Eiríkur fékk Guðna Th. – annálaðan sagnfræðing og virtan álitsgjafa – til að ganga til spurninga. Er lífið saltfiskur, var spurt – og svar sagnfræðingsins var já. Þora Íslendingar að styðja lög og rétt í samskiptum þjóða? Eða lúffa þeir alltaf, þegar á reynir, ef komið er við pyngjuna? Ef fiskmarkaðir eru í hættu? Svar sagnfræðingsins var: Lífið er saltfiskur – Íslendingar lúffa alltaf, þegar á reynir.
Kemur fiskur í staðinn fyrir „foreign policy“ á Íslandi? Makríll í staðinn fyrir mannréttindi? Hagsmunir í staðinn fyrir hugsjónir – prinsip, grundvallarsjónarmið?
Þetta var meðal þeirra spurninga, sem Eiríkur í Víðsjá, (RÚV) reifaði miðvikudaginn 23. sept. s.l.. Allt saman þýðingarmiklar spurningar – og tilefni til að leita svara ærin: lífsháski Úkraínu- og Palestínumanna frammi fyrir yfirþyrmandi hervaldi; sjálfsákvörðunarréttur þjóða frammi fyrir hernaðarofbeldi; mannréttindi hinna varnarlausu frammi fyrir drápsmaskínum styrjalda. Kemur þetta okkur við?