Sigurður stóð við þetta áheit konu sinnar. Skömmu eftir að hann lét af störfum sem framkvæmdarstjóri Húsnæðisstofnunar ríkisins, eftir tæplega 30 ára starfsferil þar, bjó hann um sig á Þjóðarbókhlöðunni. Þar sat hann löngum stundum umkringdur stöflum af þingmálum, lagabálkum, skýrslum og greinagerðum um það, hvernig fátækt fólk var smám saman leyst úr fjötrum örbirgðar og öryggisleysis, fyrir tilverknað vaknandi verkalýðshreyfingar og hins pólitíska arms hennar, flokks íslenskra jafnaðarmanna.
Sigurður E Guðmundsson; Minning
„Þú heldur áfram þegar ég er farinn“. Þetta sagði Aldís Pála, kona Sigurðar, við mann sinn skömmu áður en hún lést árið 2007. Hún var að vísa til magnum opus Sigurðar – kórónunnar á ævistarfi hans: „Öryggi þjóðar – frá vöggu til grafar -. Þetta er heitið á stórvirki, um uppruna og sögu velferðarþjónustu á Íslandi frá lokum 19du aldar til loka seinni heimstyrjaldar, sem Sigurður hefur unnið sleitulaust að s.l. áratug, allt til hinsta dags.