Það er m.ö.o. misskilningur að pólitík snúist um val milli þess að vera markaðssinni eða ríkisforsjársinni. Afnám markaðskerfisins í sovétinu sáluga bauð upp á sveltandi sósíalisma. Stera-kapitalismi – markaðskerfi án ríkisafskipta – endaði í heimskreppu 1929 og lauk ekki fyrr en í heimsstyrjöld sem kostaði tugi milljóna mannslífa. Það var ríkisvaldið sem forðaði okkur frá nýrri heimskreppu 2008. Í millitíðinni hafa nær öll þjóðríki heims orðið fyrir barðinu á bóluhagkerfum og mini-kreppum markaðskerfis, sem var annað hvort án afskipta ríkisvaldsins eða það lét ekki að stjórn. Það þarf ekki frekar vitnanna við að stera-kapítalismi er ósjálfbær. Og það sem verra er: Ef ekki verður gripið í taumana mun hann fyrirsjáanlega tortíma lífríkinu og gera jörðina óbyggilega.
Lesa meiraUM HVAÐ ER PÓLITÍK?
Það er að koma æ betur í ljós að kapítalismi (markaðskerfi) – án afskipta ríkisvaldsins – fær ekki staðist til lengdar. Ástæðurnar eru margar, en sú helst, að samþjöppun auðs og valds á fárra hendur er innbyggð í kerfið. Fjármálakerfi, sem þjónar þeim tilgangi að ávaxta fé hinna ofurríku, breytist í kapítalisma á sterum. Eftirsókn eftir skammtímagróða verður allsráðandi. Það breytist í bóluhagkerfi sem að lokum springur í bankakreppu sem skattgreiðendur – ríkið – verða að bjarga til að forða allsherjarhruni. Þetta gerist með reglulegu millibili. Þetta gerðist á árunum 2008-9. Mörg þjóðríki – ekki síst innan ESB hafa enn ekki náð sér. Þetta á eftir að gerast aftur nema ríkið grípi í taumana í tæka tíð.