Þetta má heita hraustlega mælt af manni, sem ekki er ofmælt, að hafi verið bæði útgefandi og ábekingur Icesave-víxilsins. Hvað á ég við? Ég á við það, að Davíð Oddsson forsætisráðherra og samstarfsmenn hans höfðu það í hendi sér, þegar lögin um lágmarkstryggingu innistæðueigenda voru sett 1999, að fara að dæmi Norðmanna og setja fyrirvara, sem hefðu þýtt, að enginn Icesave-víxill hefði fallið á þjóðina. Og sem Seðlabankastjóra á árunum 2006-08 bar Davíð Oddssyni skylda til að grípa til ráðstafana, sem hefðu komið í veg fyrir, að Icesave-víxillinn félli á þjóðina. Hann brást þeirri skyldu, eins og nánar er skýrt í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um Hrunið. Nánar um það síðar.
SÓMI ÍSLANDS, SVERÐ OG SKJÖLDUR?
Grundar dóma, hvergi hann
hallar réttu máli.
Stundar sóma, aldrei ann
örgu pretta táli.
(Sr. Jón Þorgeirsson, Hjaltabakka)
„Hefur þú enga sómatilfinningu, Davíð Oddsson?“ Það mætti segja mér, að þessi orð verði eitt af því fáa, sem eftir situr í minningunni, löngu eftir að kosningabaráttan fyrir forsetakosningarnar anno domini 2016 verður gleymd og grafin.
Guðni Th. Jóhannesson lét þessi orð falla í sjónvarpsþætti á Eyjunni, eftir að Davíð hafði lengi látið móðan mása um, að Guðni hefði staðið gegn þjóðinni og með óvinum hennar í Icesave-deilunni forðum. Guðni hefði m.ö.o. verið landráðamaður. Lesendum skal á það bent að fara með sléttubandavísuna hér að ofan öfugt frá orði til orðs. Þá skilja þeir, hverjum klukkan glymur, vænti ég?