Satt og logið

Ég veit ekki, hvort það hefur farið fram hjá ykkur, en í þessari viku var haldin meiri háttar ráðstefna í Norræna húsinu á vegum Alþjóðamáladeildar Háskóla Íslands. Þar höfðu framsögu bæði forseti Íslands, Guðni Jóhannesson og utanríkisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir  –  og stóðu umræður langt fram eftir degi.

Ég heyrði bæði ræðu forsetans og utanríkisráðherra. Forsetinn leyfði sér jafnvel þann munað að vera persónulegur og gera grín að sjálfum sér. Það fer honum reyndar mjög vel.

Bæði tvö fóru yfir farinn veg, ræddu tímamót í lífi þjóðar, og hvaða alþjóðlegir samningar hefðu reynst henni best og bætt hag allra landsmanna. Þau voru bæði sammála um – og lögðu áherslu á – að mikilvægastur allra samninga frá upphafi, væri EES-samningurinn!

Lesa meira

Konur eru konum verstar

Niðurlægingin fullkomnuð – lygarinn hafði betur. Eftir síðustu aðför íhaldsins að mannorði mínu og mannsins míns, get ég ekki lengur orða bundist. Mig  langar til að segja ykkur söguna eins og hún er.

Og takist mér ekki að hreinsa mannorð mitt, þá hef ég lifað til einskis – og get látið mig hverfa.

Ég er satt að segja búin að fá mig fullsadda af viðbjóðslegum lygasögum um manninn minn, Jón Baldvin Hannibalsson – alltaf ljótari og hatursfyllri með hverju árinu. Ég  hef verið gift þessum manni í 64  ár og veit, hvern mann hann hefur að geyma. Sá maður á ekkert skylt við þá lýsingu, sem dregin er upp af honum af hatursfullu fólki á samfélagsmiðlum.

Þess vegna geri ég orð dóttur okkar, Aldísar, að mínum, en hún sagði í viðtali einhvern tíma:  “ ….má hann aldrei njóta sannmælis?“

Og áður en lengra er haldið, langar mig til að segja við ykkur, lesendur góðir, að ég hef heldur aldrei – ég endurtek, aldrei –  heyrt manninn minn, tala af slíkri óvirðingu, heift og hatri um nokkra manneskju, eins og ég hef orðið vitni að í íslenskum fjölmiðlum um hann.   

Og þegar jafnvel Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lýsir manninum mínum sem „rándýri, sem situr um ungar stúlkur eins og villidýr um bráð“, þá var mér allri lokið. Þessi orð lýsa botnlausu hatri og hefndarhug. Hvað hefur maðurinn gert á hennar hlut? Hann dró sig í hlé út úr íslenskri pólitík til þess að draumurinn um sameiningu jafnaðarmanna sem valkost við fjármálaöflin, gæti rætst.

Lesa meira

Um illskuna

Eftir Bryndísi Schram

Eins og þið getið kannski ímyndað ykkur, þá er ég stöðugt að velta fyrir mér þessum undarlega atburði á þakinu okkar í Salobrena um miðjan júní árið 2018 – fyrir fimm árum, hugsið ykkur! Það var aðeins nokkrum vikum, áður en ég fagnaði! áttatíu ára afmæli mínu meðal vina hinum megin á hnettinum.

En það er önnur saga.

Laufey, gömul vinkona frá Ísafirði – að vísu miklu yngri ég – var í heimsókn þessa helgi ásamt dætrum sínum tveimur, sem ég að vísu þekkti eiginlega ekkert. Sú eldri var eitthvað á fertugsaldri – Carmen, en sú yngri, Emilíana,  þrettán eða fjórtán ára. Áttu sinn hvorn föðurinn og aldar upp af móður sinni. Þær búa allar núna í Torrevieja, sem er þorp í norðausturhluta Spánar – í fimm hundruð kílómetra fjarlægð frá þorpinu okkar.

