Ég finn hamingjuna hríslast fram í fingurgóma.

Fyrir fjörutíu árum útskrifaði ég glæsilegan hóp stúdenta frá Menntaskólanum á Ísafirði. Í dag fagnar þessi sami hópur tímamótum á sama stað. Ég sakna þess að vera ekki með – það mundi hafa verið gaman – en læt mér nægja að senda hamingjuóskir frá fjarlægum slóðum og læt meðfylgjandi texta fylgja:

HUGSAÐ VESTUR

Það er vor við Dumbshaf. Dagur og nótt renna saman í annarlegri birtu næturinnar. Tíminn stendur í stað. Ég sit fremst á gömlu bæjarbryggjunni. Hún er að niðurlotum komin og löngu hætt að vera nafli þessa litla bæjarfélags. Tveir þöglir mávar húka hvor á sínum stampi, bíða þess að bærinn vakni og gefi þeim eitthvað í svanginn. Ég er að bíða þess, að andinn komi yfir mig.
Hérna sitjum við öll þrjú – og horfum óþreyjufull yfir sofandi bæinn, þessa ósamstæðu húsaþyrpingu, sem virðist eins og ögrun við veggbrött fjöllin til beggja handa. Það bærist ekki hár á höfði. Niðri í fjörugrjótinu eru tveir ástsjúkir kettir að teygja úr sér morgunhrollinn. Annar þeirra er með blátt band um hálsinn. Skyldi hann ekki fá skömm í hattinn, þegar hann snýr heim eftir ævintýri næturinnar!

Trillukarlarnir eru komir á stjá, og bátarnir farnir að hósta út í lognið. Hvað er betra í þessari nóttlausu voraldarveröld en að vera trillukarl? Ég virði fyrir mér, hvernig stefnið klýfur sléttan hafflötinn og sólargeislarnir velta sér í kjölfarinu.

Lesa meira

(Ó)heiðarleg blaðamennska

„…það var ekki fyrr en sjálfstæð eftirlitsstofnun – Umboðsmaður Alþingis – tók ákvörðun um að rannsaka málið, sem sannleikurinn um óheiðarleikann kom fram.“
Jón Trausti Reynisson ritstjóri (í leiðara Stundarinnar 30.03.17)

Í grein í Stundinni ( 30.03.17), sem á að vera upprifjun á næstum 30 ára gamalli frétt, tekur Reynir Traustason á sig krók til að vekja upp gamlan draug. Um hvað snerist það nú aftur? Jú, það var verið að reyna að telja fólki trú um, að við Jón Baldvin værum þjófar. Pólitískur skítabissness þá. Já – en mundi nú vera kallað falsfrétt. Af hverju fals? Vegna þess að „sjálfstæð eftirlitsstofnun“ – Ríkisendurskoðun – hafði rannsakað málið og kveðið upp úrskurð um að þetta væru ósannindi.

Hver var hinn meinti glæpur? Tveimur risnureikningum frá fjármálaráðherratíð Jóns Baldvins (1987–88), þar sem tilefnis var ekki getið, var lekið til fjölmiðla. Þar sem ég hélt upp á fimmtugsafmælið mitt sumarið 1988, var það látið fylgja sögunni, að „grunur léki á“, að Jón Baldvin hefði látið fjármálaráðuneytið kosta veisluna.

Lesa meira

Ekkert breytist

Fyrir næstum tuttugu árum tók ég viðtal fyrir útvarpið (Rás 1), við kunnan athafnamann í Reykjavík, sem hafði alist upp í “Pólunum” svokölluðum. Pólarnir voru stórt og fremur hrörlegt hús í eigu Reykjavíkurborgar, sem stóð ofanvert við flugvöllinn í Vatnsmýrinni langt fram eftir síðustu öld. Það hýsti fátækt fólk – aðallega barnmargar fjölskyldur, sem voru eigna- og atvinnulausar. Á þessum árum, snemma á fjórða áratugnum, ríkti kreppa á Íslandi sem og annars staðar í heiminum, og áttu margir um sárt að binda.

Lög í okkar landi á þessum tíma mæltu svo fyrir, að þeir sem þæðu af sveit, þ.e.a.s fengju framfærslustyrk frá bæjaryfirvöldum, – væru sviptir kosningarétti, nytu sem sagt ekki sömu réttinda og þeir, sem áttu eignir eða voru með örugga atvinnu.

