DAGSHRÍÐAR SPOR SVÍÐA. Formáli að Fóstbræðrasögu

Ítalskur fræðimaður, Antonio Costanzo, bað mig að skrifa formála að væntanlegri ítalskri útgáfu á Fóstbræðrasögu, sem hann ritstýrir. Kolfinna dóttir mín hafði sagt honum, að ég væri eiginlega sveitungi Kolbrúnarskáldsins, þótt aldursmunur væri nokkur. Af þessum sökum fannst Sr. Constanzo, að mér hlyti að renna blóðið til skyldunnar að halda orðstír Kolbrúnarskáldsins á loft. Voilá!

FÓSTBRÆÐRASAGA – ein fjölmargra Íslendingasagna – var fyrst færð í letur á íslensku fyrir meira en 700 árum. Aðalsögupersónurnar – vígamaðurinn og skáldið – eru sagðar hafa verið uppi fyrir um 1000 árum, undir lok Víkingaaldar. Þá höfðu norrænir menn þegar numið lönd á Íslandi og Grænlandi og náð tímabundið fótfestu á ströndum N-Ameríku, hálfu árþúsundi á undan Kólumbusi. Sögusvið Fóstbræðrasögu er þessi heimur, sem víðátta Altlantshafsins aðskilur og tengir saman.

1.

Þrátt fyrir þessa firrð í tíma hefur Þormóður Kolbrúnarskáld – önnur aðalpersóna sögunnar – alltaf staðið mér nærri, bæði í tíma og rúmi. Að hluta til er það trúlega vegna þess, að við vorum sveitungar, næstum því nágrannar. Ögur hefur um aldir verið eitt helsta höfuðból við Djúp. Þetta fornfræga sveitarsetur er að mínu mati, bæði miðpunktur – og vendipunktur – sögunnar. Á þessum bæ ólst ég upp á sumrum á unglingsárum mínum um miðbik seinustu aldar. Laugaból, þar sem Þormóður ólst upp (að vísu einu árþúsundi fyrr) er svo til næsti bær. Við fórum þangað iðulega ríðandi frá Ögri. Bændum á Laugabóli og næstu bæjum er enn tíðförult í Ögur, sem er samgöngumiðstöð héraðsins, m.a. fyrir útskipun á afurðum bænda og fyrir aðdrætti alla.

Lesa meira

NÝ STEFNUSKRÁ HANDA JAFNAÐARMÖNNUM

Dagana 13. til 22. maí, 2011 komu um 370 stúdentar frá 40 þjóðum saman í Thüringen í Þýskalandi til þess að skiptast á skoðunum um frelsið. Gestgjafinn var samstarfsnet háskóla í Türingen – í borgunum Weimar, Jena, Erfurt, Ilmenau o.fl.. Þetta var í tíunda sinn, sem þessir aðilar efna til alþjóðlegs málþings af þessu tagi. Íbúar þessara háskólaborga opna heimili sín fyrir gestum þessa tíu daga, sem málþingið stendur. Við það myndast tengsl milli heimamanna og hinna erlendu gesta, sem einatt standa órofin, löngu eftir að gestirnir hafa kvatt og horfið til sinna heima.

Fyrir utan opinbera fyrirlestra (sem standa öllum opnir) um helstu þætti meignþemans hverju sinni, mynda hinir erlendu stúdentar samstarfshópa með heimamönnum til að ræða efni fyrirlestranna í þaula. Meðan á málþinginu stendur vinna stúdentarnir að ýmsum verkefnum í tengslum við umræðuefnin: Þeir reka útvarpstöð, gefa út blöð og bæklinga, búa til heimildamynd og gefa út bók með helstu fyrirlestrum og niðurstöðum umræðuhópa.

Lesa meira

HVAÐ HEFUR LÝÐVELDIÐ ÞEGIÐ Í ARF – FRÁ SJÁLFSTÆÐISFLOKKNUM?

