Kemur fiskur í staðinn fyrir „foreign policy“ á Íslandi? Makríll í staðinn fyrir mannréttindi? Hagsmunir í staðinn fyrir hugsjónir – prinsip, grundvallarsjónarmið?

Þetta var meðal þeirra spurninga, sem Eiríkur í Víðsjá, (RÚV) reifaði miðvikudaginn 23. sept. s.l.. Allt saman þýðingarmiklar spurningar – og tilefni til að leita svara ærin: lífsháski Úkraínu- og Palestínumanna frammi fyrir yfirþyrmandi hervaldi; sjálfsákvörðunarréttur þjóða frammi fyrir hernaðarofbeldi; mannréttindi hinna varnarlausu frammi fyrir drápsmaskínum styrjalda. Kemur þetta okkur við?

Eiríkur fékk Guðna Th. – annálaðan sagnfræðing og virtan álitsgjafa – til að ganga til spurninga. Er lífið saltfiskur, var spurt – og svar sagnfræðingsins var já. Þora Íslendingar að styðja lög og rétt í samskiptum þjóða? Eða lúffa þeir alltaf, þegar á reynir, ef komið er við pyngjuna? Ef fiskmarkaðir eru í hættu? Svar sagnfræðingsins var: Lífið er saltfiskur – Íslendingar lúffa alltaf, þegar á reynir.

Lesa meira

Minning: Ólafur Björnsson

Það hefur ekki farið fram hjá okkur, vinum Ólafs, hvað Elli kerling fór lengi vel halloka í glímunni við hann. Það var svo sem eins og við var að búast. Ólafur var ekki vanur því að láta sinn hlut fyrir neinum – fyrr en í fulla hnefana. En að lokum má enginn sköpum renna.

Við sem þekktum Ólaf vel, þóttumst kunna skil á þessu harðfylgi til hinztu stundar. Sumir lifa samkvæmt þeirri kenningu, að allt eyðist sem af er tekið. Og spara kraftana fram í andlátið. Aðrir hafa fyrir satt, að allt eflist sem á reynir. Og hlífa sér því hvergi. Slíkir menn bera fúslega annarra byrðar. Og eflast við hverja raun. Þannig reyndum við Ólaf Björnsson í blíðu og stríðu.

Lesa meira

HÁSKÓLAR: HANDA HVERJUM – TIL HVERS?

INNGANGUR: Gústaf Vasa Svíakonungur er guðfaðir Háskólans í Tartu í Eistlandi, enda var hann frumkvöðull að stofnun skólans árið 1632. Árið 2032 fagnar háskólinn því fjögurra alda afmæli sínu. Af því tilefni var efnt til málþings á vegum Tartu Háskóla þann 11. apríl, 2014 um framtíð háskólamenntunar. Undirbúningur ráðstefnunnar stóð í u.þ.b. tvö ár. Fulltrúar allra deilda háskólans komu að því verki, en sérstakur stýrihópur skipti með mönnum verkum. Málþingið sjálft var síðan haldið til þess að kynna niðurstöðurnar. – Sim Kallas, fv. forsætisráðherra Eista og fv. varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, útskrifaðist á sínum tíma frá Tartu Háskóla. Honum var ætlað að flytja inngangserindið á málþinginu en forfallaðist á seinustu stundu. Á þessum tíma var ég gestafyrirlesari við háskólann og rannsóknarfélagi við RUSUS (stofnun sem fæst við rannsóknir á sviði Evrópu- og Rússlandsmála). Rektor, Volli Kalm, bað mig að hlaupa í skarðið fyrir Kallas. Ég varð við þeirri bón. Hér fer á eftir inngangserindi mitt á málþinginu í Tartu.

1.

UTANRÍKISRÁÐHERRAR þurfa á stundum að fylgja þjóðhöfðingjum í opinberar heimsóknir til annarra ríkja. Ein slík heimsókn til Hertogadæmisins í Luxemborg snemma á tíunda áratug síðustu aldar er mér enn minnisstæð. Ástæðan er sú, að þá komst ég af hendingu í tæri við gamalreyndan stjórnmálamann til að leita skýringa á fágætum árangri þessarar smáþjóðar á sviði efnahagsmála.

Lesa meira

Ólafur Hannibalsson

Með hönd undir kinn, niðursokkinn í bók í eigin heimi. Þetta er fyrsta bernskuminning mín um þennan eldri bróður. Enn í dag finnst mér þessi minningarbrot segja meira en mörg orð um, hver hann var.

