LÍFIÐ ER EINS OG HAFIÐ – ÞAÐ GEFUR OG ÞAÐ TEKUR

Ég ætlaði ekkert að gera neitt veður út af afmæli mínu þetta ár – frekar en öll hin. En þegar DV sendi mér póst til Salobrenu og bað mig að uppfæra CV-ið mitt, gerði ég það og sendi til baka. Þá spurðu þeir, hvort ég mundi velja svara átta spurningum í tilefni dagsins, sem ég féllst á að gera. Þær fylgja hér með.


Bryndís Schram í júlí 2013

Lesa meira

Sálarháski eða sölumennska?

Í hvert sinn, sem ég nálgast borgina Granada, kemur upp í huga mér mynd af skáldinu og hugsjónamanninum Federico Garcia Lorca, sem er eitt mest lesna skáld allra tíma. Samt var hann aðeins þrjátíu og átta ára, þegar hann féll fyrir hendi böðla einræðisherra Spánar – Franciscos Franco. Það var árið 1936 í upphafi Borgarastríðsins.

Garcia Lorca var fæddur í litlu þorpi – Fuente de Vaqueros – á sléttunni austan við borgina. Hin hvítu fjöll – Sierra Nevada – rísa í suðri, alhvít sumar sem vetur. Faðir hans var landeigandi, ræktaði rauðrófur og tóbak, en félagar hans voru synir og dætur bændanna, sem unnu á akrinum og áttu vart í sig né á. Það er engu líkara en að bernskuár skáldsins – kynni hans af tregafullum söngvum úr hversdagslegri tilveru hinna hrjáðu og smáðu – hafi markað þá braut, sem hann átti eftir að feta, þau fáu ár sem hann lifði. Það var hann, sem átti mestan þátt í því, ásamt með tónskáldinu Manuel de Falla, að vekja athygli heimsins á hinum vanræktu alþýðusöngvum Andalúsíu. Það sem einkennir þessa söngva (oft við gítarundirleik og dans) er berorð einlægni, óheftar tilfinningar og næstum dýrslegur kraftur – flamenco. Og heimurinn hreifst með.

Lesa meira

CASA BRYNDÍS

Húsið hangir utan í háum kletti. Það er eiginlega samgróið klettinum. Aðgengið er bratt. Okkur greinir á um, hvað þrepin eru mörg upp að Radio Salobrena handan götunnar eða upp að hervirki Hannibals (byggt 228 f.kr.), ögn fjær. Ég held það fari eftir hitastiginu, hversu mörg þrepin eru, þegar við þrömmum upp úr þorpinu í neðra. Þetta er sumsé ævafornt Máraþorp. Húsin eru öll nær undantekningarlaust hvítmáluð. Aðrir litir, sem þykja leyfilegir, eru ýmist svartur, á útihurðir og gluggagrindur, eða eirrauður (terracotta) á gluggakarma og stundum á hurðir, ef eigandinn vill skera sig úr.


Miguel gerir við þakið
Og nú stóð til að taka húsið í gegn hátt og lágt. Það var kominn tími til, fimm ár. Svo er líka stórafmæli framundan. Þá verður Casa Bryndís – en húsið heitir það – að tjalda sínu fegursta. Við vorum búin að bera upp aðföng, sem til þurfti: stóra dunka af hvítri útimálningu og aðra minni af innimálningu; svart á útihurðir, eirrautt á gluggakarma og svart lakk á járngrindur fyrir gluggum. Þó nokkur byrði að bera. En nú átti að gera þetta faglega, af virðingu fyrir aldagömlum spænskum hefðum. Þess vegna var kallað á Miguel.

Lesa meira

Af Möltu og Maltverjum

Eftir að ég birti myndina af mér og JB á Möltu fésbókarsíðunni, ætlaði ég alltaf að segja ykkur frá þessari heillandi eyju, segja frá sögu hennar og grimmilegum örlögum í aldanna rás. Ég ætlaði að segja ykkur frá því, hvernig landlausir yfirstéttargæjar víðsvegar úr Evrópu létu greipar sópa og gerðu eyjarskeggja að þrælahjörð. En lifðu sjálfir í vellystingum undir yfirskyni trúrækni fram á upplýsingaöldina.