Hugleiðingar í tilefni af bók Þórs Whitehead um “Sovét Ísland”. Grein skrifuð í febrúar 2011

Athugasemd skrifuð 17.6.2011: Jakob Ásgeirsson, ritstjóri ÞJÓÐMÁLA, sendi höfundi þessara hugleiðinga bók Þórs Whitehead, Sovét-Ísland, með beiðni um umsögn. Að fenginni eftirfarandi ritsmíð hafnaði ritstjórinn birtingu og sagði “ekki við hæfi að þetta litla tímarit mitt birti gagnrýni af þessu tagi á hægri stefnu á Íslandi. Þjóðmál voru einmitt sett á fót til að koma öndverðum sjónarmiðum á framfæri, þar sem það væri svo hressileg vinstri slagsíða á fjölmiðlum á Íslandi (Morgunblaðið var þá nánast ómengað vinstra blað). Þjóðmál er því ekki vettvangur fyrir ólík sjónarmið (leturbreyting JBH)… heldur ákveðið hægri blað, sem heldur fram hægri sjónarmiðum. Ég get því ekki birt greinina, því að hún er bein árás á hægri stefnu og á því heima á öðrum vettvangi.” – Þá vitum við það. Ég vek athygli á, að hugleiðingar mínar eru um bók sem ber heitið SOVÉT-ÍSLAND. JBH

P.s.Þessi grein hefur verið á vergangi mánuðum saman. Hún var pöntuð fyrir ÞJÓÐMÁL – en hafnað af ritstjóranum að loknum lestri, sbr. ummælin hér að ofan. Þá var hún send til birtingar í TMM. Karl Th. Birgisson vildi fá hana til birtingar í Herðubreið, en það hefur dregist, að HERÐUBREIÐ líti dagsins ljós. Þá var hún endursend til Guðmundar Andra á TMM – en um seinan. Ekki veit ég, hvers Sovét-Ísland – óskalandið hans Þórs Whitehead á að gjalda. Greinin er ekki um þá bók, heldur er hún hugleiðingar, sem vöknuðu við lestur þeirrar bókar, um íslenska valdakerfið. Hér birtist hún loksins á heimasíðu minni, eftir ómælda hrakninga, aðgengileg þeim sem áhuga hafa á efninu. – Sami

“Atburðirnir 9. nóvember sýndu ljóslega, að í raun er ekkert ríkisvald á Íslandi”.

– de Fontenay, sendiherra Dana á Íslandi til Thorvalds Stauning, forsætisráðherra, í skýrslu um Gúttóslaginn 9. nóv., 1932.

Lesa meira

Að kjósa – til hvers?

Hvað var svona merkilegt við spænsku kosningarnar (til sveitar- og héraðsstjórna) þann 22. maí sl.? Það er varla í frásögur færandi, að stjórnarflokknum, jafnaðarmönnum, var refsað fyrir að hafa brugðist seint og illa við váboðum kreppunnar. Hitt er merkilegra, að stjórnarandstaðan – íhaldið, arftakar Francos – styrkti að vísu stöðu sína, en var samt fjarri því að sópa til sín fylgi, þrátt fyrir ábyrgðarlausa og harðvítuga stjórnarandstöðu. Hvað var svona merkilegt við spænsku kosningarnar (til sveitar- og héraðsstjórna) þann 22. maí sl.? Það er varla í frásögur færandi, að stjórnarflokknum, jafnaðarmönnum, var refsað fyrir að hafa brugðist seint og illa við váboðum kreppunnar. Hitt er merkilegra, að stjórnarandstaðan – íhaldið, arftakar Francos – styrkti að vísu stöðu sína, en var samt fjarri því að sópa til sín fylgi, þrátt fyrir ábyrgðarlausa og harðvítuga stjórnarandstöðu.

Hinir ungu og hinir vonsviknu, sem refsuðu krötunum fyrir að hafa brugðist vonum sínum, kusu heldur ekki íhaldið, enda ekkert þangað að sækja nema sérhagsmunavörslu og purkunarlausa pólitíska spillingu. Hvað gat fólk þá kosið? Það er málið.

Lesa meira

Að kenna öðrum um. JBH svarar SG

Takk fyrir tilskrifið, 05.06.11.

