Trillukarlarnir eru komir á stjá, og bátarnir farnir að hósta út í lognið. Hvað er betra í þessari nóttlausu voraldarveröld en að vera trillukarl? Ég virði fyrir mér, hvernig stefnið klýfur sléttan hafflötinn og sólargeislarnir velta sér í kjölfarinu.
Ég finn hamingjuna hríslast fram í fingurgóma.
Fyrir fjörutíu árum útskrifaði ég glæsilegan hóp stúdenta frá Menntaskólanum á Ísafirði. Í dag fagnar þessi sami hópur tímamótum á sama stað. Ég sakna þess að vera ekki með – það mundi hafa verið gaman – en læt mér nægja að senda hamingjuóskir frá fjarlægum slóðum og læt meðfylgjandi texta fylgja:
HUGSAÐ VESTUR
Það er vor við Dumbshaf. Dagur og nótt renna saman í annarlegri birtu næturinnar. Tíminn stendur í stað. Ég sit fremst á gömlu bæjarbryggjunni. Hún er að niðurlotum komin og löngu hætt að vera nafli þessa litla bæjarfélags. Tveir þöglir mávar húka hvor á sínum stampi, bíða þess að bærinn vakni og gefi þeim eitthvað í svanginn. Ég er að bíða þess, að andinn komi yfir mig.
Hérna sitjum við öll þrjú – og horfum óþreyjufull yfir sofandi bæinn, þessa ósamstæðu húsaþyrpingu, sem virðist eins og ögrun við veggbrött fjöllin til beggja handa. Það bærist ekki hár á höfði. Niðri í fjörugrjótinu eru tveir ástsjúkir kettir að teygja úr sér morgunhrollinn. Annar þeirra er með blátt band um hálsinn. Skyldi hann ekki fá skömm í hattinn, þegar hann snýr heim eftir ævintýri næturinnar!