Húsið, sem við búum í, stendur í húsagarði við Didzioji Gatvu (Aðalstræti) sem er eins og okkar Aðalstræti, elsta gata borgarinnar. Það er hljótt í garðinum, oftast fáir á ferli, nema dugnaðarlegar konur að skjótast á milli húsa með skúringafötur. En úti á götunni er ys og þys. Það er engu líkara en, að maður detti beint inn í fjörlega leiksýningu, sem er reyndar löngu hafin. Efst á sviðinu trónir ráðhúsið, tíguleg bygging með sex nýklassiskum súlum í forgrunni. Kaffihús og barir hafa breitt úr sér um allt torgið, rauðköflóttir dúkar blakta í vorgolunni, borð við borð. Samt er ekkert sæti laust. Þjónar eru á hlaupum með bakka og glös, allir hlæjandi og mas-andi. Sólin er enn heit, þótt dagur sé að kveldi kominn. Og engum liggur á.
Rétt eins og á Vinstri bakkanum
Árið 2009 fagnaði Vilnius þúsund ára afmæli sínu og er, að sögn, ein af elstu heillegu borgum Mið-Evrópu. Hér má ekki hrófla við neinu, því að UNESCO hefur tekið gamla bæinn undir sín vökulu augu og forbýður, að heildarsvipnum sé raskað. Borgin er ýmist nefnd Aþena norðursins, eða Baroque borgin norðan Alpafjalla. Hér mætast austrið og vestrið. Þannig hefur það verið alveg frá því að Litháar voru stórveldi og lögðu undir sig löndin í austri, allt suður til Svarta hafsins, þar til landið lenti undir hrammi tveggja stórvelda sitt til hvorrar handar, Rússa og Pólverja. Öllu slær saman í eina órofa harmóníu lita og lögunar. Borgin hefur róandi áhrif með sínum lágreistu húsum og mildu litum. Mér er sagt, að það séu fimmtíu og þrjár kirkjur í Vilníus. Það er sama, hvar maður tyllir niður fæti á gönguferð um borgina, alls staðar blasa við hinar fegurstu byggingar, ýmist orthodox, kaþólskar, lútherstrúar eða sínagógur – hver með sínu lagi. Þetta bendir til þess, að Litháar hafi verið menntaðir og frjálslyndir.