Í ritgerð sem sagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson skrifaði á síðasta ári um stuðning Íslands við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóðanna, segir hann á einum stað: „Fögnum því … að aldarfjórðungur er síðan þjóðirnar þrjár við Eystrasalt endurheimtu sjálfstæði sitt. Minnumst líka frumkvæðis Jóns Baldvins Hannibalssonar. Án hans hefði Ísland lítt átt hlut að máli. Það þurfti einhvern af hans tagi á stóli utanríkisráðherra, hrifnæman og óvenjulegan ástríðupólitíkus, með óþol gagnvart yfirlæti margra vestrænna valdhafa í garð Íslendinga og annarra smáþjóða – og óskipta samúð með íbúunum við Eystrasalt.“
Viðtal Kolbrúnar Bergþórsdóttur við Jón Baldvin Hannibalsson í DV
Aldarfjórðungur er liðinn frá því að Eystrasaltsþjóðirnar þrjár, Eistland, Lettland og Litáen, endurheimtu sjálfstæði sitt. Ísland studdi sjálfstæðisbaráttu landanna með eftirminnilegum hætti, en Jón Baldvin Hannibalsson þáverandi utanríkisráðherra fór til landanna þriggja í janúar 199, þegar sovéskar sérsveitir voru að myrða almenna borgara. Seinna þetta sama ár tóku íslensk stjórnvöld upp stjórnmálasamband við ríkin þrjú, fyrst Vesturlanda.