Kannski er sálarháski Íslendinga í upphafi nýrrar aldar sá, að þjóðin hefur enn ekki fundið sér samastað í samfélagi þjóðanna. Við erum ekki lengur á amerísku áhrifasvæði, en hræðsluáróðurinn gegn Evrópusambandinu birgir okkur sýn og leiðir á villigötur. Við erum ein og yfirgefin. Hnípin (skuldug) þjóð í vanda.
Samt er engin umræða um utanríkismál fyrir kosningar. Ég segi utanríkismál – því að umræðan um Evrópusambandið, öfugsnúin og forskrúfuð sem hún er – er auðvitað um innanlandsmál. Hún snýst um það, hvernig fólk og fyrirtæki megi njóta starfsumhverfis eins og tíðkast í grannríkjum okkar. Hún snýst um normaliseringu. Hún snýst um stöðugleika í fjármálum, í verðlagi, vöxtum á lánum og greiðslubyrði skulda, svo að fólk og fyrirtæki geti gert framtíðaráætlanir á sæmilega traustum forsendum. Hún snýst um að skapa 20 þúsund störf fyrir menntað fólk. Hún snýst m.ö.o. um innanríkismál.
Utanríkismál snúast hins vegar um það, hvernig tryggja megi framtíðaröryggi þjóðarinnar fyrir ytri áföllum og erlendri ásælni. Þjóð sem er sokkin í skuldir og hefur áhyggjur af afkomu sinni frá degi til dags, má ekki vera að því að hugsa um framtíðina.
Það kemur því kannski ekki á óvart að það voru varla fleiri en 30 manns, sem komu á Varðbergsfund á Hótel Borg í gærkvöldi (föstudaginn 17.04.) eftir fréttir og Kastljós, til að hlusta á okkur Höllu Gunnarsdóttur rökræða um framtíð NATO í tilefni af 60 ára afmæli hernaðarbandalagsins fyrr í mánuðinum. Við áttum að svara spurningum eins og þessum: Hefur NATO einhverju hlutverki að gegna eftir fall Sovétríkjanna og lok kalda stríðsins? Hvað er bandalag sem átti að verja Evrópu fyrir útþenslustefnu Sovétríkjanna að gera í Afganistan? Er NATO að verða að einhvers konar heimslögreglu?
Í þjónustu hverra, með leyfi? Fara hagsmunir Evrópuríkja ævinlega saman við hagsmuni ameríska heimsveldisins? Er ekki kominn tími til að Evrópa taki sín mál í eigin hendur? Og hvað með Ísland? Hvar á það heima í nýrri heimsmynd?
Það vakti athygli að meirihluti fundargesta var að eigin sögn í klappliði Höllu Gunnarsdóttur frá Vinstri grænum. Öðru vísi mér áður brá! Hér fer á eftir ræðan sem ég flutti á þessum fundi.
1. DÓMUR REYNSLUNNAR
Inngangan í NATO 1949 var umdeild ákvörðun, sem klauf þjóðina í andstæðar fylkingar.Menn greindi á um svör við brennandi spurningum: Var sjálfstæði Íslands raunverulega hætta búin? Hafði reynsla smáþjóða á millistríðsárunum ekki kennt þeim endanlega þá lexíu, að hlutleysið væri haldlaus flík?
Lesa meira