Bryndís og Jón Baldvin á Möltu

Ég vissi ekki, að Malta væri svona pínulítil, einn stór klettur úr hafi, og eitthvað svipuð á stærð og Reykjanesið okkar heima – þar sem er varla rúm fyrir nokkur þúsund fyrirferðarmikla Suðurnesjabúa. Á Möltu búa yfir fjögur hundruð þúsund manns, svo þið getið ímyndað ykkur, hve þrengslin eru mikil – ég tala nú ekki um á sumrin, þegar tala íbúa margfaldast. Reyndar er eyjan eins og eitt stórt hótel, þar sem eyjarskeggjar keppast við að láta fara vel um gesti sína, sýna þeim virðingu og þjónustulund, alltaf brosandi og glaðir og virðast njóta þess í botn að þjóna og þrífa. Malta hét áður fyrr Melita, en það nafn er dregið af orðinu „miel“, sem þýðir hunang. Hunang er eins konar þjóðarréttur Maltverja, þeir borða það meira að segja með ostum – sem er reyndar hungangsgott.

Lesa meira

Ferðalög

Einn góður vinur minn skrifað mér um daginn og spurði, hvað ég væri að þvælast á sólarströndum Spánar, sem gerði mig bæði gamla fyrir aldur fram og og væri ekkert nema tímasóun. Hér kemur svarið, sem ég sendi honum seint og um síðir:

Þegar ég var yngri, vildi ég helst alltaf vera að ferðast, búa í ferðatöskum, með börnin í aftursætinu og láta hverjum degi nægja sína þjáningu. Jón Baldvin sagði oft: Svín fór að Rín, kom aftur svín.

Ég sé það núna, að það var svolítið til í þessu hjá honum. Þessi tilgangslausu ferðalög með stuttri viðkomu og stressi, skilja kannski eftir einhverjar minningar um mannlíf eða landslag, en breyta engu og hafa engin varanleg árif.

Lesa meira

SEX AND SUCCESS

Ég var að lesa grein eftir Alison Wolf, þekktan félagsfræðing, Sex and Succes (The Spectator, 27.4.), en hún hefur verið að kanna breytingar á undanförnum árum á stöðu kvenna í Bandaríkjunum og Evrópu. Þessi grein vakti mikla athygli og mig til umhugsunar. Ég fór að hugsa heim og um stöðu kvenna þar.

Einu sinni var takmarkið, að konur nytu jafnréttis á við karlmenn. Konur stóðu saman þvert á stétt og stöðu. Og sú barátta bar árangur. Nú er svo komið, að konur eru í meirihluta þeirra, sem stunda framhaldsnám, háskólanám, sérhæft nám. Þessum konum standa allar dyr opnar. Þær eru fyrirvinnur alveg til jafns við eiginmenn sína. Þetta á við um landið okkar alveg eins og annars staðar meðal þróaðra þjóða.

Lesa meira

Andreotti allur

Það eru aðeins örfáir dagar síðan visnar greinar trjánna voru enn að fálma skjálfandi út í grátt andrúmsloftið – en nú skyndilega er allt orðið iðagrænt og fagurt í Vilníus. Ég er komin úr lopapeysunni og klæðist hvítri silkiskyrtu, og er berfætt í skónum – en það er ég nú reyndar allt árið. Nema hvað, ég var að ganga niður Dídíargötu (Aðalstræti) á leið til blaðasjoppunnar á torginu framan við dómkirkjuna. Þar getur maður keypt erlend blöð og tímarit á „skiljanlegum“ tungumálum. Allt umhverfið svo notalegt og ljúft. Á bekkjum undir kirkjuveggnum haldast elskendur í hendur og á þakinu hjúfra sig turtildúfur hver upp að annarri, því að nú fer í hönd tími ástarinnar. Túristarnir eru þegar komnir á kreik og sestir í þægileg sæti á gangstéttinni með bjórkollu í fanginu. Góð byrjun á degi.

Þegar ég kem að blaðasölunni, blasir við gamalkunnugt andlit á forsíðunum. Giulio Andreotti! – Látinn er í hárri elli skuggabaldur ítölsku mafíunnar um áratugaskeið – þrisvar sinnum forsætisráðherra á tímabilinu 1972 – 89, (þegar Ítalir skiptu um ríkisstjórnir eins og nærföt – eða á ég a segja sokka?) Erki kaþólikki, trúnaðarvinur páfanna og hinn fámáli verndari mafíunnar bak við tjöldin. Mættur eldsnemma á hverjum morgni til messu, og þegar hann kom út, hópuðust betlararnir utan um hann. Á kirkutröppunum útbýtti Andreotti ölmusum til að friða samviskuna. Sannur kaþólikki.