Hann varð fluglæs fjögurra vetra af lestri Íslendingasagna. Við hin urðum að láta okkur nægja leiðarana í Skutli. Bókhneigður er kurteislegt orð yfir bókaorminn. Fyrst las hann bókasafn Hannibals (Íslendingasögur, þjóðskáldin, sjálfstæðisbaráttuna). Svo Héraðsbókasafn Hagalíns um það sem upp á vantaði.

Við gátum flett upp í honum, þegar mikið lá við: um vanræktar persónur Íslendingasagna, höfunda stjórnarskrár Bandaríkjanna, rússnesku byltinguna, Bolivar eða fiskveiðar Baska við Íslandsstrendur. Og eiginlega flest þar á milli. Fyrir nú utan ættir Íslendinga og manníf við Djúp.

Lesa meira

Um frelsisbaráttu Eystrasaltsþjóða – aldarfjórðungi síðar

INNGANGUR: Aku Sorainen er Finni að ætt og uppruna en býr og starfar í Tallinn. Hann er stofnandi og forstöðumaður stærstu og þekktustu lögfræðiþjónustu í Eystrasaltslöndum og Hvíta Rússlandi. Með inngöngu sinni í Evrópusambandið þurftu fyrirtæki, opinberar stofnanir og einstaklingar mjög á slíkri þjónustu að halda, ekki hvað síst í Evrópurétti. Sorainen og félagar fögnuðu 20 ára afmæli sínu þann 4. júní s.l.. Af því tilefni efndu þeir til ráðstefnu í Tallinn með fyrirlesurun frá Eytrasaltsþjóðunum þremur og Hvíta Rússlandi. Varnar- og öryggismál voru ofarlega á dagskrá ræðumanna, sem og staða smáþjóða í háskalegum heimi. Aku fékk mig til að opna ráðstefnuna með erindi um ofangreint efni, sem hér fer á eftir. Þetta málþing þótti takast með ágætum. Efni þess að öðru leyti er að finna á vefsetrinu http://www.sorainen.com/ .

1.Endatafl Kalda stríðsins.

Hér koma fyrst tvær þekktar tilvitnanir, okkur til umhugsunar, áður en lengra er haldið: „Fall Sovétríkjanna er stærsta sögulega slysið, sem henti á 20stu öldinni“.

Lesa meira

The Baltic Road to Freedom – revisited

Introduction: Aku Sorainen – a Finn living in Tallinn – is the founder and CEO of the biggest legal service operating in all the Baltic countries and Belarus. June 4th, 2015 Aku and his partners celebrated the 20th anniversary of their highly successful partnership. Aku invited me to give a keynote-speech at the beginning of the conference on the subject: The Baltic Road to Freedom revisited – a quarter century later. The next speaker was Lieutenant General Riho Terras, commander of the Estonian Defence Forces, who dealt with „challenges in Defence and Security“ for the young Estonian Republic. Mart Noorma, founder of the first Estonian student satelite program EST-CUBE, gave an interesting talk entitled: „Who will be on Mars in 2020 and where will we be then?“ Eriks Stendzenieks, president of the Latvian Art Directors´Club in Riga, gave a hilarious talk on how the underdogs (small nations) manage to survive in the animal kingdom. All the proceedings of this remarkable conference can be viewed at http://www.sorainen.com/ .

1. Ending the Cold War

Let me at the outset present you with two quotations – just to start us thinking. Here is the first one:

The dissolution of the Soviet Union is the greatest geo-strategic catastrophe of the 20th century“.

From the point of view of a KGB officer in occupied Germany, Putin´s lament for the fate of the Soviet Union is understandable. After all, didn´t British, French and Spanish colonialists firmly believe in the civilizing mission of their empires?

Continue reading

Hörður Zóphaníasson

Í marsmánuði á næsta ári munu íslenskir jafnaðarmenn minnast þess, að heil öld er þá liðin frá stofnun Alþýðuflokksins og Alþýðusambands Íslands, baráttusamtaka fátæks fólks, sem hafði að leiðarljósi að breyta þjóðfélaginu. Þeir sem þekkja þessa sögu, vita, að höfuðvígi jafnaðarmanna á Íslandi, var að finna á Ísafirði og í Hafnarfirði.

Ég held það sé á engan hallað, þegar ég segi, að Hörður Zóphaníasson þekkti sögu þeirra Hafnarfjarðarkrata manna best. Hörður var vel menntaður kennari og uppeldisfrömuður og hafði stundað framhaldsnám við Kennaraháskólann í Kaupmannahöfn. Uppeldi æskulýðsins var í hans huga hluti af mannrækt jafnaðarmannsins. Þeir sem nutu handleiðslu hans á æskuárum, bera því vitni, að öllum kom hann til nokkurs þroska.

Lesa meira