
Frá Borgarleikhúsinu
Það var hálfgerður hrollur í mér, þegar ég sneri heim á leið að lokinni frumsýningunni. Það var ekki bara veðrið, sem vakti mér þennan hroll, heldur var það upplifun kvöldsins. Elsku barn er ágengt, miskunnarlaust og hreinskiptið verk. Það snertir mann inn í kviku og kemur róti á tilfinningarnar. Auk þess er það snilldarlega skrifað, samtölin bæði raunveruleg og sannfærandi – óþægilega sannfærandi – (þó að flæðið sé mjög þægilegt!) Það fjallar um sannleikann í samskiptum fólks, og hvernig má afvegaleiða sannleikann sjálfum sér til framdráttar.