Nema hvað, að núna var Mahmud Abbas, foringi Palestínumanna, kominn á ný til að hitta páfa. Að þessu sinni stóð til að hengja á hann æðstu orðu – friðarorðu, sem bara vænstu mönnum er veitt í viðurkenningarskyni. Gott ef það er ekki upphleypt mynd af engli úr bronsi.
Stríð eða friður – í viðtengingarhætti
Það var rétt eins og tveir gamlir vinir og bræður í anda væru að hittast eftir langan aðskilnað – þeir féllust í faðma, kysstu hvor annan á báða vanga og horfðust brosandi í augu: „Þú hefur yngst um tíu ár, svei mér þá,“ sagði Jorge Mario Bergoglio á ítölsku. „Þú ert að grínast“ svaraði Mahmud Abbas, hlæjandi, á arabísku. Þetta var túlkað jafnóðum af ritara páfa, sem er annálaður fjöltyngdur fræðimaður. – Það var reyndar ekki svo langt síðan þessir tveir menn höfðu hist í skuggsælum garði á bak við Vatikanið. Páfinn hafði lýst yfir stuðningi við sjálfstætt ríki Palestínu (alveg eins og Össur okkar), og þar í garðinum voru friðarins menn mættir til að funda.