ÞEIR SEM ÞORA lýsir baráttu Eystrasaltsríkjanna, – Eistlands, Lettlands og Litháen, – í skjóli umbótastefnu Mikaels Gorbasjovs, fyrir endurreisn sjálfstæðis þeirra árin 1986 til 1991. Myndin fangar örlagaríka atburðarás sem fór af stað í höfuðborgum Eystrasaltsríkjanna, Vilnius, Riga og Tallinn, í janúar 1991, þegar Sovétherinn reyndi á grimmúðlegan hátt að kæfa anda frelsis og ganga milli bols og höfuðs á hreyfingum sjálfstæðissinna. Á þessari örlagastundu var utanríkisráðherra Íslands, Jón Baldvin Hannibalsson, eini vestræni utanríkisráðherrann sem heimsótti höfuðborgirnar þrjár og sýndi með því stuðning þjóðar sinnar í verki.
Þeir sem þora…
Þegar Mikhail Gorbachev komst til valda árið 1985 varð umbótastefna hans til að blása vindi í segl sjálfstæðishreyfinga í Eystrasaltslöndunum. Alþjóða samfélagið hundsaði hins vegar hjálparbeiðni þeirra. Þá brugðust utanríkisráðherrar tveggja smáþjóða, Íslands og Danmerkur, sem báðir höfðu persónulegan áhuga á málefnum Sovétríkjanna, við neyðarkallinu og gerðust málsvarar sjálfstæðissinna á alþjóðavetvangi.