Miguel gerir við þakið
Og nú stóð til að taka húsið í gegn hátt og lágt. Það var kominn tími til, fimm ár. Svo er líka stórafmæli framundan. Þá verður Casa Bryndís – en húsið heitir það – að tjalda sínu fegursta. Við vorum búin að bera upp aðföng, sem til þurfti: stóra dunka af hvítri útimálningu og aðra minni af innimálningu; svart á útihurðir, eirrautt á gluggakarma og svart lakk á járngrindur fyrir gluggum. Þó nokkur byrði að bera. En nú átti að gera þetta faglega, af virðingu fyrir aldagömlum spænskum hefðum. Þess vegna var kallað á Miguel.
CASA BRYNDÍS
Húsið hangir utan í háum kletti. Það er eiginlega samgróið klettinum. Aðgengið er bratt. Okkur greinir á um, hvað þrepin eru mörg upp að Radio Salobrena handan götunnar eða upp að hervirki Hannibals (byggt 228 f.kr.), ögn fjær. Ég held það fari eftir hitastiginu, hversu mörg þrepin eru, þegar við þrömmum upp úr þorpinu í neðra. Þetta er sumsé ævafornt Máraþorp. Húsin eru öll nær undantekningarlaust hvítmáluð. Aðrir litir, sem þykja leyfilegir, eru ýmist svartur, á útihurðir og gluggagrindur, eða eirrauður (terracotta) á gluggakarma og stundum á hurðir, ef eigandinn vill skera sig úr.