HVAÐ ER EES?[i]
EES-SAMNINGURINN var á sínum tíma gerður á milli EFTA-ríkjanna sex (Finnland, Svíþjóð, Noregur, Ísland og Alparíkin Sviss og Austurríki, – Liechtenstein bættist seinna í hópinn – og Evrópubandalagsins/Evrópusambandsins. Samningurinn var um aðild EFTA-ríkjanna að innri markaði Evrópusambandsins (ESB). Hann var undirritaður 2.maí 1992 en gekk í gildi í ársbyrjun 1994. Hann er því 30 ára á þessu ári.
Hér á eftir er reynt að leggja mat á árangurinn, kosti og galla. Samningurinn var frá upphafi afar umdeildur. Umræður um hann á Alþingi Íslendinga tóku lengri tíma en á þjóðþingum hinna EFTA-ríkjanna til samans. Alþýðuflokkurinn var eini stjórnmála-flokkurinn, sem beitti sér fyrir samþykkt hans, heill og óskiptur, frá upphafi til enda.
Samningurinn er hluti af samrunaferli Evrópuríkja eftir seinna stríð: Tilgangur samrunaferlisins var að fyrirbyggja stríð í Evrópu. Kjörorðið var: Aldrei aftur! Helstu áfangarnir voru þessir:
- Kola- og stálbandalagið (1952). Sameiginleg yfirstjórn vopnaiðnaðarins átti að úiloka stríð.
- Rómarsáttmálinn um efnahagsbandalag sex-veldanna 1957 (Frakkland, Þýskaland, Ítalía og Benelúxlöndin).
- Evrópubandalagið (1967 –93 ) og loks Evrópusambandið (1993 – ).
Stjórnunarhættir ESB hafa þróast áfram með grundvallarsáttmálum sem kenndir eru við Maastricht (1993), Amsterdam (1997), Nice (2001) og Lissabon (2009).[ii] Aðildarríkin, sem voru upphaflega sex, eru nú 27 – eftir útgöngu Breta.
Lesa meira