Lesa meira

Hinn slavneski lífsháski

Mig hafði aldrei órað fyrir því, að ég mundi einn góðan veðurdag standa á Maidan, þessu sögulega torgi í Kyiv, höfuðborg Úkraínu, þar sem óþreyjufullir borgarar komu saman fyrir rétt rúmu ári í uppreisn gegn spillingu stjórnvalda – heimtaði réttlæti og sanngirni, betra líf, bjartari framtíð – á torginu, þar sem byltingin breyttist í blóðbað og hinir hugdjörfu féllu fyrir byssukúlum leigumorðingja, forsetinn flúði land, boxarinn, Klitschko, varð borgarstjóri, og súkkulaðikóngurinn, Poroschenko forseti.

Hvítar steinhellurnar bera enn lit blóðsins, fánarnir standa uppi og myndir af hinum föllnu blasa við forvitnum ferðalöngum. “En hvar eru öll blómin”, spurði ég leiðsögukonuna. “ Þú átt við blómin, sem fólk bar að til að heiðra minningu hinna föllnu? Hér var mikið blómahaf, alveg rétt, en í skjóli nætur voru blómin hirt og seld aftur sem ný daginn eftir”, sagði hún og glotti. Ég horfði á hana undrandi og hrygg – jafnvel á örlagastundu er maðurinn samur við sig.

Sólin var komin hátt á loft. Samt andaði köldu, miður apríl. Það var hrollur í mér.

Að vísu höfðum við haft einhvern pata af því, að gestgjafar okkar væru bankamenn með einhver umsvif í Eistlandi. Þess vegna spurðum við eistneska vini frá fornu fari, hvort þetta væru fjárplógsmenn? Þeir fullvissuðu okkur um, að þessi náungar væru O.K. Engin furða. Það sem vakti fyrir ólígarkanum, sem átti bankann, var að koma því til skila til hinna ofurríku – og hinna næstum því ríku í Úkraínu – að peningarnir þeirra væru í öruggu skattaskjóli í Eistlandi. Eistland væri hið nýja Sviss norðursins. Bara öruggara!

Lesa meira

í vitnastúku sögunnar

Ég klæðist svörtum, skósíðum kjól þennan dag. Mér finnst það einhvern veginn við hæfi. Athöfnin fer fram í Kirkju hins heilaga Jóhannesar skírara, sem byggð var 200 árum áður en seinasti kaþólski biskupinn var hálshöggvinn á Íslandi. En hér í Litáen eru þeir enn kaþólskir.

Kirkjan er ægifögur. Hún er svo stór, að líkneski postulanna tólf í fullri líkamsstærð rúmast öll inni við altarið. Ég er leidd inn kirkjugólfið og vísað til sætis á fremsta bekk, hægra megin. Þar sit ég alein. Annars er hver bekkur í kirkjunni setinn. Hægra megin þrófessorar í fullum skrúða, en vinstra megin venjulegir borgarar, þar á meðal sendiherrar Norðurlanda, og margra Evrópulanda – nema Íslands. Þegar ég leyfi mér að skyggnast yfir ganginn, kem ég auga á nokkra góða vini í hópnum. Ég brosi í laumi og veifa feimnislega. Með tímanum höfum við eignast hér marga vini, ekki bara úr pólitíkinni, heldur líka úr lista- og menningarlífi borgarinnar. Það er gott að vera meðal vina.

Lesa meira

Heimspekingur undir stýri

Ég sat fyrir aftan bílstjórasætið, svo að ég sá eiginlega aldrei andlitið á honum – nema þegar hann sneri sér einstaka sinnum við til að leggja áherslu á orð sín. Við mér blasti gríðarstórt bjúgnef og grár hárlubbi, sem hékk yfir rúnum ristu enni. Hann var ekki beint fallegur – en karlmannlegur og glaðlegur. Hendurnar snertu vart stýrið. Þær hreyfðust í takt við orð hans, eins og Ítala er háttur – enda reyndist hann vera ættaður frá Sikiley og hét Catalano – já, það voru ekki bara íslenskir sjómenn, sem áttu kærustu í hverri höfn i den!

