Tvisvar verður gamall maður barn, segir máltækið. „Þú ferð aldrei á elliheimili, ég skal passa þig,“ sagði ég oft við pabba minn á góðum stundum. Þá var hann enn í fullu fjöri, átti heiminn, glæsilegur, örlátur og stórhuga – sterkur persónuleiki. Að vísu ekki verkfræðingur, eins og André, heldur stórkaupmaður, sem átti fyrir mörgum að sjá. En þrátt fyrir stór orð og fögur fyrirheit, þá endaði pabbi sitt líf á dvalarheimili aldraðra. Þar sáu góðar konur – ókunnugar konur – um, að hann tæki lyfin sín, hreyfði sig og borðaði reglulega. Ég var víðs fjarri, stungin af. Ég brást honum, þegar á reyndi. Hann sem var alla tíð svo góður við mig, elskaði mig ofurheitt – en ég brást. Og ég hef aldrei fyrirgefið sjálfri mér.
Samviskubit?
Höfundur: Florian Zeller
Leikstjóri: Kristín Jóhannesdóttir
Leikarar: Eggert Þorleifsson, Edda Arnljótsdóttir, Harpa Arnardóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson, Þröstur Leó Gunnarsson
Leikmynd: Stígur Steinþórsson
Búningar: Þórunn María Jónsdóttir
Lýsing: Halldór Örn Óskarsson
Tónlist: Borgar Magnason
Hljóðmynd: Elvar Geir Sævarsson og Borgar Magnason
Þýðing: Kristján Þórður Hrafnsson
Mér varð óneitanlega oft hugsað til míns eigin föður í gærkvöldi, þar sem ég sat í leikhúsinu og ýmist grét eða hló yfir ömurlegum elliglöpum André gamla (sem er leikinn af Eggerti Þorleifssyni) – hvernig hann smám saman gefst upp fyrir ellinni, er yfirbugaður, kominn á stofnun og hættur að vera til.