Ég á mörg falleg bréf frá Laufeyju. Til dæmis skrifaði hún eftirfarandi orð þann 1. Janúar þetta sama ár, 2018:

„Kæra Bryndís. það gaf mér mikinn lífsstyrk að fá að kynnast ykkur sem unglingur. Fá að eiga ykkur í huga og hjarta var svo sannarlega gott að hafa í farteskinu, þegar lagt var af stað frá litla þorpinu, Ísafirði – út í heim. Ég gat því borið höfuið hátt og verið stolt, því að innst inni vissi ég, að ykkur þætti vænt um mig.“

Lesa meira

Enn eitt lettersbréf

Nú erum við aftur snúin til Pugliu eftir ógleymanlega sjö daga í Eistlandi. Þar var dekrað við okkur  frá morgni til kvölds –   fundahöld, móttökur, ferðalög  –  og stórkostlegar veislur dag eftir dag. Jafnvel hótelið sjálft skartaði stórum íslenskum fána við aðaldyrnar, þar sem á stóð “Velkominn  Hannibalsson“.

Þegar ég ferðast með manni mínum til Eystrasaltslandanna,  kemur oft upp í huga mér mynd úr fortíðinni: Pabbi minn, Björgvin, var fótboltasnillingur og  spilaði með KR árum saman. Hann var ótrúlega vinsæll. Jafnvel löngu eftir að hann var búinn að leggja fótboltaskóna á hilluna, var hann enn stjarna og með hugann við KR –  fór á alla leiki. Það kom fyrir, að hann bauð mér að koma með sér, smástelpunni.  Og það sem ég man best eftir öll þessi ár, var sú aðdáun, einlæg  vinátta –  og jafnve lotning , sem skein út úr hvers manns  andliti. Það vildu allir taka í höndina á honum og segja eitthvað fallegt við hann. Hann var enn stjarna í þeirra augum.

Og þannig er það líka með manninn minn, Jón Baldvin.  Við komum oft  í heimsókn til Eystrasaltslandanna – sama hvort það er Eistland, Lettland eða Litháen –  allir   vilja heilsa honum, tjá þakklæti sitt, fá að snerta hann. Hann er enn stjarna í þeirra augum –  bjargvættur, lífgjafi. Og ég fæ tár í augun. Það er eitthvað svo ljúft að  vera meðal vina,  finna til öryggis.

Lesa meira

Eitt lítið lettarsbréf – loksins

Bráðum liðnir fjórir mánuðir frá því yfirgáfum landið – og við á fleygiferð allan þennan tíma. Okkur tókst að selja fallega húsið okkar í Salobrena í lok október, og  við notuðum síðustu vikurnar til þess að ganga vel frá öllu, kasta gömlum fötum, setja hreint á rúmin, tæma ísskápinn og kyssa myndirnar  á veggjunum – sem hafa gert sig heimankomnar þar öll þessi ár. Það voru ekki bara Hugrún, Fitore, Marta og sú litháiska (sem ég man ekki hvað heitir), sem gerðu mér glaða daga –  heldur líka sjálfur Botero, meistarinn frá Kolombíu  –  eða svo hét það alla vega undir myndinni af dansandi tangopari og keypt á flómarkaði í Almunecar fyrir nokkrum árum! Alla vega alveg í anda Boteros,  klunnaleg, en samt sporlétt, ófríð en samt svo sæt – það gerir brosið!                                                                                                                             

 Já, í heil fimmtán ár hefur þetta látlausa Márahús gert okkur glaðan dag og verið okkur skjól, þegar áreitið gerðist hatrammt og deyðandi á síðustu árum. Fyrir það erum við þakklát og hlökkum til að byrja nýtt líf á nýjum stað.

Við þurftum líka að kveðja alla vinina, sem hafa safnast að okkur þessi ár, bæði heimamenn og aðkomufólk. Aðkomufólkið, sem þurfti leiðbeiningar og tilsögn í upphafi –  kannski trúnað – og heimafólkið, sem var svo feimið til að byrja með. Nú var eins og við hefðum alltaf þekkst – koss á vanga og brosandi augu.

