Sem ég er að beygja burt undan sólinni og inn í eitt gljúfrið, stendur ekki groddalegur karlmaður, merktur Guardia Civil, við vegkantinn og gefur okkur merki um að nema staðar. – Satt að segja fæ ég alltaf smáhræðslukast, þegar spænska löggan er annars vegar. Og frá því var engin undantekning að þessu sinni, þó svo að ég væri bæði bláedrú, með beltið spennt og glænýtt ökustírteini í töskunni. Maðurinn var merktur Guardia Civil, nota bene – ekki Policia. Þeir eru komnir aftur – falangistarnir – hin sauðtryggu handbendi ógnarstjórnarinnar, sem voru þekkt fyrir algert miskunnarleysi í samskiptum við saklaust fólk.
Að myrða yndi sitt
Ég átti mér einskis ills von þennan fagra föstudagsmorgun. Sólhvítur himinninn rann saman við hafið bláa, sem bærðist varla í logninu. Við vorum að aka eftir N340, sem er gamla þjóðbrautin með sjónum á milli Malaga og Almeríu. Vegurinn ýmist hangir utan í snarbröttum klettaveggjum eða beygir inn í djúp gljúfur, þar sem jafnvel sólin sjálf nær ekki að skína í morgunsárið. Ég sat undir stýri. Við ætluðum á markaðinn í Almunecar.