Martin Wolf hjá Financial Times, klassískur breskur evruvafri (e. eurosceptic) hældi Íslendingum fyrir að halda sig utan ESB og hallmælti þeim, sem vilja sækja um aðild. Hjá Bretum hefur þokan yfir Ermasundið löngum birgt sýn. Nóbelshagfræðingurinn Krugman er á móti því, rétt eins og ég, að bjarga bönkum á kostnað skattgreiðenda (grísk-írska leiðin). Hann sagði það til fyrirmyndar, að íslensku bankarnir fóru á hausinn – og enginn fékk gert við því – af því að þeim var ekki viðbjargandi (og að „Þjóðverjar“ sátu uppi með 2/3 af skuldunum).
FRÆGÐIN AÐ UTAN
Hvað getur umheimurinn lært af fordæmi Íslands um það, hvernig á að vinna sig út úr kreppu, án þess að slíta í sundur samfélagsvefinn?
Þetta var „ milljóndollaraspurningin“, sem heimsfrægir hagfræðingar voru fengnir til að svara í Hörpunni (var hún ekki annars byggð fyrir Icesave-þýfið mestan part?) um daginn í kveðjuhófi IMF (AGS). Það vakti athygli mína, að hver og einn hinna heimsfrægu fann það helst til eftirbreytni, sem féll eins og flís við rass inn í fyrirfram mótaða mynd þeirra sjálfra um það, hvað bæri að gera og hvað ætti að forðast.