Lesa meira

Sviðsmynd á torginu

Jón Baldvin hefur orðið:

Þessi súrrealiska sviðsmynd átti sér stað í veðurblíðunni hérna á torginu í gær.

Við Bryndís vorum að bjóða hana Önnu, vinkonu Kolfinnu frá Úkraínu, velkomna frá hörmungum stríðsins – griðastund. Það var Pálmasunnudagur og margt um manninn í hátíðarskapi á torginu. Sól og blíða. Allt í einu tökum við eftir því, að ókunnugur maður í viðhafnarklæðum birtist á torginu og stefndi beint að okkur. Hann gengur hægum en virðulegum skrefum að borðinu og einblínir festulega á okkur – þ.e.a.s að Bryndísi. Smám saman áttum við okkur á því, að maðurinn er að syngja eitthvað. „Volare – uh, uh, uh – cantare – uh,uh,uh. Allt í einu rennur upp fyrir okkur, að þetta er vinsæll, ítalskur slagari, frá sjöunda áratug seinustu aldar. Við gátum meira að segja tekið undir viðlagið. Það var af því, að hann Púlli, bekkjarbróðir okkar, sem stúdereraði arkitektur í Róm, gerði það að gamni sínu að þýða texta vinsælla ítalskra dægurlaga og senda Hauki Mortens. Sá kunni gott að meta og söng þetta á Borginni við góðar undirtektir. En – hvers vegna var maðurinn að raula þetta yfir okkur og hafði ekki augun af Bryndísi á meðan? Allt í einu rann það upp fyrir mér, að maðurinn var rígfastur – í miðju stórveldistímabili ítalskra kvikmynda milli fimmtíu og sextíu á liðinni öld. Það var þegar Fellini og Antonioni gerðu garðinn frægan,og prímadonnur þeirra öðluðust heimsfrægð: Anna Magnani, Gina Lolobrigida og Soffía Loren urðu heimagangar í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Maðurinn sá á svipstundu, að þarna sat ein af þeim. Hann gat bara ómögulega munað, í hvaða mynd hún hafði leikið!

Þegar maðurnn var á bak og burt, staðfesti þjónninn, að afi hans hefði sagt honum, að sá gamli hefði verið stjarna á sínum tíma – eins konar Haukur Mortens Ítalíu. Hann birtist okkur þarna eins og afturganga frá liðinni tíð – glæsiskeiði, sem aldrei kemur aftur.

Sigríður Ragnarsdóttir, minning

Þetta var að áliðnu hausti á Ísafirði á áttunda áratugnum. Við vorum á kvöldgöngu í gamla bænum niðri á Eyrinni. Það sem fangaði athygli okkar var, að það barst tónlist út um glugga í nærri því öðru hverju húsi – allt frá Mozart og Chopin til Jóns Leifs og Sigvalda Kaldalóns. Um stund fannst okkur, eins og við værum stödd í Bæheimi, þar sem við höfðum orðið vitni að svipaðri stemningu.

Við vorum að upplifa sérstaka arfleifð Ísafjarðar, allt frá tímum Jónasar Tómassonar, sem stofnaði fyrsta tónlistarskólann snemma á liðinni öld, til Ragnars H. Ragnar og konu hans, Sigríðar Jónsdóttur frá Gautlöndum, sem glæddu tónlistarlíf Ísfirðinga nýju lífi upp úr Seinna stríði.

Lesa meira

Rógur eða rannsókn?

Páll Magnússon, frændi minn – þjóðkunnur fjölmiðlamaður – var um daginn í „sómaviðtali“ við Sölva Tryggvason. DV tínir svo það sem fréttnæmt þykir upp úr viðtalinu undir fyrirsögninni: „Segir, að fréttir af veislu Jóns Baldvins og Bryndísar hafi markað  ákveðin tímamót“.