Öll þín viðleitni til að gera okkur jafnaðarmenn samseka Sjálfstæðis-Framsóknarflokknum um að hafa í reynd einkavætt sjávarauðlindina, í blóra við lagaákvæðið, sem við knúðum fram um þjóðareign, stendur eða fellur með einu orði: Framsali og framkvæmd þess.Nú er það svo, að framsalsréttur á veiðiheimildum milli útgerða – þ.e.a.s. á nýtingarréttinum en ekki eignarréttinum, skv. ströngum reglum – er nauðsynlegur í aflamarkskerfi, ef fiskveiðistjórnunin á að skila tilætluðum árangri sem er:

  • að minnka flotann (sóknargetu, offjárfestingu)
  • að lækka tilkostnað við veiðarnar (sækja heimilaðan afla með færri skipum) )
  • að auka hagnað útgerða og arðsemi veiða (þ.m.t.að bæta kjör sjómanna) )
  • að auka sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar (með því að takmarka sókn og draga úr frákasti vegna meðafla) )

Framsalsréttur þýðir ekki, að handhafar veiðiheimildar (sem er lögum samkvæmt tímabundinn nýtingarréttur) geti selt það, sem þeir ekki eiga, eins og um einkaeign væri að ræða – nema stjórnvaldið leyfi það í framkvæmd eða láti það afskiptalaust. Það fer allt eftir framkvæmdinni.

Lesa meira

Styrmir Gunnarsson: Ummæli 2 við greinina In Search of Freedom: IT´S ALL ABOUT EQUALITY, STUPID!

Á bls 7-8 í ræðu þinni segir þú:

“Before the turn of the century a new generation of neo-conservative leaders, many of them with their MBAs from esteemed American Universities (hverjir eru það? innskot SG)overtook the Conservative Party and assumed a leading role in the government og the country. They remained in power for three consecutive terms, until they were ultimately thrown our in a popular uprising, affectionately dubbed the “pots- and pans” revolution in early 2009.

Having reached power those young idealists immediately proceeded with implementing their programme according to the book. They privatized the fisk quotas and handed them out for free to favoured companies.”

Í bréfi mínu til ykkar hinn 15. maí sl. sagði ég um þessa ræðu:

“Þetta er mjög fín ræða en í henni eru þó veikleikar. Söguskýring höfundar á bls. 8 gengur ekki upp.”

Lesa meira

ÍSLANDSSAGA HANDA BYRJENDUM

SJÁLFSTÆÐ ÞJÓÐ – trylltur skríll og landráðalýður, er ný bók eftir dr. Eirík Bergmann, dósent við Háskólann á Bifröst. Í bókinni segir höfundur, að orðræða sjálfstæðisbaráttunnar við Dani – um Íslendinga sem saklaus fórnarlömb erlendrar nýlendukúgunar, þar sem allt sem aflaga fór, var öðrum að kenna – móti enn umræðuhefð stjórnmálamanna og almennings um samskipti Íslands við umheiminn.

Inngangan í NATO (1949), varnarsamningurinn við Bandaríkin (1951), inngangan í EFTA (1970), EES-samningurinn (1994), Icesave – samningarnir (2010-11), hjálparbeiðnin til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (2008) og umsóknin um aðild að Evrópusambandinu (ESB) 2009 – allt hefur þetta verið rætt á Alþingi Íslendinga undir þeim formerkjum, að um sé að ræða samsæri gegn þjóðinni, endalok sjálfstæðis, landsölu og landráð; ráðamenn þjóðarinnar eru í alvöru sakaðir um að sitja á svikráðum við þjóðin og að ganga erinda erlendra þjóða, sem ásælist auðlindir Íslendinga.

Lesa meira

Á SPÆNSKU KOSNINGAKVÖLDI

Það er kosningakvöld á Spáni.Við sitjum fyrir framan stóran skjá á notalegri krá hérna uppi á klettinum og fylgjumst með kosningatölum. Það var að vísu ekki við góðu að búast. Zapatero klikkaði á kreppunni og var lengi vel í afneitun um alvöru málsins. Hann brást við of seint. Þegar hann loksins tók á málinu, voru aðgerðirnar óumflýjanlega harkalegri en ella hefði verið. Ég var þess vegna viðbúinn vondum fréttum. Samt þyngdist á mér brúnin, eftir því sem leið á kvöldið. Íhaldið – arftakar Francos í spænskri pólitík – virtust vaða uppi víðast hvar. Um mitt kvöldið var Barcelona – höfuðvígi lýðveldissinna – fallin í hendur óvinanna. Síðla kvölds var Castilla-La Mancha farin sömu leið. Og rétt fyrir miðnættið var sjálf Sevilla, höfuðborg Andalúsíu, gengin okkur úr greipum.

