Thorvald Stoltenberg, minning

Framundan var utanríkisráðherrafundur Norðurlanda. Á flugvellinum rakst ég á bók með forvitnilegum titli: Norge – een-parti staat. Ég renndi í gegnum þetta í flugvélinni.

Þegar ég kom á skrifstofu Thorvalds í utanríkisráðuneytinu í Osló, fleygði ég bókinni á borðið hjá honum og sagði: „Nú veit ég allt um ykkur“. Thorvald fletti bókinni lauslega, brosti sínu blíðasta og sagði síðan: „Viltu heldur búa við einræði þeirra?“

Við höfðum ekki tíma til að fara ofan í saumana á málinu þá, en svar Thorvalds sat eftir í huga mér. Eftir því sem tíminn líður, verður mér æ oftar hugsað til þessara orðaskipta og veruleikans, sem að baki býr. Enginn véfengir, að vald fjármagnseigenda, atvinnurekenda, stjórnenda stórfyrirtækja – þeirra sem ráða kapitalinu – er mikið. Þeirra er valdið til að ráða og reka.

Það sem Thorvald meinti er þetta: Ef fármagnið nær líka undir sig pólitíska valdinu, verða fjármagnseigendur í reynd einráðir. Þótt þetta gerist í birtingarmynd lýðræðis, er það í reynd einræði. Þarna förum við að nálgast kjarna málsins. Hið sósíaldemókratiska velferðarríki Norðurlanda – norræna módelið – varð til vegna þess, að samtök launafólks – ekki fjármagnseigenda – og hinn pólitíski armur þeirra, jafnaðarmannaflokkarnir, réðu ferðinni. Þeir settu leikreglurnar. Þeir mótuðu skattakerfið. Þeir tryggðu almenningi aðgang að menntun og heilsugæslu, án tillits til efnahags. Þannig efldu þeir frelsi einstaklingsins í verki.

Lesa meira

SAGAN EINS OG HÚN BLASIR VIÐ ÚT UM GLUGGA SÍBERÍUHRAÐLESTARINNAR

Ferðasaga Bryndísar og Jóns Baldvins. Þessi ferðasaga er tileinkuð gestgjöfum okkar,
Gunnari Snorra Gunnarssyni í Beijing og Mörtu Snæfríðardóttur Brancaccia í Berlín.

I.

Jón Baldvin:

Það eru 22 ár frá því við vorum seinast i Kína. Það var árið 1996. Við heimsóttum ellefu borgir á þremur vikum, fórum þvers og kruss um þetta meginland, sem Kína er. Þegar Mao skildi við, árið 1976, eftir rúman aldarfjórðung við stjórnvölinn, voru lífskjör í Kína svipuð og í Bangladesh, ca. 160 dollarar á mann á ári, segir Alþjóðabankinn.
Þegar við vorum hér þá, hafði Deng Xiaoping verið við völd í hálfan annan áratug. Umskiptin voru þá þegar sýnileg í helstu borgum og sveitahéruðum, sem brauðfæddu borgirnar. Opnun Dengs – virkjun markaðsafla undir styrkri stjórn – er stórtækasta og hraðskreiðasta þjóðfélagsbylting, sem sagan kann frá að greina. U.þ.b. 700 milljónum manna (af þessum 1.3 milljarði) hafði verið lyft upp úr miðaldaörbirgð til mannsæmandi lífskjara á undraskömmum tíma. Á liðnum árum hef ég reynt að lesa mér til um þessa super-byltingu af öllum tiltækum gögnum, en vissi þó, að þekking mín var gloppótt.
Vissi varla á hverju ég átti von.

Bryndís

Heimsmeistarakeppnin í fótbolta stóð sem hæst. Jafnvel í Máraþorpinu okkar, efst á þessum hvíta kletti við hafið í Andalúsíu, var allt á öðrum endanum. Karlar á öllum aldri, sem annars virðast aldrei eiga erindi út fyrir hússins dyr – jafnvel konur og börn – þyrptust inn á torgið, þegar leið á kvöldið. Það var búið að koma fyrir stórum sjónvarpsskjá framan við nýja barinn, sem heitir reyndar Boteka, af því að þarna stóð einu sinni apótek. Það var á þeim tíma, sem þorpið á klettinum var og hét.

Þetta var kvöldið sem Ísland datt út úr keppni. Og líka kvöldið, sem nágranni minn gaf mér blómstrandi kaktusafleggjara í sárabætur. Ég hafði aldrei séð blómstrandi kaktus fyrr. Stakk eins og naðra við minnstu snertingu, en í toppinn bar hann rauð blóm, ofurmjúk viðkomu. Nágranninn sagði við mig: Íslendingar eru eins og kaktusinn – harðgerðir, ódrepandi – en blómstra samt. Það síðasta sem ég gerði, áður en við kvöddum húsið okkar að þessu sinni, var að setja afleggjarann í moldarpott á þakinu. Nú er að vita, hvort hann lifir sumarið af.

Lesa meira