Hann talaði non-stop – lá mikið á hjarta. Það var engu líkara en að hann hefði verið að bíða eftir okkur. – Fjölskyldan hafði flúið fátækt og basl stríðsáranna, þegar hann var örlítill hnokki. Hann hafði því lært sína ensku í Toronto – en með ítölskum hreim þó – það fór ekki fram hjá neinum. Nema hvað, að allt þetta var hann eiginlega búinn að segja okkur, áður en við vorum lögðum af stað út á flugvöll.
Við hugsum til áranna fyrir vestan – þegar verið var að skapa Menntaskólann á Ísafirði frá grunni – sem blómaskeiðs. Frá upphafi voru vonir bundnar við, að með stofnun skólans mundi Vestfjörðum haldast betur á ungu atgervisfólki. Þær vonir, einar og sér, voru kannski ekki raunhæfar. Meira þurfti að koma til. Engu að síður hefur skólinn átt sinn þátt í því að gera flóru mannlífsins, einkum í höfuðstað Vestfjarða, fjölbreyttari og lífvænlegri.
Það stóð yfir maraþonhlaup í borginni þennan sunnudagsmorgun, svo að helstu götur voru lokaðar bílaumferð. Þess vegna urðum við að fara ótal krókaleiðir og þræða úthverfin. Catalano sagðist þekkja borgina eins og lófann á sér, búinn að vera leigubílstjóri frá fimmtán ára. Að vísu löngu kominn á eftirlaun. Nú væri hann bara að skemmta sér – og vinna sér inn smávasapening í leiðinni.

Lesa meira

Ekkert er eins og var

Stundum, þegar ég vakna við sólarupprás, finnst mér eins og tíminn standi í stað í þessu værðarlega þorpi uppi á kletti við hafið. Þögnin er svo þung, að ég nem andardrátt hafsins hingað upp í gluggann til mín, reglubundinn og sefandi. Aðeins þunglyndislegt eintal uglunnar rýfur þögnina – og hundgá öðru hverju. Einhvers staðar nærri fer bíll í gang. Af hverju ætti ég að fara á fætur?

En smám saman breiðir sólin út faðminn, og flögrandi tónar boða kyrrðarstund í þorpskirkjunni. Hér eru allir kaþólskir.

Svona hefur þetta alltaf verið. Hér breytist ekkert.

Húsin í þorpinu standa uppi af gömlum vana. Þau eru eins og mannfólkið, þurfa alúð og nærgætni – stöðugt þarf að hvítta og tjarga og bæta og staga. Annars hverfa þau inn í sjálf sig og verða óvistleg, þessi hús.

Fólkið í þorpinu eru þeir sem eftir urðu, þegar aðrir efnuðust og fluttu burt – inn í nútímann. Til skamms tíma var hér ekkert rennandi vatn, og enn eru engin nútímaþægindi – enda hafa íbúarnir aldrei kynnst neinum munaði – alltaf verið fátækir og nægjusamir. Franco elskaði ekki þessa þjóð. Hann fyrirleit hana og ofsótti.

Lesa meira

Á hraðbrautum lífsins

Við vorum á hraðbrautinni á ca. 130 og stefndum á Antwerpen – eða öllu heldur á Gent, sem er á milli Brügge og Antwerpen. Þrjár akreinar. Ég var á miðjunni, þandi litla krýlið – Peugot 206, árgerð 1999 – fram úr trukkum, húsbílum og barnafjölskyldum með attaníhoss. Vinstra megin við mig geystust þýsku bensarnir á 180 til 200. Þeir sáust varla, en hvinurinn af oflætinu hljómaði eins og loftárás. Það var allt á fullu!

Hringir ekki síminn. Nei, Binni frændi – hæ! – Binni frændi býr rétt hjá Ostende í Belgíu. Hann er einn af þeim, sem hafa græna fingur – getur gert við hvað sem er, allt frá saumavélum upp í flugvélar, og hefur haldið heilum flugflotum á lofti vítt og breitt um Evrópu, Ameríku og Afríku.

Hvar eruð þið stödd í tilverunni, elskan? spyr hann.

Lesa meira

Stríð eða friður – í viðtengingarhætti

Það var rétt eins og tveir gamlir vinir og bræður í anda væru að hittast eftir langan aðskilnað – þeir féllust í faðma, kysstu hvor annan á báða vanga og horfðust brosandi í augu: „Þú hefur yngst um tíu ár, svei mér þá,“ sagði Jorge Mario Bergoglio á ítölsku. „Þú ert að grínast“ svaraði Mahmud Abbas, hlæjandi, á arabísku. Þetta var túlkað jafnóðum af ritara páfa, sem er annálaður fjöltyngdur fræðimaður. – Það var reyndar ekki svo langt síðan þessir tveir menn höfðu hist í skuggsælum garði á bak við Vatikanið. Páfinn hafði lýst yfir stuðningi við sjálfstætt ríki Palestínu (alveg eins og Össur okkar), og þar í garðinum voru friðarins menn mættir til að funda.

Nema hvað, að núna var Mahmud Abbas, foringi Palestínumanna, kominn á ný til að hitta páfa. Að þessu sinni stóð til að hengja á hann æðstu orðu – friðarorðu, sem bara vænstu mönnum er veitt í viðurkenningarskyni. Gott ef það er ekki upphleypt mynd af engli úr bronsi.

Lesa meira