóta fram í forstofu og standa þar bísperrtir með tilhlökkun í augnaráðinu, staðráðnir í að láta mig ekki sleppa – eða fá að slást í för, ella. Hundarnir hegða sér nákvæmlega eins og mín eigin börn gerðu fram að þriggja ára aldri – sams konar lógík. – Sams konar viðbrögð og sams konar vonbrigði.
Lesa meira