Kæru vinir.
Á þessu vori, árið 2023, eru liðin 70 ár frá því ég hóf eins konar „samtal“við íslensku þjóðina. Það var vorið 1953. Ég var fimmtán ára og dansaði can-can í Kátu ekkjunni – söngleik sem sló í gegn í nýstofnuðu leikhúsi þjóðarinnar, og gekk fyrir fullu húsi langt fram á sumarið. Can-can er ekki fallegur dans – en sagður kynæsandi. Og ég man, að skólafélagar mínir í MR flykktust í leikhúsið, bara til þess að geta skoðað fótleggina á Bryndísi – að sögn! – Líklega ýkjur.
Nema hvað, að síðan þetta ógleymanlega vor hef ég – að sagt er – stöðugt verið á milli tannanna á fólki, bæði vegna starfa minna í leikhúsinu og síðar í sjónvarpinu – en kannski ekki síst vegna náinna kynna minna af róttækum stjórnmálamanni, sem er bæði hataður af íhaldinu, en ekki síður af kommunum.
Lesa meira