Það var alla vega hlýtt og notalegt í íbúðinni, sem okkur var vísað í – hátt til lofts og stórir gluggar, rósettur í loftinu, nítjándu aldar bragur. Það beið okkar við dyrnar brosandi stúlka, Modesta, sem afhenti okkur lyklana, sagði okkur frá einu matvöruversluninni í götunni og kenndi okkur á tæknina – nettengingu, fjarstýringu, öryggiskerfi og þvottavél. – Mikið getur maður stundum verið heimskur frammi fyrir einföldustu hlutum, sem allir aðrir skilja eins og skot – Nema hvað, að það kjaftaði hver tuska á Modestu, sem reyndist vera bráðskemmtileg og harðgreind. Hún stundar hagfræðinám við háskólann með vinnu hjá leigufyrirtækinu og fer létt með það, segir hún.
Vor í Vilnius
Það voru enn subbulegir snjóskaflar á torginu hér fyrir framan, þegar við renndum upp að húsinu seint að kveldi þann 7. apríl s.l. Það andaði köldu. Enn ekki komið vor. Sem betur fer var ég með skinnhúfuna frá Spaksmannsspjörum á höfðinu, þó svo að ég hefði skilið vetrarfeldinn eftir heima. Ef manni er hlýtt á höfðinu, er manni hlýtt um allan kroppinn, ekki satt? Svo var ég með nóg af sjölum og treflum til að vefja um mig, ef vorið léti á sér standa.