Ég trúi varla mínum eigin augum.

Í viðtalinu er Páll að hæla sjálfum sér fyrir að hafa staðið dyggan vörð um ritstjórnarlegt sjálfstæði sitt gagnvart eigendum/útgefendum. Gott, ef hann er ekki að lýsa sjálfum sér sem brautryðjanda í rannsóknarblaðamennsku. En dæmið sem hann tekur, rennir ekki beinlínis stoðum undir sjálfshólið: Síendurteknar lygafréttir hans um, að Jón Baldvin – þá fjármálaráðherra – hafi látið skattgreiðendur borga veislu í tilefni af 50 ára afmæli mínu. Rannsókn Ríkisendurskoðunar leiddu í ljós, að þetta var og er tilhæfulaust með öllu. Bara rógur.

Lesa meira

DRAUMURINN HENNAR MÖMMU

Hátíðarræða flutt þann 9. júní, 2023 á 65 ára stúdentsafmæli skólasystkina úr Menntaskólanum í Reykjavík.

Kæru vinir og skólafélagar.

Þegar ég lít í öll þessi andlit, sem ég er búin að þekkja í meira en hálfa öld, minnist ég þeirra á kveðjustund árið 1958. Við vorum búin að setja upp stúdentshúfurnar og vorum að byrja nýtt líf – á leið út í heim. Eftirvæntingin skein út úr hverju andliti, líka tilhlökkun, forvitni, gleði –   jafnvel kvíði. Og nú erum við hér samankomin 65 árum seinna. Og ég sé þessi sömu andlit. Yfir þeim er værðasvipur,  jafnvel feginleiki, nú þegar þessi langa vegferð er að baki.

Úr þessu getum við engu breytt.

Áður en ég held áfram, langar mig til að nota tækifærið og færa einni konu sérstakar þakkir okkar allra fyrir að hafa stöðugt í öll þessi ár minnt okkur hverja á aðra (eða hvert á annað), haldið þessum sundurleita hópi saman – þannig að við misstum aldrei alveg sjónar hvert af öðru í amstri daganna. Allt er þetta henni Sigríði Dagbjartsdóttur að þakka. Þess vegna er þessi hátíð í kvöld. Hún hefði ekki orðið nema fyrir tilstuðlan Sigríðar. Og innilegar þakkir fyrir það, Sigríður,  og fyrir höfðinglegar móttökur á þínu fallega heimili í dag.

Hafi einhver ykkar gert ráð fyrir því, að ég byði upp á fræðilega greiningu á stöðu og hlutverki skólans okkar í samfélaginu, eiga þau hin sömu eftir að verða fyrir vonbrigðum. Það bíður betri tíma. Kannski eitthvert okkar geri það bara á hundrað ára afmælinu?!

Lesa meira

Niðurlægingin fullkomnuð – lygarinn hafði betur.

          (Ritað vorið 2023)

Ég er satt að segja búin að fá mig fullsadda af viðbjóðslegum lygasögum um manninn minn, Jón Baldvin Hannibalsson – alltaf ljótari og hatursfyllri með hverju árinu. Ég  hef verið gift þessum manni í 64  ár og veit, hvern mann hann hefur að geyma. Sá maður á ekkert skylt við þá lýsingu, sem dregin er upp af honum af hatursfullu fólki á samfélagsmiðlum. Þess vegna geri ég orð dóttur okkar, Aldísar, að mínum, en hún sagði í viðtali einhvern tíma:  “ ….má hann aldrei njóta sannmælis?“

Og áður en lengra er haldið, langar mig til að segja við ykkur, lesendur góðir, að ég hef heldur aldrei – ég endurtek, aldrei –  heyrt manninn minn, tala af slíkri óvirðingu, heift og hatri um nokkra manneskju, eins og ég hef orðið vitni að í íslenskum fjölmiðlum um hann.   

Lesa meira