Þetta er eina sagan sem unnt er að sannreyna, bæði stað og stund. Ég mundi vel að ég hafði ekki komið inn fyrir dyr á ráðherrabústaðnum eftir starfslok í ríkisstjórn um mitt ár 1995, fyrr en mörgum árum síðar (til að sitja fund með utanríkisráðherra Eistlands). Ég spurði því veisluhöld ríkisins, sem annaðist veitingar þar á þessum árum, hvort hann gæti staðfest þetta? Hérna er svarið: „Af gefnu tilefni vottar undirritaður það hér með, að Jón Baldvin Hannibalsson var aldrei veislugestur í Ráðherrabústað á árinu 1996. Sögur um orð hans og athafnir í eða eftir veislu í ráðherrabústað á því ári fá því ekki staðist. Þess skal og getið, að enginn í starfsliði mínu í eldhúsi var eða hefur verið undir lögaldri.“
Leikhússmiðjan ehf?
Ég eyddi kvöldstund í að renna yfir sögurnar um mig eftir konurnar í „stuðningshópi“ Aldísar Schram á netinu. (Þurfti þess vegna væntanlegra málaferla.) Höfundar skiptust í tvo hópa: Annars vegar voru hinar hugrökku, sem sögðu til nafns. Þeim hef ég þegar svarað. Hinar voru sýnu fleiri sem földu sig bak við nafnleynd. Þegar þetta er lesið saman, sést að margt er sameiginlegt með sögunum. Dreissugur valdsmaður misbeitir valdi sínu til að níðast á minnimáttar sakleysingjum. Svo breytist karakterinn í drykkfellt dusilmenni, sem konum og börnum stafar hætta af, þegar rökkva tekur.
Subbulegustu sögurnar eru nafnlausar. Það þýðir að höfundarnir þora ekki að standa við orð sín. Og sá sem rægður er, fær engum vörnum við komið. En ein sagan er undantekning að því leyti að þar er getið um stað (Ráðherrabústaðinn) og stund (árið 1996). Sagan er svona: Valdamaðurinn er veisluglaður en situr áfram eftir veislulok. Og er enn þurfandi. Hann er sagður æpa yfir tóman salinn: „Mig vantar kvenmann.“ Þegar engin gegnir kallinu, ryðst hann fram í eldhús og hremmir þar stúlkubarn. Hún er sögð 16 ára í sögunni, en verður 13 ára í endursögnum samfélagsmiðla.