Mögnuð upplifun

Við leyfðum okkur þann munað um helgina að fara í leikhús  – sjálft Þjóðleikhúsið. Þetta var frumsýning á „Vertu úlfur“,  sem byggt er á sjálfsævisögu Héðins Unnsteinssonar. Húsið var upptendrað sem aldrei fyrr, og gestgjafar stóðu brosandi við dyrnar. Öllum var tekið fagnandi – Jafnvel okkur.

Hvað var okkur efst í huga að sýningu lokinni? Fyrst og fremst aðdáun yfir því, hve vel var að verki staðið. Málefnið er brýnt og varðar okkur öll. Héðinn Unnsteinsson á þakkir skyldar fyrir að þora – þora að opna okkur sýn inn í hugarheim hins geðsjúka, þora að rjúfa þögnina og þora að spyrja beinskeyttra spurninga, sem afhjúpa okkar eigin fordóma.

Lesa meira

Síðbúinn sannleikur

Þessi grein eftir mig birtist í BB á Ísafirði, mánudaginn 25.jan.

Innst inni er ég einhvern veginn sannfærð um það, að enginn maður á Íslandi – né kona – trúi því í alvöru, að maðurinn minn sé ofstopafullur kynferðisglæpamaður, sem níðist bæði á konum og börnum. Í öllu okkar stríði á undanförnum sextíu árum í sambúð, bæði í pólitíkinni og á vinnumarkaðnum almennt, var það aldrei inni í myndinni. Við vorum að vísu stöðugt sökuð um alls konar glæpi – svo sem smygl, þjófnað og drykkjuskap – nefndu það – en aldrei um ógeðslegt ofbeldi gagnvart konum eða börnum. Hugarflugið var ekki búið að ná þeim hæðum á þessum árum.

Lesa meira

Til minningar um Hallgrím Svein Sævarsson

Hann kom hingað að Álfhóli þann 13. september síðastliðinn, daginn sem bókin mín – Brosað gegnum tárin, – kom út. Húsið var fullt af fólki. Allir í góðu skapi.

Ég hafði aldrei séð hann áður, en oft talað við hann í síma. Ég vissi, að hann var ljóðelskt tónskáld, sem átti sér þann draum að gera ljóðin ódauðleg, sveipuð fögrum tónum, sem komu úr hans eigin hugarheimi. Hann hafði næmt eyra, vissi hvað hann vildi – ekki endilega ljóð – heldur bara fallegan texta. Og hann langaði til að koma í heimsókn. En við vorum stödd á fjarlægri strönd, og hann átti ekki heimangengt.

Lesa meira

Með kveðju til Menntaskólans á Ísafirði

Þann 6. október voru liðin 50 ár – hálf öld – frá því að Menntaskólinn á Ísafirði var stofnaður. Fyrsti skólameistarinn var Jón Baldvin Hannibalsson, eiginmaður minn. Þetta haust fyrir 50 árum höfðum við verið lengi fjarri hvort öðru – hann fyrir vestan að undirbúa skólastarfið, og ég ólétt fyrir sunnan að lesa undir BA-próf í HÍ. Ég ætlaði að tryggja, að ég gæti að minnsta kosti orðið að einhverju gagni þarna úti á hjara veraldar. Hann sagði mér sigri hrósandi frá því eitt kvöldið í símann, að hans fyrsta verk hefði verið að kaupa skúringafötu og handy-andy, svo að allt yrði hreint og fínt í gamla barnaskólahúsinu, þegar fyrstu nemendur streymdu að. Þar átti að kenna fyrst um sinn. Ég held meira að segja, að hann hafi skúrað sjálfur, því að enn vantaði bæði ræstitækna og kennara. En hann var alsæll, aftur kominn á sínar heimaslóðir, og allt hafðist þetta að lokum. Ég sá mest eftir því að geta ekki verið viðstödd skólasetningu – en þar sem yngsta dóttir mín, hún Kolfinna, kaus að koma í heiminn í framhaldi af skólasetningu – átti ég ekki heimangengt. Ég var því víðs fjarri, og það leið heil vika, áður en ég komst vestur með börnin í farangrinum  –  og mömmu, mér til halds og trausts.

Lesa meira

Ógleymanleg veisla

Var það ekki Kiljan sem sagði, að fegursta bókarheiti á íslensku væri: „Frá Djúpi og Ströndum“? Þetta rifjaðist upp fyrir mér um seinustu helgi, þegar við leituðum aftur á fornar slóðir. Við, þ.e.a.s. við Kolfinna, Jón Baldvin og bróðursonur hans, Ari – og Urður Ólafsdóttir vinkona okkar.

Og fornar slóðir? Jú – Jón Baldvin sem segist vera fæddur í Alþýðuhúsinu á Ísafirði, var vistaður í sveit hjá móðurbróður sínum, Hafliða í Ögri, fram undir fermingu. Móðurfrændur hans kenna sig við Strandsel, þar sem fyrsti formaður Alþýðuflokks og forseti ASÍ, Jón Baldvinsson, var fæddur. Hannibal faðir hans, er hins vegar ættaður af Norðurströndum en fæddur í Arnardal við Skutulsfjörð. Sumir segja, að Jón Baldvin sé seinasti maðurinn sem enn talar vestfirsku. Þetta er að vísu ekki rétt, því að ég heyri ekki betur en að Kolfinna, dóttir okkar, tali líka óforbetranlega vestfirsku; hún ólst reyndar upp á Ísafirði og er upp á dag jafnaldri Menntaskólans á Ísafirði.

Lesa meira

Smá leikþáttur úr kommentakerfi fésbókar undanfarna daga:

Anna:
Bókin hennar Bryndísar er alveg yndisleg. Ég grét og ég hló, og ég var alveg lömuð af spenningi. Ég ætla að lesa hana aftur. Hvernig stendur á því að Egill Hallgrímsson hefur ekki ennþá boðið henni í Kiljuna? Gæti það verið af ótta við þessa öfgafemínista?

Egill Hallgrímsson:
Komdu sæl, Ingunn. Nafnið hér fyrir ofan hefur misritast. Það er annar Egill, – Egill Helgason – sem getur boðið henni í Kiljuna. Ég er á öðrum vettvangi. En ég hef áhuga á allri umræðu og öllu því sem mannlegt er, þannig að ég væri vís með að verða mér úti um þessa bók og lesa hana eftir að hafa lesið meðmæli þín með henni.

Anna:
Minn kæri Egill Hallgrímsson,
þarna hefur þú misskilið eitthvað. Auðvitað hefðir þú getað boðið Bryndísi í Kiljuna, ef viljinn hefði verið fyrir hendi. Ég get ekki tekið svona innantómar afsakanir alvarlega.

Lesa meira