Tölurnar komu svo ótt og títt yfir borgir og bæi þessa víðlenda lands og vondu fréttirnar hrönnuðust upp svo ört, að það var erfitt að halda yfirsýn. En áður en upp var staðið, var þó ljóst, að við höfðum haldið Katalóníu (með heimastjórnarmönnum). Og höfuðvígi okkar jafnaðarmanna á Spáni, eftir fall Francos, Andalúsía, stóð að lokum af sér áhlaupið, en með naumindum þó.Og allar helstu borgirnar, Sevilla, Córdoba og Granada, voru fallnar í hendur íhaldsins. Þegar búið var að telja meira en 95% atkvæða, stóð íhaldið uppi sem sigurvegari með 37%, en við kratarnir sátum upp með 27.8% .Það var verið að refsa Zapatero fyrir að hafa brugðist í brúnni í kreppunni.

Lesa meira

JBH svarar Styrmi Gunnarssyni

Ólikt höfumst við að. Þú flytur göbbelskar áróðursræður yfir Heimdellingum og óðinshönum, þar sem þú lofsyngur Sjálfstæðisflokkinn sem helsta baráttutæki kúgaðs fólks gegn heimsauðvaldinu. Og færð “standing ovation” fyrir vikið. Þetta er svo ósvífið og veruleikafirrt, að manni blöskrar. Sendi ég þér ekki grein mína, sem Jakob í Þjóðmálum neitaði að birta um arfleifð Sjálfstæðisflokksins á lýðveldistímanum? Lestu hana aftur.

Ég ræddi í alvöru við alþjóðlegan hóp stúdenta í Þýskalandi um það, hvernig “casínó” – kapítalisminn bandaríski hefði á skömmum tíma aukið ójöfnuð og misrétti í heiminum, og uppskar í framhaldinu málefnalega umræðu um, hvort unnt væri að beita lýðræðislegum aðferðum, í krafti ríkisvalds þjóðríkja, til þess að beisla skepnuna (kapítalismann) og stuðla að meiri jöfnuði að dæmi Norðurlandabúa. Þar kom engum til hugar að halda því fram, að Evrópusambandið væri höfuðvígi heimskapítalismans. Er það ekki bara uppfinning þín og skoðanabræðra þinna í þjóðernissinnaarmi Vintri-grænna?

Lesa meira

Styrmir Gunnarsson: Ummæli við greinina In Search of Freedom: IT´S ALL ABOUT EQUALITY, STUPID!

Þetta er mjög fín ræða en í henni eru þó veikleikar. Söguskýring höfundar á bls. 8 gengur ekki upp. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur settu kvótakerfið á í árslok 1983. Þá var aðeins einn maður á Alþingi sem benti á þær hættur, sem í því voru fólgnar, Guðmundur Einarsson. Þegar þið voruð komin í stjórn 1987 var sett inn í lögin ákvæði um sameign þjóðarinnar. Það er það eina, sem þið jafnaðarmenn getið hrósað ykkur af í þessu máli en skiptir vissulega sköpum.

Á bls. 8 horfir JBH algerlega fram hjá því, að það var vinstri stjórn Steingríms Hermannssonar, sem setti lög um frjálst framsal veiðiheimilda. Það var ekki Sjálfstæðisflokkurinn, sem gerði það. Það voru ekki neo-conservativir í Sjálfstæðisflokknum, sem gerðu það. Það voru Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag og Borgaraflokkur,sem sáu um að koma þeirri þróun af stað, sem bjó til fyrstu milljarðamæringana á Íslandi og lagði grundvöll að valdatöku peninganna á Íslandi. Þetta höfum við JBH talað um áður og hann verður að horfast í augu við þennan veruleika og leggja út frá honum eins og hann sannanlega er.

Lesa meira