Með þessu var Atwood að verja dýrmætustu arfleifð vestrænnar menningar – sjálft réttarríkið. Þegar á reynir, þurfum við öll á vernd þess að halda. Án þess hröpum við aftur niður í villimennsku. Sagan – líka nýleg saga – geymir ótal dæmi um þetta. Aftökur án dóms og laga. Fangelsanir fyrir engar sakir. Nornabrennur. Trúarofsóknir. Skoðanakúgun. Ritskoðun. Bókabrennur. Og það versta er þetta: Valdbeiting af þessu tagi er iðulega í upphafi réttlætt í nafni mannréttinda! Meira að segja Cosa Nostra – ítalska mafían – táknmynd hins gerspillta þjóðfélags, sem þrífst utan við lög og rétt, byrjaði upphaflega sem uppreisn gegn pólitískri harðstjórn. Fleiri dæmi:
TIL VARNAR FEMINISMA II
Í fyrri grein (Fréttablaðið 14.02.19) sagði ég dæmisögu frá Kanada, um það hvernig öfgafeministar eru að koma óorði á feminismann, þar rétt eins og hér. Saklaus maður var lýstur sekur án dóms og laga og líf hans lagt í rúst.
Það var á þeirri stundu, sem Margaret Atwood, dáður höfundur meira en 40 bóka og heimsfrægur talsmaður femínista, kvaddi sér hljóðs í grein sinni „Am I a bad feminist?“ (13. jan 2018) til að segja: „Hingað – en ekki lengra. Um mig hefur verið sagt, að ég hafi brotist til frama á ritvellinum með því að standa blóðug upp að öxlum yfir höfuðsvörðum feðraveldisins. Það var kannski svolítið ýkt. En – kæru systur – nú er mér nóg boðið. Sú var tíð, að við vantreystum réttarkerfinu. En ætlum við að svara fyrir okkur með réttarmorði, utan réttarsala?“
Er þetta ekki klassískur Kiljan: „Vont er þeirra ranglæti, en verra er þeirra réttlæti“?