Þótt hann væri borinn og barnfæddur Ísfirðingur – líkt og ég – kom okkur saman um það síðar á lífsleiðinni, að innst inni værum við frá Djúpi og Ströndum. Við værum aldir upp á slóðum Fóstbræðrasögu – nánar tiltekið á 13du öld.
Hvernig þá? Nú, á hverju sumri frá því skóla lauk, fram að fermingaraldri, vorum við vistaðir inni í Djúpi: Hann að Eyri í Seyðisfirði. Ég í Ögri. Og umhverfi og aldarfar minnti meira á 13du öldina en seinni helming 20stu aldar.
Það voru hvorki vegir, brýr né bryggjur, né heldur traktorar eða turbo- trukkar. Ef þú þurftir að bregða þér bæjaleið, var farið á hestbaki eða jafnvel undir seglum. Víst var komin vél í bát, en þar með flykktist fólkið burt úr sveitinni í verstöðvarnar. Þess vegna urðum við Ísfirðingar.
Lesa meira