Lesa meira

Rétt eins og á Vinstri bakkanum

Árið 2009 fagnaði Vilnius þúsund ára afmæli sínu og er, að sögn, ein af elstu heillegu borgum Mið-Evrópu. Hér má ekki hrófla við neinu, því að UNESCO hefur tekið gamla bæinn undir sín vökulu augu og forbýður, að heildarsvipnum sé raskað. Borgin er ýmist nefnd Aþena norðursins, eða Baroque borgin norðan Alpafjalla. Hér mætast austrið og vestrið. Þannig hefur það verið alveg frá því að Litháar voru stórveldi og lögðu undir sig löndin í austri, allt suður til Svarta hafsins, þar til landið lenti undir hrammi tveggja stórvelda sitt til hvorrar handar, Rússa og Pólverja. Öllu slær saman í eina órofa harmóníu lita og lögunar. Borgin hefur róandi áhrif með sínum lágreistu húsum og mildu litum. Mér er sagt, að það séu fimmtíu og þrjár kirkjur í Vilníus. Það er sama, hvar maður tyllir niður fæti á gönguferð um borgina, alls staðar blasa við hinar fegurstu byggingar, ýmist orthodox, kaþólskar, lútherstrúar eða sínagógur – hver með sínu lagi. Þetta bendir til þess, að Litháar hafi verið menntaðir og frjálslyndir.

Húsið, sem við búum í, stendur í húsagarði við Didzioji Gatvu (Aðalstræti) sem er eins og okkar Aðalstræti, elsta gata borgarinnar. Það er hljótt í garðinum, oftast fáir á ferli, nema dugnaðarlegar konur að skjótast á milli húsa með skúringafötur. En úti á götunni er ys og þys. Það er engu líkara en, að maður detti beint inn í fjörlega leiksýningu, sem er reyndar löngu hafin. Efst á sviðinu trónir ráðhúsið, tíguleg bygging með sex nýklassiskum súlum í forgrunni. Kaffihús og barir hafa breitt úr sér um allt torgið, rauðköflóttir dúkar blakta í vorgolunni, borð við borð. Samt er ekkert sæti laust. Þjónar eru á hlaupum með bakka og glös, allir hlæjandi og mas-andi. Sólin er enn heit, þótt dagur sé að kveldi kominn. Og engum liggur á.

Lesa meira

Á gamlaársdag 1958

Ég man það alveg, hvenær það var, sem augu mín opnuðust fyrir grimmilegum örlögum smáþjóða handan Eystrasaltsins, í nábýli Norðurlanda. Það var í París á gamlaársdag 1958. Ég hafði leigt mér ódýrt herbergi um haustið- einhverjir göntuðust með það, að það hefði verið á hóruhúsi – og drengurinn hafði komið í heimsókn um jólin – Jón Baldvin, tæplega tvítugur. Amma hans, Guðríður, hafði dáið þennan dag, og drengurinn grét í fanginu á mér (ég hef bara séð hann gráta tvisvar um ævina).

Svo fór hann að segja mér frá nýútkominni bók, sem hann hafði verið að lesa í Edinborg þetta haust. Hún hét „The Last Empire“ eftir Robert Conquest, og fjallaði um hrikaleg örlög þjóðanna við Eystrasalt í Seinni heimstyrjöldinni og á næstu áratugum. Fjöldamorðingjarnir, Hitler og Stalín, skiptu Austur-Evrópu á milli sín. Herir beggja, Rauði herinn og þýsku nasistarnir, óðu um löndin, rænandi, ruplandi og myrðandi. Í stríðslok voru Eystraltsþjóðirnar þrjár innlimaðar í Sovétríkin með hervaldi. Þá byrjaði martröð þessara þjóða fyrir alvöru, eins og áður er lýst.

Lesa meira

Minnigarorð um Margréti frá Dalsmynni

Fyrsta minning mín um Margréti í Dalsmynni var, þar sem hún kom í bæinn færandi hendi með ull til ömmu minnar, Margrétar Magnúsdóttur. Þetta voru vöruskipti milli bóndakonunnar og sjómannskonunnar. Margrét í Dalsmynni hafði fyrir mörgum börnum að sjá. Amma mín átti fjölda barnabarna og sendi nöfnu sinni í Dalsmynni föt af þeim handa ungviðinu. Í staðinn fékk hún ullina.

Hversu oft sat ég ekki við fótskör ömmu á dimmum vetrarkvöldum, þar sem hún steig rokkinn og spann ullina frá Dalsmynni. Hún spann fínan þráð og prjónaði nærboli á okkur krakkana. Svo prjónaði hún líka nærbuxur – ögn þykkari – og klukkur svokallaðar, sem við stelpurnar klæddumst undir kjólunum. – Þess vegna varð okkur aldrei misdægurt í kuldahretum.

Lesa meira